Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 16:50:00 (1863)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns minna á að stjórnarandstaðan setti fram þá eðlilegu ósk sem forsendu þessarar umræðu að þeir ráðherrar, sem við þyrftum að tala við, væru viðstaddir umræðuna. Nú mun ég óska eftir því að fá að eiga viðræður við, auk fjmrh., hæstv. heilbrrh., hæstv. félmrh., hæstv. forsrh., hæstv. iðnrh. og hæstv. menntmrh. Og ég óska eftir því að stjórnarliðið hér á Alþingi standi við sinn hluta af samningnum og þessir ráðherrar verði viðstaddir a.m.k. þann hluta ræðu minnar sem að þeim snýr. ( Forseti: Forseti vill taka það fram að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að forsrh. og hæstv. iðnrh. komi í þinghúsið en hæstv. heilbrrh. er hér í húsinu ásamt með félmrh. og hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. sem gengur í salinn.) Já, ég þakka fyrir það og óska eftir því að tryggt sé að þeir verði viðstaddir þann hluta ræðunnar sem að þeim beinist.
    Í gær flutti formaður fjárln., hv. þm. Karl Steinar Guðnason, framsöguræðu fyrir meiri hluta nefndarinnar. Það vakti athygli að í ræðu hans var lítið sem ekkert vikið að þeim höfuðþáttum fjárlagagerðarinnar sem launafólkið í landinu og samtök þess hafa mótmælt. Nú gerist það í dag að okkur eru fluttar þær fréttir að hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur ákveðið að segja af sér formennsku í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur með þeim orðum sem birt eru í Dagblaðinu í dag að hann hafi verið og verði hér á Alþingi talsmaður fyrir ýmsar aðgerðir sem ganga þvert á hagsmuni verkalýðshreyfingarinnar og segir orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ég get ekki látið félaga mína í verkalýðshreyfingunni líða fyrir það að ég er í forsvari fyrir ýmsum óvinsælum aðgerðum í fjárlaganefndinni. Þess vegna tók ég þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér áfram sem formaður félagsins.``
    Ég vil segja það í upphafi ræðu minnar að mér finnst þessi ákvörðun þingmannsins drengileg, heiðarleg og sýna samkvæmni og karlmennsku sem er virðingarverð. Það gerist ekki oft í stjórnmálum okkar að þingmenn og forustumenn í stjórnmálum átti sig á því að það verður að vera trúnaðar, heilindi og samkvæmni í því sem þeir gera og segja. Ég hafði hugsað mér í dag að spyrja þennan hv. þm., sem um tveggja áratuga skeið hefur gegnt formennsku í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur, hefur verið í miðstjórn Alþýðusambandsins og varaformaður Verkamannasambands Íslands um langt árabil, hvernig það væri hægt að vera hér á Alþingi talsmaður fyrir stórfelldri kjararýrnun og réttindasviptingu launafólks og halda áfram að óska eftir trúnaði launafólksins í landinu. Þingmaðurinn hefur sjálfur í verki veitt svör við þeim spurningum. Það tel ég virðingarvert og drengilegt og ætla þess vegna ekki að víkja neinum fleiri orðum að þeirri mótsögn og þeirri ósamkvæmni sem kynni að vera í því að vera forustumaður fyrir samtök launafólks, óska eftir trúnaði þess og stuðningi en standa síðan að því sem hér er lagt til af hæstv. ríkisstjórn á Alþingi.
    En hins vegar, virðulegi forseti, er óhjákvæmilegt að fá hæstv. félmrh. hingað í salinn því ég er hættur að óska eftir því að formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., sé í salnum, það þjónar engum tilgangi að óska eftir því. Auðvitað er eðlilegt þegar okkur berast þær fréttir að hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur ákveðið að gegna ekki áfram formennsku í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur að spurt sé: Hvernig fær forusta Alþfl., þess flokks sem um áratugi var í senn Alþfl. og Alþýðusamband Íslands, það til að ganga upp að vera flutningsaðili og stuðningsflokkur ríkisstjórnar sem flytur þessar tillögur? Það er ekki hægt að halda þessari umræðu áfram án þess að a.m.k. hæstv. félmrh., varaformaður Alþfl., sé í salnum til þess að taka þátt í þessari umræðu. Launafólkið í landinu, kjósendur Alþfl., þeir sem veitt hafa Alþfl. trúnað, hljóta að spyrja sjálfa sig þeirrar spurningar hvernig þingmenn Alþfl. geta á Alþingi greitt atkvæði tillögum sem hafa orðið til þess að hv. þm. Karl Steinar Guðnason treystir sér ekki lengur til þess að vera formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og formaður í fjárln. Hvernig treystir hæstv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, sér til þess að vera áfram félmrh. og bera meginhlutann af þeim verkum sem er verið að kvarta undan?
    Það er kannski rétt að rifja upp að í septembermánuði gekk hæstv. félmrh. á fund forsrh. og tilkynnti honum að varaformaður Alþfl., hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir, treysti sér ekki til þess að standa að því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu nema hún fengi tryggingu fyrir því að áður en frv. væri afgreitt yrðu samþykktar hér á Alþingi umfangsmiklar aðgerðir til lífskjarajöfnunar í þágu launafólks. Og nú er spurt: Hvar eru þessar aðgerðir? Hvar eru loforðin sem hæstv. félmrh. fékk í Stjórnarráðshúsinu á fundi með hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh.? Hæstv. félmrh. ætti að horfa í kvöld á sjálfa sig á nýja sjónvarpsskerminum frá því í september segja við þjóðina þegar hún gekk út úr Stjórnarráðshúsinu: Ég hef ákveðið að standa að þessu fjárlagafrv. vegna þess að ég hef fengið tryggingu fyrir því --- tryggingu fyrir því --- að í afgreiðslu fjárlaganna komi til framkvæmda umfangsmiklar kjarajöfnunaraðgerðir, húsnæðisbætur, láglaunabætur og fjölmargt annað sem eykur kaupmátt og dregur úr lífskjarakostnaði láglaunafólksins í landinu. Ekkert af þessu er hér á dagskrá. Í staðinn er verið að safna í frumvörpum ríkisstjórnarinnar til kjaraskerðingar hjá barnafólki með lág laun sem nemur tugum þúsunda á ári. Í því frv. sem hæstv. fjmrh. hefur flutt er lagt til að kaupmáttur fólks, venjulegs launafólks, með þrjú börn lækki um 51 þús. kr. á ári. Það eru mánaðarlaun venjulegs verkafólks. Það eru lífskjarabæturnar. Það eru loforðin, að skerða kaupmátt barnafólks sem nemur einum

mánaðarlaunum verkamanns, verkakonu og verkakarls.
    Hæstv. forseti. Ég ítreka enn ósk mína um að hæstv. félmrh. þori að vera í salnum við þessa umræðu. Að hæstv. félmrh. sitji ekki í hliðarherbergjum eða á göngum þingsins eða loki sig inni í þingflokksherbergi Alþfl. heldur komi í salinn og þori að heyra að hennar eigin orð séu rifjuð upp, þori að heyra spurninguna: Hvar eru loforðin sem hún gaf launafólkinu í landinu og kjósendum Alþfl., á tröppum Stjórnarráðshússins loforðin sem hún sagði að væru skilyrði fyrir því að hún styddi það fjárlagafrv. sem hér er til umræðu? ( Forseti: Forseti vill trufla hv. þm. með því að segja að ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að hæstv. félmrh. verði hér í fundarsalnum.)
