Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 15:56:00 (1848)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. staðhæfir í ræðu sinni að málefnum fatlaðra sé vel fyrir komið í fjárlagafrv. eftir væntanlegar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Ég vil benda á það að í fjárlagafrv. eru 60 nýjar stöður vegna fatlaðra en niðurskurður rekstrarviðfangsefna og launa um 6,7% bitnar auðvitað á þessum málaflokki. Síðan stendur í minnisblaði frá fjmrh. til ríkisstjórnarinnar 3. des. að allar nýráðningar verði stöðvaðar. Ef þetta er ekki niðurskurður er merking þess orðs öðruvísi en í minni orðabók.
    Síðan er gott að heyra að undanhaldið er byrjað, en ég vil mótmæla því að samráð hafi verið haft við sveitarfélögin um þessi mál. Hér stendur í yfirlýsingu stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga síðan í gær, 11. des., með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin hefur nú einhliða og án alls samráðs við sveitarfélögin og samtök þeirra lagt fram tillögur um breytingar á tveimur veigamestu tekjustofnum sveitarfélaga, útsvari og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.`` Síðan segir: ,,Ekkert samráð hefur verið haft við forsvarsmenn sveitarfélaganna né við Samband ísl. sveitarfélaga um þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur nú lagt fram.``
    En nú á að fara að tala við menn eftir á og undanhaldið er byrjað og það er þó gott að sjá það að okkar málflutningur hefur þó borið einhvern árangur.