Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 15:53:00 (1846)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Auðvitað má ræða lengi um þessi mál og það mun ég gera seinna. En í andsvari liggur að spyrja hæstv. ráðherra um meginatriði máls og satt að segja var óvenjulegt að hlusta á þessa ræðu, einkum þar sem hæstv. félmrh. á í hlut. Sú var tíðin að hún talaði á annan veg um málefni fatlaðra og fjárlög.
    Ég vil spyrja hana vegna þess að ég þoli ekki að heyra fólk segja eitt í dag og annað á morgun. Hæstv. ráðherra segir að nýtt frv. sé á leiðinni um málefni fatlaðra þar sem ætlunin er að flytja meiri álögur yfir á sveitarfélögin. Spurning mín til hæstv. ráðherra er því þessi: Hvers vegna sneri hún sér þá til ríkisins þegar hún flutti tillöguna í fyrsta skipti? Hún er jú upphafsmaður að Framkvæmdasjóði fatlaðra sem þá hét Framkvæmdasjóður öryrkja, minnir mig. Þá datt hæstv. ráðherra auðvitað ekki í hug að ætlast til þess að lítil og fátæk sveitarfélög gætu séð fyrir þessum framkvæmdum. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum hefur hæstv. ráðherra skipt um skoðun á þessum tíu árum um að nú sé allt í lagi að fela sveitarstjórnunum að annast þessi mál?
    Hún minntist einnig á að þær álögur sem hæstv. fyrrv. félmrh. lagði á sveitarfélögin og talaði um að það hefði verið nóg, en samt sem áður hyggst hún nú enn bæta við þær álögur. Allur þessi málflutningur er ekki raunhæfur og ekki bjóðandi hv. Alþingi. Sem sagt, megininntak máls míns er þetta: Hvað hefur gerst á tíu árum sem hefur gjörbreytt því viðhorfi hæstv. félmrh. að ríkið skuli ekki annast málefni fatlaðra heldur sveitarfélög?