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að spyrja hvaða ráðstafanir það eru. Ef hæstv. félmrh. vill vera ein með samvisku sinni, innilokuð í þingflokksherbergi Alþfl. í þessu húsi, þá skil ég það kannski vel. Vegna þess að enginn af forustumönnum Alþfl. hefur á þessu ári gefið launafólkinu í landinu jafnafdráttarlaus fyrirheit og hún. Enginn af forustumönnum Alþfl. hefur gefið því fólki sem hefur verst kjör í þessu landi jafnskilyrðislaus fyrirheit og hún. Það er gott að hæstv. félmrh. er komin hér í dyragættina, komin til þess að svara okkur og þjóðinni. Hvar eru þær aðgerðir til lífskjarajöfnunar sem hæstv. félmrh. lofaði launafólkinu á Íslandi, kjósendum Alþfl., á tröppum Stjórnarráðshússins þegar hún kom út af fundinum með forsrh. og hæstv. utanrrh.? Við munum öll myndina, hæstv. félmrh., í sjónvarpinu þegar hún sagði: Ég hef fengið tryggingar fyrir því að þegar fjárlagafrv. verður afgreitt á Alþingi verða um leið afgreiddar fjölmargar aðgerðir til lífskjarajöfnunar, húsnæðisbætur, láglaunabætur og fjölmargt annað sem má tryggja kaupmátt launafólksins í landinu. Í staðinn, hæstv. félmrh., er hér frv. frá ríkisstjórninni sem skerðir tekjur venjulegs launafólks með þrjú börn sem nemur einum mánaðarlaunum verkafólks. Kjaraskerðing, hæstv. félmrh., varaformaður Alþfl. ( Félmrh.: Hverjar voru þínar tillögur um barnabætur þegar þú varst fjmrh.?) Ég skal koma að því á eftir, hæstv. félmrh., það kemur bara málinu ekki við. Jafnvel þótt það væri þannig sem ekki er, að ég hefði gert eitthvað annað en það sem ég sagði, þá er það engin réttlæting fyrir hæstv. félmrh. að hafa sagt þjóðinni ósatt. Ljóst er að það gerði hún í dag. Það er ljóst þegar við erum komin hér í 2. umr. fjárlaga og það eina sem liggur á borðinu eru tillögur um að skerða kaupmátt launafólksins í landinu sem nemur einum mánaðarlaunum og sérstaklega hjá láglaunafjölskyldum með börn. Svo ætlast hæstv. félmrh. til þess að hún sé tekin alvarlega sem samviska Alþfl.
    Ég vék að því í byrjun minnar ræðu, hæstv. félmrh., að hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefði sýnt þann manndóm og þann drengskap --- greinilegt er að hæstv. félmrh. á erfitt með að vera í salnum. Ég sagði það áðan að ég skildi það vel að samviskan væri svo þungbær þessa dagana að best væri fyrir hæstv. félmrh. að halda sig fjarri þingsalnum. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur sýnt þann manndóm og drengskap að segja af sér sem formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur vegna þess, eins og hann segir í Dagblaðinu í dag, það samrýmist ekki að standa að þeim aðgerðum sem eru gerðar gagnvart launafólkinu í landinu og vera trúnaðarmaður þess launafólks. Væri ekki drengskapur og manndómur í því fyrir hæstv. félmrh. að segja líka af sér sem ráðherra félagsmála, málefna launafólksins, málefna verkalýðshreyfingarinnar, málefna fatlaðra og málefna sveitarfélaganna eftir allt það sem hún hefur fengið á sig, í ljósi alls þess sem hún hefur sagt á undanförnum mánuðum og árum um það hvernig hún mundi standa vörð um hagsmuni launafólksins, hvernig hún mundi standa vörð um það að auka kaupmáttinn, hvernig hún hefði fengið tryggingu hjá hæstv. forsrh fyrir því að fjárlögin yrðu ekki afgreidd nema umtalsverðar bætur kæmu til launafólksins? Hvernig hún hefur lýst því yfir að hún mundi þróa og efla málefni fatlaðra, standa vörð um hagsmuni sveitarfélaganna. Það

eina sem heyrist frá hæstv. félmrh. þessa dagana er að standa vörð um húsbréfin og skamma Seðlabankann, og hvað felst í því? Það er að standa vörð um það að þeir sem eiga peningana í landinu geti hér á verðbréfamörkuðum keypt bréfin og átt þau með 9--10% raunvöxtum skattfrjálst. Það eru einu hagsmunirnir sem hæstv. félmrh. er að verja af kappi þessa dagana. Það eru hagsmunir fjármagnseigendanna sem geta keypt húsbréfin á 9--10% raunvöxtum og haldið arðinum af þeim kaupum skattfrjálst. Hver hefði trúað því að hæstv. félmrh. ætti eftir að verða helsti vinur fjármagnseigendanna og standa í forsvari fyrir aðgerðir gegn láglaunafólkinu í landinu, gegn fötluðum, gegn hagsmunum verkalýðshreyfingarinnar og gegn sveitarfélögunum? Það þýðir ekkert að hrista hausinn, hæstv. félmrh., því að svona er veruleikinn. ( GHelg: Þú mátt ekki láta ráðherrann gjalda þess að enginn annar hafi samvisku í Alþfl.) Ég sýni hæstv. ráðherra þá virðingu að tala við hana eins og fullburða stjórnmálamann, stjórnmálamann sem ég hef tekið alvarlega og fólkið í landinu hefur tekið alvarlega. Ég tem mér ekki sams konar viðhorf og hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþfl. Ég hef kosið að umgangast hæstv. félmrh. eins og fullburða, myndugan og sterkan stjórnmálamann. Ég segi það vegna þess að ég var einn af þeim sem trúðu því í haust, þegar hæstv. félmrh. birtist eftir fundinn í Stjórnarráðinu, að hún segði satt, hún hefði fengið loforð, hún hefði eitthvað í höndunum. Vegna þess að dögum saman hafði hæstv. ráðherra sagt við þjóðina: Ég styð ekki þetta fjárlagafrv. nema ég fái þessar tryggingar. Þess vegna spyrjum við nú, launafólkið spyr nú, þjóðin spyr nú, Alþfl. spyr nú: Hvar eru þessar tryggingar, hæstv. félmrh.?
    Ætlar hæstv. félmrh. að koma til barnafjölskyldnanna í landinu fyrir jól og segja: Það sem gert var var að skerða kaupmátt fólks með venjulegar launatekjur og þrjú börn sem nemur einum mánaðarlaunum, um 51 þús. kr. Hverju ætlar hæstv. félmrh. að svara þessu fólki? Það hefur verið til umræðu á undanförnum árum að tekjutengja barnabætur, hæstv. félmrh. Ég hef lagt það til. Sú tekjutenging byggðist á því að fólki sem hefur mörg hundruð þús. kr. í mánaðarlaun léti af sínu í þágu þeirra sem væru með venjuleg laun, laun félagsmanna Alþýðusambandsins og BSRB. En hér er verið að skerða barnabæturnar til stórs hluta félagsmanna BSRB og ASÍ sem nemur einum mánaðarlaunum þessa fólks. Hæstv félrmh., við höfum líka lagt til að lagt yrði á hátekjuþrep í tekjuskatti. Við værum ekki að framkvæma skattkerfisbreytingar þar sem hækkaðir væru skattar á barnafólki en ekki á hátekjufólki sem ætti engin börn. Að hækkaðir væru skattar á venjulegu barnafólki en ekki hækkaðir skattar á fjármagnseigendum sem eru með milljónir króna skattfrjálsar á mánuði. Er þetta efnahagsstefna hæstv. félmrh.? Þetta er á samvisku Alþfl. Eða er kannski hæstv. félmrh. genginn í sömu björg og hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh.? Það ætlast enginn til þess að hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh. standi að einhverju öðru. En hv. þm. Karl Steinar Guðnason er samvisku sinni trúr. Hann segir: Það samrýmist því ekki að fylgja þessum málum hér á Alþingi og vera kjörinn trúnaðarmaður launafólksins á Suðurnesjum og þess vegna segi ég því starfi af mér.
