Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 16:00:00 (1851)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð vegna fullyrðinga og upplýsinga hæstv. félmrh. um fjárhag sveitarfélaga og hag þeirra af verkaskiptalögunum og þjóðarsáttinni. Það var að því stefnt með verkaskiptalögunum að bæta hag sveitarfélaga. Á þeim tíma var staðan þannig að 9 af 30 kaupstöðum landsins höfðu ekki rekstrartekjur fyrir rekstrarútgjöldum. Þannig var það beinlínis markmið þessara aðgerða að bæta stöðu sveitarfélaganna og gera þeim kleift að sinna sínu hlutverki. Með þessum aðgerðum sem hér hafa verið boðaðar er verið að leggja á sveitarfélögin eða taka af tekjum fyrir samtals um 1.100 millj. kr. og það er býsna hart að taka allan ávinningin af þeim á sama tíma og býsna mörg sveitarfélög á landsbyggðinni, einkum í sjávarplássum, verða að leggja tugi og hundruð milljóna í atvinnufyrirtæki í vetur. Með hvaða peningum eiga þau að borga þær skuldir, virðulegur forseti?