Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 16:12:00 (1859)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það er nú bersýnilegt að það er mjög erfitt að koma þessu við með 3. umr. á laugardaginn. Það er mál sem greinilega þarf að fara betur yfir. Ég er alveg sammála hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur um það.
    Hitt er einnig mjög mikið umhugsunarefni að hér hefur komið fram að ríkisstjórnin hefur verið að fjalla um fjárlögin að undanförnu og hefur lagt tilteknar forsendur fyrir fjárln. Hún hefur kynnt málin fyrir fjárln. M.a. var fjárln. sagt að það ætti að skera niður 400 millj. af þjónustu við fatlaða og fjárln. reiknaði með því og menn hafa haldið sínar ræður út frá því.
    Nú verð ég að segja fyrir mig að þrátt fyrir undanhald hæstv. félmrh., sem ég fagna mjög, þá treysti ég því ekki að niðurstaðan verði ekki sú að eitthvað af þessu verði flutt yfir á sveitarfélögin þannig að nauðsynlegt er að halda áfram að passa félmrh. í þessu efni. Hitt er alvarlegra að hinar efnislegu forsendur fjárlagaumræðunnar eru allt aðrar en þær voru áðan. Allt aðrar. Og hæstv. félmrh. neitar áskorun frá hv. 4. þm. Austurl. um að greina frá því hvað verið sé að ræða við sveitarfélögin og ég spyr: Eiga alþingismenn ekki fyrst að ræða það á Alþingi sem verið er að ræða um við sveitarfélögin, eða a.m.k. við fjárln.?
    Ég ætla út af fyrir sig ekki, virðulegi forseti, að óska eftir því að gert verði hlé á störfum þingsins og tekin fyrir einhver önnur mál vegna þess að aðstæðurnar til að ræða fjárlögin eru aðrar núna en þær voru fyrir klukkustund. En ég held að það hljóti að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir forsetann þegar staðan er orðin þannig að hæstv. félmrh. er blessunarlega flúin af hólmi með þessa tillögu sem hún flutti eftir næturfundinn góða í ráðherrabústaðnum um síðustu helgi, en er núna að reyna að finna einhverja aðra tillögu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. forseti og formenn þingflokkanna ræði þessi mál aðeins á eftir. En mér er kunnugt um að þau ætla að hittast til að fara yfir stöðuna því við erum að tala um fjárlögin við allt aðrar aðstæður en þegar umræðan hófst. Það er alveg óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að um málin verði rætt mjög ítarlega og það fyrr en seinna vegna þess að það er auðvitað tóm vitleysa að halda umræðunni áfram með þeim hætti sem virðist vera að gerast núna því að ég er að gera mér vonir um það að ráðherrarnir hlaupi frá fleiri vitlausum tillögum en þessari einu, að það verði ein af annarri í þessari spilaborg sem hrynur hér á næstu klukkutímum.