    Hæstv. félmrh. sagði það fyrr í dag að hún væri að ganga til viðræðna við sveitarfélögin um að breyta því að málefnum fatlaðra væri fórnað á þessu næturaltari ríkisstjórnarinnar þegar kaupin voru gerð á eyrinni. Þegar hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. gerðu þann samning við hæstv. félmrh. að þeir skyldu láta húsbréfin í friði ef hæstv. félmrh. væri reiðubúinn að ganga þessa göngu gegn sveitarfélögunum og gegn málefnum fatlaðra. (Gripið fram í.) Hvort sem það er rétt eða rangt samkvæmt orðunum sjálfum, hæstv. félmrh., þá er þetta hin pólitíska niðurstaða: Að ríkisstjórnin lætur húsbréfin í friði en hæstv. félmrh. tekur að sér að hræra í málefnum fatlaðra og leggja til orrustu við launafólkið í landinu og sveitarfélögin. Hæstv. félmrh. sagði það fyrr í dag að hún hefði kallað forsvarsmenn sveitarfélaganna á sinn fund og ætlaði að taka til endurskoðunar tillögurnar um málefni fatlaðra. Það fer vel á því, hæstv. félmrh., en það verður að segja það skýrt hér í þingsalnum að það er búið að draga til baka þá tillögu að fórna málefnum fatlaðra á þessu kaupaltari ríkisstjórnarinnar. Það var ekki skýrt hér í salnum. Það var gefið í skyn en það var ekki skýrt. Samtök fatlaðra eins og Þroskahjálp, Öryrkjabandalagið og foreldrar og ættingjar hinna fötluðu og þeir sjálfir, sem hafa fyllst ótta og ugg síðustu daga þegar þeir fengu felmtri slegnir þessar fréttir, eiga kröfu á því að hæstv. félmrh. svari því þá alveg skýrt í dag hvort hún er hætt eða ekki hætt við þessar tillögur. Þessari umræðu má ekki ljúka, virðulegi forseti, fyrr en hæstv. félmrh. hefur veitt skýr svör við því að hún sé búin að draga til baka allar þær tillögur sem snerta málefni fatlaðra í þessu fjárlagafrv., þær tillögur sem forsrh. kynnti eftir næturfundinn fræga. Ég ætla ekki að lesa upp fyrir hæstv. félmrh. ummælin sem samtök fatlaðra hafa haft um þennan gjörning. Ég ætla ekki að endurtaka fyrir hæstv. félmrh. þau ummæli sem starfsfólkið í málefnum fatlaðra hefur haft um þennan gjörning. Ég ætla ekki að endurtaka fyrir hæstv. félmrh. það sem sagt er í svæðisstjórnum fatlaðra um þennan gjörning. Allt það getur hún kynnt sér sjálf.
    Það væri illur endir á ágætu starfi hæstv. félmrh. í þágu málefna fatlaðra, góðu starfi, sem hún á heiður skilinn fyrir á undanförnum árum, ef hún léti þá sem ráða í þessari ríkisstjórn fara þannig með sig að hún taki þátt í því að ganga gegn öllum sem hafa látið málefni fatlaðra til sín taka á undanförnum árum. Það er alveg ljóst að öll sú fylking er að stilla sér upp á móti þessum gjörningi ríkisstjórnarinnar og segir: Það á ekki að fara með málefni fatlaðra með þessum hætti.
    Hæstv. félmrh. kappkostaði, þegar ég sat með henni í ríkisstjórn, að gera ekkert sem samtök sveitarfélaga gætu ekki sætt sig við. Við stóðum að því í sameiningu fyrir ári síðan, í desember, í aðdraganda fjárlagaafgreiðslu þá að gera samkomulag við samtök sveitarfélaga um það hvernig á breyttum tekjuhlutföllum ríkis og sveitarfélaga skyldi tekið. Ég skil ekki hvernig það getur gerst að ráðherra, sem af mínum kynnum vildi vanda sig jafn vel í samskiptum við sveitarfélögin, lætur annað eins henda sig og gerðist á næturfundinum fræga. Yfirlýsingin sem samtök sveitarfélaga hafa sent frá sér er auðvitað slíkur dómur yfir þessari framkomu og þessum vinnubrögðum að það þarf ekki að endursegja hann hér. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er hún reiðubúin nú, eins og við gerðum fyrir ári síðan, að gera það á forsendu þess sem ákveðið verður í þessu fjárlagafrv., að hún og fjmrh. og samtök sveitarfélaga séu sátt við niðurstöðuna?
    Hvað var það sem við gerðum í fyrra eftir viðræður við samtök sveitarfélaga og nú spyr ég: Eru hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. reiðubúnir að gera hið sama nú? Fara ekki inn í þetta fjárlagafrv. nema það sé í sátt við samtök sveitarfélaga? Ekki er hægt að ganga til atkvæða við 2. umr. þessara fjárlaga fyrr en það er ljóst. Ég segi það við stjórnendur þingsins að það gengur ekki upp að ætla þinginu að greiða atkvæði við 2. umr. fjárlaga nema niðurstaðan sé komin í þessum efnum. Við unnum hratt og vel að því fyrir ári síðan og það er hægt að gera það aftur nú ef viljinn er fyrir hendi.
    Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. þoldi ekki að sitja lengi hér í salnum undir orðræðu um það hvað raunveruleg jafnaðarstefna felur í sér og það kemur svo sem engum á óvart. En hæstv. iðnrh. er hins vegar í forsvari fyrir iðnaðinn í landinu þó að hann sé ekki lengur í forsvari fyrir jafnaðarstefnuna og hefur kannski aldrei verið. Þess vegna er æskilegt að hann komi í salinn og veiti svör við því hvernig hann sem iðnrh. ætlar að réttlæta þá aðgerð sem mun skekkja samkeppnisstöðu sælgætisiðnaðarins á Íslandi allverulega.
    Virðulegi forseti. Ég skil það vel að ráðherrar Alþfl. eigi erfitt með að vera hér í salnum en það er óhjákvæmilegt að sá maður sem ber stjórnarfarslega ábyrgð á málefnum íslensks iðnaðar komi í salinn og svari þeirri spurningu sem ég ætla að beina til hans.

( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. iðnrh. verði við umræðuna.)
    Virðulegi iðnrh. Ég gerði ekki kröfu til þess að hæstv. iðnrh. væri hér þegar fjallað væri um jafnaðarstefnuna vegna þess að við erum löngu hættir að ætlast til þess að hæstv. iðnrh. sé í einhverju forsvari fyrir hana á Alþingi. Hins vegar er óhjákvæmilegt að hæstv. iðnrh. sé hér þegar fjallað er um málefni iðnaðarins. Það vill svo til að eitt atriði í þessum næturaðgerðum ríkisstjórnarinnar snýr að iðnaðinum. Um það hefur Ólafur Davíðsson, framkvæmdastjóri Félags ísl. iðnrekenda, fellt sinn dóm. Hver er Ólafur Davíðsson, hæstv. iðnrh.? Hann er ekki aðeins framkvæmdastjóri Félags ísl. iðnrekenda. Hann er formaður í þeirri efnahagsnefnd sem ríkisstjórnin setti upp sérstaklega til að veita sér ráð í sambandi við þessar aðgerðir. Sagt var hvað eftir annað í síðustu viku að þessi nefnd væri á stöðugum fundum að skila inn ráðleggingum til hæstv. ríkisstjórnar. Nú gerist það að í hópi fyrstu manna sem mótmæla aðgerðum ríkisstjórnarinnar er formaður þessarar efnahagsnefndar ríkisstjórnarinnar, Ólafur Davíðsson. Og hvað segir hann? Hann segir í Morgunblaðinu 11. desember: ,,Þarna er verið að fjalla um sparnaðarráðstafanir undir því yfirskyni að draga úr útgjöldum til landbúnaðar en allar afleiðingarnar bitna á þriðja aðila sem er sælgætisgerðin. Þetta mun leiða til hækkunar á innlendri sælgætisframleiðslu svo að nemur tugum prósenta.``
    Með öðrum orðum, sú grein iðnaðarins, sem kannski hefur staðið af sér hina alþjóðlegu samkeppni, er nú sett sérstaklega í miðju skotskífunnar til þess að hægt sé í leiðinni að draga nokkrar stoðir undan þeim öflugu fyrirtækjum sem hér hafa verið í landinu og framleitt innlendar sælgætisvörur. Hæstv. iðnrh., þegar Ólafur Davíðsson fordæmir þessar aðgerðir með þessum hætti, hver eru þá rökin? Getum við fengið að heyra þau hér, hæstv. iðnrh.? Eða er þetta bara gert til þess að fróa einhverri hvöt í Alþfl., að eitthvað sem tengt er orðunum landbúnaður sé inni í þessum aðgerðum, nánast alveg sama hvað það er, bara eitthvað svo að þessi óskiljanlega náttúra Alþfl., að mínus verði að vera einhvers staðar þar sem eitthvað er tengt orðinu landbúnaður, geti fengið fullnægingu? Hver eru rökin, hæstv. iðnrh.? Fyrst ríkisstjórnin hefur kosið að gera Ólaf Davíðsson að æðsta ráðgjafa sínum í efnahagsmálum, hvers vegna hlýðir hún ekki ráðgjöfum hans í þessu máli? Það er nauðsynlegt að fá svör við því áður en þessari umræðu lýkur.
    Einnig neytendamál, hæstv. viðskrh. Ég ætla ekki að lesa upp ræðurnar sem hæstv. viðskrh. hefur flutt um mikilvægi neytendamála. Ég ætla ekki að lesa upp greinarnar sem hæstv. viðskrh. hefur skrifað um mikilvægi neytendamála vegna þess að það eru bara orð, hæstv. viðsrh. Verkin tala hins vegar í þeim tillögum sem hér liggja á borðinu og það er alveg sama hvað hæstv. viðskrh. flytur margar ræður og skrifar margar greinar um neytendamál. Verkin eru með þeim hætti að framlag til Neytendasamtakanna er skorið þannig niður að forustumenn Neytendasamtakanna hafa neyðst til þess að hefja nauðvörn utan þings.
    Í Morgunblaðinu í gær skrifar Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, grein þar sem hann heitir á alþingismenn að þeir standi að því að tryggja að Neytendasamtökin fái fáeinar milljónir sem þau hafa haft til þessa svo að þau geti starfað með eðlilegum hætti. Það liggur ljóst fyrir að framlög hins opinbera hér til neytendamála samsvara rúmum 20 kr. á hvern íbúa á sama tíma og framlög á Norðurlöndum til neytendamála eru hátt á annað hundrað kr. á hvern íbúa. Nú ætlar hæstv. ríkisstjórn undir forustu viðskrh. að skera það framlag niður í 15 kr. á hvern íbúa. Ég spyr þingmenn Alþfl., sem hafa oft talað um það að Alþfl. vilji tryggja hag neytenda, hvar kemur fram í hinni nýju hugmyndafræði Alþfl. um markaðshyggju og félagslegar aðgerðir í okkar þjóðfélagi að hagsmunir neytenda séu tryggðir. Hver eru rökin fyrir því að skera þetta litla framlag, þessar fáeinu milljónir til Neytendasamtakanna, sem eru í þessu fjárlagafrv. nánast niður í ekki

neitt? Hver eru rökin? Eru þau efnahagsleg? Það getur ekki verið. Þetta eru fjárlög, yfir 100 milljarðar. Verið er að auka útgjöld um 1 1 / 2 milljarð í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. En að setja 3--4 millj. í viðbót í Neytendasamtökin til að verða við þeirri ósk að þau fái bara það sama og þau hafa haft í ár, ekki aukningu, bara óbreytta upphæð. Nei takk. Það á skera Neytendasamtökin niður, meira en flesta aðra. Hver eru rökin, hæstv. viðskrh., fyrir þessari aðför að Neytendasamtökunum? Rétt er að rifja upp að á sama tíma er líka verið að skera niður starfsemina á Verðlagsskrifstofunni. Maður hefði því haldið að um leið og starfsemin væri skorin niður á Verðlagsskrifstofunni væri þá rökrétt í samræmi við kenninguna að efla starfsemi Neytendasamtakanna sjálfra. Ef hinn nýi formaður þingflokks Alþfl. hefði dug til þess að sjást í þingsalnum væri auðvitað hægt að spyrja hann að því. Ætlar hann og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, svo að ég nefni nú bara tvo, annan fjárlaganefndarmann og hinn formann þingflokksins, að standa að því að Neytendasamtökin séu sérstaklega skorin niður í fjárlagafrv. umfram aðra?
    Ég vil biðja hæstv. viðskrh. að lesa þessa grein eftir formann Neytendasamtakanna í Morgunblaðinu. Ég vil biðja þingmenn Alþfl. að svara í þessari umræðu áður en atkvæðagreiðslan hefst: Ætla þeir að standa vörð um óbreytt framlag til Neytendasamtakanna eða ekki? Ef Alþfl. stendur að því að skera Neytendasamtökin niður eru allar yfirlýsingarnar, allar ræðurnar, allar greinarnar og allar flokksþingssamþykktirnar fullkomlega marklausar, kjaftæði sem enginn getur tekið mark á. Þegar Alþfl. hefur valdið leggur hann sig í framkróka við að taka af Neytendasamtökunum örfáar milljónir kr. En EES-þýðingarnar fá tugi milljóna í viðbót. Iðnrn. er með um 80--90 millj., iðnrn. og viðskrn. í þessum liðum sem ráðherrann getur ráðstafað sjálfur að eigin geðþótta. Þar er ekki verið að skera. Þar er ekki verið að þrengja að. Þar verður ráðherrann að hafa áfram sitt vald, sitt sjálfstæði og sinn herradóm en Neytendasamtökin skulu skorin niður.
    Hæstv. heilbrrh. Væri æskilegt að hann hefði líka dug til þess að sýna sig hér í salnum. Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. ( Forseti: Forseti getur upplýst að hæstv. heilbrrh. er í húsinu og munu verða gerðar ráðstafanir til þess að kalla hann hingað í salinn.)
    Hæstv. fjmrh. upplýsir það að hæstv. heilbrrh. sé í viðtali við fjölmiðlamenn. Það er, virðulegi forseti, í þriðja sinn á jafnmörgum dögum sem umræður verður að stöðva í Alþingi vegna þess að ráðherra í þeirri ríkisstjórn, sem átti að verða lítið í fjölmiðlum samkvæmt yfirlýsingum hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. í rauða sófanum sællar minningar á Viðeyjardeginum, getur ekki sinnt þingstörfum sínum vegna anna við fjölmiðlaviðtöl í hliðarsölum þingsins. (Gripið fram í.) Við, virðulegi forseti og hæstv. fjmrh., sáum um það að okkar fjölmiðlaviðtöl trufluðu ekki þingstörfin.
    Hæstv. heilbrrh. hefur hlotið sérstakt hól formanns Alþfl. fyrir að vera geiglaus maður og skjótur til ákvarðana. Hæstv. heilbrrh. hefur hvað eftir annað í sumar og haust lýst því yfir að nú verði allir að sætta sig við að það verði að spara og skera niður. Hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir fyrir um það bil tveimur mánuðum síðan að nú hefði hann náð svo miklum árangri að sparast mundu um 800 millj. kr. í lyfjakostnaði á heilu ári og lagði fram fjárlagafrv. byggt á þeirri fullyrðingu. Hæstv. heilbrrh., það er ljóst að þau orð eru dregin til baka í reynd í þingsalnum vegna þess að sá niðurskurður, sem lagt var af stað með, stenst ekki. Eftir því er sérstaklega óskað að auknar séu upphæðirnar í fjárlagafrv. til lyfjamálanna.
    Það er líka ljóst, hæstv. heilbrrh., að enn eru ekki komin hér inn í þingið þau frumvörp sem hæstv. ráðherra taldi sig þurfa til þess að breyta grundvallarskipan lyfsölumála í landinu, hvað þá heldur að búið sé að afgreiða þau vegna þess að hæstv. ráðherra sagði í sumar og haust: Ég get ekki gert þetta með öðrum hætti en þeim vonda sem ég og fólkið í landinu mótmælti vegna þess að ég hafði ekki lagaheimild frá Alþingi en ég mun í

haust óska eftir þeim heimildum. Hvar eru þær óskir nú? Hvergi. ( Heilbrrh.: M.a. í bandorminum.) M.a. í bandorminum, hæstv. heilbrrh. Þetta var svo aumingjalegt svar að jafnþingreyndur maður og fyrrv. formaður fjvn. á ekki að láta þetta frá sér standandi á gólfinu fyrir framan stól sinn, getur ekki einu sinni sest. Auðvitað er það alveg ljóst að hæstv. ráðherra er ekki enn þá kominn með neinar slíkar tillögur. Þær hafa ekki sést á Alþingi. Lagt er upp í nýtt ár og ný fjárlög án þess að ráðherrann hafi í hendi sér þau lagaákvæði sem hann sagði við þjóðina í dag að hann þyrfti að fá til þess að geta gert þetta með skynsamlegum hætti. Þess vegna, hæstv. heilbrrh., er spurt og beðið um svar í þessari umræðu: Hvernig ætlar hæstv. heilbrrh. að ná fram þeim tölum í lyfjamálum sem í frv. eru? Hann hefur ekki komið hér til þingsins og beðið um breytingar á lögunum fyrir áramót.
    Í öðru lagi, hæstv. heilbrrh.: Hver eru rökin fyrir því að beðið er um hundruð milljóna í viðbót í lyfjakostnað í þessu frv.?
    Hæstv. heilbrrh. hefur líka óskað eftir því að þingið veiti sér viðbótarupphæðir í heilbrigðismál í fjárlagafrv., ef ég man rétt, um rúmar 1.000 millj. kr., frá því að frv. var lagt fram og þar til það á að afgreiðast hér og nú. En á sama tíma og hæstv. ráðherra biður um 1.000 millj. í viðbót með þessari hendinni og ætlast til þess að þingið greiði um það atkvæði, þá er í einni lítilli tillögu farið fram á að af hæstv. ráðherra verði teknar rúmar 500 millj. á móti. Hvers konar skynsemi er þetta, hæstv. heilbrrh.? Hvað hefði hæstv. heilbrrh. sem formaður fjárlaganefndar sagt við fyrrv. heilbrrh. ef hann hefði beitt svona hundakúnstum. Og það sem meira er. Hæstv. heilbrrh. kemur til þingsins og segir: Ég bið um það að ég fái einnig í mitt ráðuneyti 358 millj. á næsta ári sem ég ræð einn hvernig ég ráðstafa. Ráðherrann einn á að fá að ráðstafa 358 millj. kr. í hvað sem er, hvaða stofnun sem er, hvaða launakostnað sem er, hvaða rekstrarkostnað sem er. Hann þarf ekki að spyrja neinn um það. Ég ætla ekki heldur frekar en ég hlífði hæstv. viðskrh. við að rifja upp textana hans í neytendamálum að rifja upp texta hæstv. heilbrrh. um ríkisfjármálin á sínum tíma, um það hvernig Alþingi yrði að segja klárt og kvitt í hvað hlutirnir færu. Efasemdir hæstv. heilbrrh., þegar hann var formaður fjárlaganefndar, um að það væri skynsamlegt að hver ráðherra hefði ráðstöfunarrétt á upphæðum sem voru taldar kannski 5 eða 6 millj. Það væri brot á allri eðlilegri þróun í ríkisfjármálum að veita ráðherrum sjálfdæmi til að ráðstafa innan sinna ráðuneyta stórum upphæðum. Þá var verið að tala um kannski 10, 15 eða 20 millj. Nú kemur þessi sami hv. þm., maðurinn sem var orðinn tákn orþódoxíunnar í ríkisfjármálum og ætlar að brjóta allar grundvallarreglur síðustu áratuga og biðja um að það sé innleidd sú nýjung, sem ekkert fordæmi er fyrir í íslenskri fjárlagasögu, að hann fái 358 millj. á einn lið í sitt ráðuneyti og ráði algerlega einn hvað hann gerir við það. Svona subbuskapur í ríkisfjármálum nær náttúrlega ekki nokkurri átt, hæstv. heilbrrh.
    Ég byrja á því að segja þetta við hæstv. heilbrrh. þó að þetta eigi við alla hina ráðherrana líka vegna þess að ég taldi að hæstv. heilbrrh. hefði meint eitthvað með því þegar ég og hann á síðustu þremur árum höfðum góða samvinnu um það að þróa ríkisfjármálin inn á eðlilegar brautir nútímaríkisfjármála. En svona afturhvarf til gamla kerfisins þar sem menn ráðstafa út og suður að eigin geðþótta í ráðuneytunum hundruð milljóna kr. án þess að spyrja kóng eða prest. Hvers konar er þetta eiginlega? Var það þá bara marklaust hjal á síðustu árum þegar hæstv. ráðherra flutti hér í þinginu, sem 1. flm. frv. ásamt hv. þm. Pálma Jónssyni og öllum nefndarmönnum í fjárveitinganefnd á þeim tíma, sérstakt frv. þar sem setja átti ríkisfjármálin í svo fastar skorður að þetta gæti ekki gerst? Og hæstv. heilbrrh. stóð hér í þingsalnum hvað eftir annað ásamt hv. þm. Pálma Jónssyni og krafðist þess að málið yrði afgreitt, flutti ágætar ræður um þær grundvallarreglur sem yrðu að ríkja í nútímaríkisfjármálum, samskiptum þings og framkvæmdarvalds. Og ég studdi þau

sjónarmið og ég styð þau enn. En ég skil ekki hvernig á því stendur að hæstv. heilbrrh. er horfinn frá þessum sjónarmiðum í verki. Ég ætla að vona að hann hafi frumkvæði að því innan ríkisstjórnarinnar að menn dragi þessa vitleysu til baka. Það er fullkomlega óþarfi að fara þá leið að því að ná 1.500 millj. kr. niðurskurði að brjóta í leiðinni allar þær helstu grundvallarreglur sem við vorum sammála um að þyrftu að ríkja í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds hvað fjárveitingar snertir. Og ég skil ekki hvernig hæstv. forsrh., sem maður hélt að ætlaði nú að vera talsmaður nýmóðinsvinnubragða í þessum efnum, getur réttlætt að í fyrstu fjárlögunum, sem hans ríkisstjórn biður um að séu samþykkt hér á Alþingi, sé ráðherrunum einum og sér veittur ótakmarkaður umráðaréttur til að ráðstafa 1 milljarði kr. án þess að spyrja nokkurn að því hvernig þeir ráðstafa því.
    Ég get sagt hæstv. núv. forsrh. það að í umræðunni á síðustu 2--3 árum um breytingar í ríkisfjármálum hefði sá maður, sem hefði lýst hugmyndum af þessu tagi, verið hleginn út úr þingsalnum. Svo var samstaðan rík hér á síðustu árum um það að taka nú upp ný vinnubrögð og þróa hlutina í rétta átt. Ég skil ekki af hverju menn eru að fara þessa krókaleið að því að ná þessum 1.500 millj. Fyrst eru allir launaliðirnir skornir niður um 2 1 / 2 milljarð, 2.455 millj., og síðan eru 955 millj. teknar af þessari upphæð og settar á einn lið í hverju ráðuneyti og ráðherrann einn á að ráðstafa því.
    Þegar ég fór fram á það á sínum tíma að um leið og aukafjárveitingarnar væru lagðar niður, hæstv. forsrh., og fjmrh. tók ákvörðun að þær yrðu ekki meir í fjmrn., þessi áratuga gamli en vondi siður, að fjmrh. skrifaði út tékkana á borðinu sínu án þess að spyrja þingið um það, yrði lagður niður --- og það var samstaða um það hér í þinginu --- þá var ákveðið að veita ráðherrunum í hverju ráðuneyti ráðstöfunarfé til að mæta uppáfallandi tilvikum sem voru ef ég man rétt á bilinu frá 3 millj. til 15 millj. og ekki meir, litlar upphæðir. Ef þessi regla verður innleidd hér og nú hvað er það þá sem stöðvar það að í næstu fjárlögum komi ríkisstjórn og segi: Ég ætla ekki að ná 5% niðurskurði í launum. Ég ætla að ná 10% niðurskurði í launum og sker fyrst niður alla launaliðina um 10%, setur svo 7% af því inn á sérstaka sjóði í ráðuneytunum til frjálsrar ráðstöfunar fyrir ráðherrana eins og hér er gert nú þannig að á næsta ári verði það 3 milljarðar sem ráðherrarnir hafi til frjálsrar ráðstöfunar í ráðuneytunum. Ef menn vilja fara í þennan 1.500 millj. kr. niðurskurð af hverju gera menn það ekki þannig að menn skeri bara hreint og klárt niður í hverju ráðuneyti fyrir sig í fjárlögunum þannig að menn geti þá deilt um hvort sá niðurskurður er skynsamlegur eða ekki en séu ekki að brjóta heilbrigðar grundvallarreglur í nútímaríkisfjármálum með þeirri aðferð sem menn velja? Hæstv. heilbrrh. fær samkvæmt þessari aðferð 358 millj. á næsta ári sem hann getur sett í þetta og hitt, dittinn og dattinn og þarf engan að spyrja. Hann getur bætt við fólki í stofnunum. Hann getur terroriserað aðrar stofnanir með því að láta þær ekki fá fjármuni. Hæstv. menntmrh. fær samkvæmt þessum tillögum 290 millj. Hvað hefði verið sagt ef ég hefði á síðustu árum lagt til að þáv. hæstv. menntmrh. fengi 290 millj. til að ráðstafa einn og sér í menntmrn.? Það er sem ég sæi svipinn á hv. þm. þá og formanni fjárveitinganefndar, núv. hæstv. heilbrrh., ef ég hefði komið með þá tillögu til nefndarinnar, að mér hefði dottið í hug það snjallræði að þáv. menntmrh. ætti að fá 290 millj. sem hann gæti bara ráðskast með eins og hann vildi í menntmrn. Auðvitað hefðu menn hafnað þeirri tillögu. Að sjálfsögðu og hefðu átt að gera það og eiga að gera það aftur nú.
    Ég vil þess vegna biðja hæstv. ríkisstjórn áður en hér kemur til atkvæða við 2. umr. fjárlaganna, þar sem greiða á atkvæði um þessa tillögu, að breyta þessu, fara hreint og klárt og kvitt í þann 3% niðurskurð, sem er markmiðið, en vera ekki að fara krókaleið sem brýtur allar grundvallarreglur nútímaríkisfjármála. Ég vænti þess að núv. forsrh. hafi forgöngu um að það verði gert. Ég segi við hann að fenginni reynslu: Að fara í fyrsta sinn

inn á þessa braut í niðurskurði er stórhættulegt hvað aðferðina snertir. Þá er ég ekki að tala um efnisatriði málsins. Það er allt annar handleggur.
    Hæstv. forsrh. er eins og við vitum borgarfulltrúi í Reykjavík og ég heyrði hæstv. forsrh. játa það í fjölmiðlum í gærkvöldi að ef hann væri ekki forsrh. væri hann sjálfsagt alveg sammála stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Ef einhver annar hefði gert það sem hann er að gera nú þegar hæstv. forsrh. var borgarstjóri hefði hann örugglega verið fremstur í flokki þeirra sem hefðu mótmælt og við sem áttum við hæstv. forsrh. hér á síðustu árum urðum rækilega varir við það að hann gat rækilega tekið til hendinni þegar honum fannst samskiptareglurnar vera brotnar. En nú er það þannig, hæstv forsrh., að öllum í borgarstjórn Reykjavíkur finnst samskiptareglurnar hafa verið brotnar, öllum nema kannski einum sem sagði þjóðinni í gær að ef tillagan kæmi til atkvæða mundi hann sitja hjá. Það var heiðarlegt svar. Hann treysti sér ekki einu sinni til að vera á móti heldur mundi sitja hjá.
    Við höfum ýmsir sagt það á undanförnum árum að hér þyrftu að verða breytingar í tekjuskiptingarmálum ríkis og sveitarfélaga. Ég hef talað fyrir því og geri það enn. En ég skil ekki hvers vegna hæstv. ríkisstjórn kýs að fara nú inn á braut sem framkallar jafnhörð mótmæli og ásakanir um lagabrot, eins og fram koma í yfirlýsingu Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég vil gjarnan inna hæstv. forsrh. eftir því hvort hann er reiðubúinn að lýsa því yfir hér og nú að hann muni ekki láta fjárlagafrv. koma til atkvæða hér á Alþingi fyrr en komin er sátt í samræðum ríkis og sveitarfélaga, félmrh. og fjmrh., við forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég vil rifja það upp að fyrir ári síðan kom upp deila milli mín og Sambands ísl. sveitarfélaga um hvað ætti að gera í fjárlögum yfirstandandi árs varðandi þessi mál. Þá leystum við þau mál, ég og hæstv. félmrh., í fullkominni sátt við forustumenn Sambands ísl. sveitarfélaga. Þar fóru fyrir í viðræðum Vilhjálmur Vilhjálmsson og Jón G. Tómasson. Niðurstaðan varð þannig að allir lýstu yfir ánægju sinni með hana. Ég spyr: Er það til of mikils mælst að það sama sé gert nú? Og ég vil spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann er ekki reiðubúinn til að lýsa því yfir hér við þessa umræðu að fjárlagafrv. muni ekki koma til endanlegrar afgreiðslu fyrr en þeirri sátt hefur verið náð.
    Hæstv. heilbrrh. er nú á ný genginn úr salnum. ( Gripið fram í: Er ekki nóg að heyra í ráðherranum? Þarf að horfa á hann líka?) Já, það er nauðsynlegt að horfa á hæstv. heilbrrh. undir þessari umræðu. Það er nú einu sinni þannig að svipbrigðin á honum segja oft meira en orðin.
    Í þeirri till., sem er aftast á þskj. meiri hluta fjárln., er þingið beðið um að ákveða að hæstv. heilbrrh. eigi að skera niður launakostnað í sjúkrahúsum landsins og öðrum stofnunum sem undir heilbrrn. heyra um 562 millj. Hæstv. heilbrrh. hefur þegar heyrt þær lýsingar hjá fyrirrennara sínum að þegar glímt var við að ná fram samdrætti í útgjöldum ríkisins á árinu 1989 náðist ekki upphæð sem er mun minni en þessi á sjúkrahúsum landsins nema með því að loka deildum, senda aldrað fólk heim, framkvæma ekki aðgerðir og var þó verið að tala um minni upphæð en hér er lagt til. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. heilbrrh. hvort hann er reiðubúinn að lýsa því hér fyrir þinginu og þar með þjóðinni og starfsmönnum sjúkrahúsanna, yfirmönnum spítalastofnana, hvaða hugmyndir hann hefur um það hvernig hann ætlar að ná fram hálfum milljarði í niðurskurði á launa- og rekstrarkostnaði sjúkrahúsanna í landinu. Ég veit að ég þarf ekki að rifja upp fyrir honum þær samræður sem við áttum á síðustu þremur árum um viðleitni til aðhalds og sparnaðar í heilbrigðiskerfinu og á ríkisspítölunum sérstaklega. Hæstv. ráðherra er fullkunnugt um hvað þarf af fjármunum í þá hluti. Þess vegna er það eðlileg krafa að áður en þingið gengur til atkvæða komi hæstv. heilbrrh. upp og útskýri hvaða aðferðir hann er með í huga. Eða ætlar hann virkilega að fara eftir því sem manni heyrðist hjá öðrum ráðherra í gær í viðtölum að það ætti bara að spyrja starfsfólkið á stofnununum hvað það vildi gera? Á virkilega að hafa þá aðferð, hæstv. heilbrrh., að láta starfsfólkið á spítölunum segja nei við sjúklingana? Á virkilega að fara þá leið að það séu forsvarsmenn sjúkrahúsanna sem ákveði að loka deildunum og senda hina öldruðu heim? Ætlar hæstv. heilbrrh. ekki að þora að standa sjálfur fyrir ákvörðunum, geiglaus og skjótur til ákvarðana, svo að vitnað sé í frægan texta?
    Fólkið á spítölunum, sem bíður eftir því á nýju ári að fá að vita hvað það á að gera, á kröfu til þess, eins og þingið, að því sé svarað hér og nú. Hvernig í ósköpunum á að ná þessu fram án þess að það bitni með stóralvarlegum hætti á sjúklingunum? Við óskum svara við því.
    Hæstv. menntmrh. á samkvæmt þessari skrá að skera niður launakostnaðinn í skólakerfinu um tæpan hálfan milljarð. En eins og hæstv. menntmrh. er kunnugt er skólaárið ekki það sama og fjárlagaárið þannig að hæstv. menntmrh. er í þeirri erfiðu stöðu að hann verður að ná þessum hálfa milljarði á fjórum mánuðum í upphafi næsta skólaárs, í september að hausti. Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. menntmrh. að ná inn á fjórum mánuðum tæpum hálfum milljarði í launakostnað í grunnskólana og framhaldsskólana án þess að umturna öllu skólakerfinu næsta haust? Eða er þetta bara marklaus tala? Er þetta bara eitthvað sem er sett á blað til þess að hæstv. fjmrh. geti haldið áru sinni eða til að hæstv. forsrh. geti komið alvarlegur á svipinn og sagt: Okkur tókst það. --- Bara blöff, tala á blaði sem ekki á að standa við.
    Hæstv. forsrh. sagði fyrir viku síðan --- og væri nú æskilegt að hæstv. forsrh. kæmi hér í salinn á ný --- í beinu viðtali í Ríkissjónvarpinu, sérstökum þætti, að ríkisstjórnin væri á lokaspretti að glíma við 11 milljarða gat. Nú er nauðsynlegt, virðulegi forseti, að fá hæstv. forsrh. hingað í sal. ( Forseti: Forseti gerir ráð fyrir því að hæstv. forsrh. sé skammt undan.) Já, ég þakka fyrir það. Ég var að rifja upp, hæstv. forsrh., að fyrir um það bil viku síðan sagði hæstv. forsrh. í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu í sérstökum þætti að ríkisstjórnin væri að glíma við 11 milljarða gat í fjárlagadæmi næsta árs. Og hæstv. forsrh. endurtók síðan þessa tölu næsta dag, 11 milljarða gat. 7 milljarðar til viðbótar við þá 4 sem í fjárlagafrv. voru þegar það var lagt fram. Síðan birtust tillögurnar eftir næturfund ríkisstjórnarinnar og þær voru ekki upp á 7 milljarða, hæstv. forsrh., þær voru upp á 3 milljarða. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsrh. að hrista hausinn í þeim efnum. Hann getur komið hér upp í ræðustólinn og lagt þetta saman, en við sem höfum legið yfir þeim skjölum, sem frá ríkisstjórninni hafa komið og þeim ákvörðunum sem hún hefur tekið, höfum fundið það út að dæmið sem ríkisstjórnin skilaði frá sér felur í sér að útgjaldaauki, sem stefndi í tæpa 8 milljarða eða kannski 8,1 ef menn vilja vera alveg nákvæmir, var færður niður í tæplega 4. Ef hæstv. forsrh. vill hafa þann flöt í málinu, þá eru það 4. Segjum það, hæstv. forsrh., að það séu 4 milljarðar. En þá spyr ég: Hvar eru hinir 3? Ég tók hæstv. forsrh. alvarlega þegar hann sagði við þjóðina að vandinn væri 11 milljarðar, sérstaklega þegar hann endurtók það næsta dag. En þá hljótum við að spyrja hér og nú: Hvar eru hinir þrír eða fjórir eftir því hvaða tölu hæstv forsrh. vill hafa. Ég skal hafa þá lægri af því að það auðveldar dæmið fyrir honum. Er það kannski þannig að ríkisstjórnin hafi falið einhver útgjaldatilefni inni í ráðuneytunum vegna þess að henni hafi ekki tekist á næturfundinum að leysa það allt saman? Eða var yfirlýsing hæstv. forsrh. ekki marktæk? Fór hann ekki með rétta tölu? Auðvitað fór hann með rétta tölu. Auðvitað veit hæstv. forsrh. um hvað hann er að tala og hann kinkar núna kolli og staðfestir að hann hafi farið með rétta tölu. Þess vegna spyrjum við nú þegar það hefur verið staðfest hér í þingsalnum með virðulegri höfuðhneigingu hæstv. forsrh.: Hvar eru þrír milljarðarnir? Eru þeir geymdir í skúffunum uppi í ráðuneytunum? Er kannski verið að koma með hér einhverja gerivlausn bara svo að hægt sé að blekkja m.a. formann Vinnuveitendasambandsins og aðra aðila sem

hafa tekið ríkisstjórnina trúanlega? Og þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort hann er ekki reiðubúinn að útskýra fyrir okkur hér í ræðustól áður en þessari umræðu lýkur hvar þessir þrír milljarðar eru sem á vantar til að dæmið gangi upp.
    Hæstv. sjútvrh. hefur gert mikið úr því síðustu vikur að hann sé að leysa vanda sjávarútvegsins og það hefur verið sett á svið nokkurt sjónarspil um þá baráttu hæstv. sjútvrh. við vondu öflin í ríkisstjórninni í þeim efnum. Nú liggur fyrir að það er þrennt sem verið er að gera.
    Í fyrsta lagi. Það er verið að fresta greiðslum sjávarútvegsins í Atvinnutryggingarsjóð. Það er ekki eftirgjöf, það er ekkert sem verið er að gera fyrir sjávarútveginn þegar til lengdar lætur. Það er bara verið að segja: Þú átt að borga skuldir þínar tveimur árum síðar en þú áttir ella, þannig að þegar horft er á málið frá hagsmunahóli sjávarútvegsins, þá er það ekkert nettó honum í hag.
    Í öðru lagi. Inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð. Er það eitthvað fyrir sjávarútveginn? Nei. Það eru peningar sem sjávarútvegurinn átti í Verðjöfnunarsjóðnum eða hefði átt ef gamla reglan hefði gilt vegna þess að lögin um Verðjöfnunarsjóð fela það í sér að það sem gengur í sjóðinn er þar geymt á reikningi hvers fyrirtækis þannig að það eina sem gert er í þeim efnum er að leyfa sjávarútveginum að taka eign sína og skrá hana hjá fyrirtækjunum sjálfum í stað þess að skrá hana hjá fyrirtækjunum inn í Verðjöfnunarsjóðnum þannig að það er alveg ljóst að þetta tvennt bætir nettó ekki með neinum hætti stöðu sjávarútvegsins.
    Þá kemur að hinu þriðja, hæstv. sjútvrh., og hvað er hið þriðja? Hið þriðja er sérstök skattahækkun á sjávarútveginn á næsta ári sem nemur 870 millj. kr. Ríkisstjórnin er með fimm mismunandi frv. hér á Alþingi að auka skattbyrðar sjávarútvegsins sem nemur tæpum milljarði þannig að sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi eiga að greiða inn í ríkiskassann, hítina, sem stundum er sagt af talsmönnum Sjálfstfl., tæpum milljarði meira en þau gera í ár. Þegar lagt er saman það sem gert er fyrir sjávarútveginn í þessum aðgerðum er í reynd tekinn um það bil milljarður af sjávarútveginum og settur í ríkiskassann óafturkræft. 525 millj. til þess að fjármagna Hafrannsóknastofnun og annað í gegnum Hagræðingarsjóðinn, 40 millj. með því að tvöfalda veiðieftirlitsgjaldið, 200 millj. a.m.k. í gegnum sjómannafrádráttinn sem sjómennirnir munu sækja til útgerðarinnar ef ríkisstjórnin stendur við áform sín hér á þinginu, 50 millj. sem er áætlaður hluti sjávarútvegsins í ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota í því frv. sem hér er til umfjöllunar í þinginu og 65 millj. a.m.k. í sérstakt álag á aflagjald sem sjávarútvegurinn á að greiða. Samtals 870 millj. nýir skattar sem sjávarútvegurinn á að reiða fram á næsta ári. Þetta er niðurstaðan, þetta eru fjárlögin eins og þau liggja hér fyrir. Sjávarútvegurinn skuldar það sama og hann skuldaði áður. Hann fær að flytja eign sína frá einum sjóði og inn í fyrirtækin en síðan er hann krafinn um tæpan milljarð í ríkissjóðinn í nýjum sköttum. Er það þetta sem Sjálfstfl. ætlaði sér að gera fyrir sjávarútveginn?
    Virðulegi forseti. Formaður Vinnuveitendasambandsins lýsir því yfir í Morgunblaðinu í gær að þessi næturvinna ríkisstjórnarinnar sé grundvöllur að samningum og 6% raunvaxtastigi á næsta ári. Það liggur við að maður slái á þráðinn til vinar síns Einars Odds og segi: Mikil er trú þín. Og mikil er nú hógværðin að taka við 870 millj. nýjum sköttum á sjávarútveginn og segja: Þetta er harla gott. Ég gæti rétt ímyndað mér hvað hefði verið sagt við mig ef ég hefði í desember í fyrra komið með 870 millj. nýja skatta á sjávarútveginn. Það hefði aldeilis verið gúmoren sem ég hefði fengið hjá Einari Oddi, Kristjáni Ragnarssyni og Þórarni V. sem allir eru hljóðir og hógværir menn um þessar mundir og láta það eina heyrast frá sér að þeir séu bara harla ánægðir. ( GHelg: Þeir ættu kannski segja af sér eins og Karl Steinar?)

    Nei, því miður er það þannig að þetta fjárlagafrv. verður ekki grundvöllur að kjarasamningum og það er heldur ekkert í þessu frv. sem mun færa raunvaxtastigið niður í 6% á næsta ári, því miður. Hvað þá heldur að eitthvað sé í þessu frv. sem framkalli þann veruleika sem hæstv. forsrh. lét hafa eftir sér í viðtölum, þegar hann kynnti aðgerðirnar og birt var með stóru letri á miðopnu Morgunblaðsins daginn eftir, að þetta fjárlagafrv. mundi leiða til verulegrar raunvaxtalækkunar í upphafi næsta árs. Ég vil nú segja í fullri vinsemd við virðulegan forsrh.: Trúir hann virkilega enn að það muni gerast? Hefði ekki verið skynsamlegra fyrir hæstv. forsrh. að segja sem minnst um raunvaxtalækkanir í upphafi næsta árs?
    Ég held hins vegar að sú lýsing sem Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambands Íslands, gaf á þessu frv. sé miklu raunhæfari. Hann segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að þetta fjárlagafrv. sé ekki grundvöllur kjarasamninga nema því verði breytt. Og hann telur upp fjölmörg atriði sem hann vill fá breytt. Og ég vil spyrja hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. og einnig hæstv. félmrh., varaformann Alþfl.: Væri nú ekki skynsamlegt ef menn vilja í reynd ná kjarasamningum fljótlega að fara eftir þessum ráðleggingum forseta Alþýðusambandsins? Ég held að Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambandsins, hafi sýnt það á undanförnum árum að hann er reiðubúinn að vinna af fullum heilindum að gerð nýrra kjarasamninga hver svo sem sú ríkisstjórn er sem situr í landinu. Hann á sér það eina markmið að ná skynsamlegum kjarasamningum í þágu launafólks og efnahagslegs stöðugleika. Það vita allir sem þekkja forseta Alþýðusambandsins. Og þegar hann lýsir þeirri afstöðu sinni að þessu fjárlagafrv. verði að breyta ef það á að geta verið innlegg að skynsamlegum kjarasamningum þá er það skynsamlegt og hollt ráð til hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að staldra við næstu daga, hugsa sig um yfir helgina og athuga hvort það væri ekki rétt að ganga til breytinga á þessum atriðum í fjárlagafrv. Halda þessir hæstv. ráðherrar virkilega að það verði friðsamlegt á vinnumarkaðnum í upphafi nýs árs ef ríkisstjórnin hefur að engu haft þær ábendingar sem koma frá samtökum launafólks í sambandi við þetta fjárlagafrv.? Halda hæstv. ráðherrar virkilega að það sé vænlegt veganesti fyrir nýja kjarasamninga að formaður Vinnuveitendasambands Íslands hæli fjárlagafrv. en forseti Alþýðusambands Íslands, formaður Verkamannasambandsins fordæmi fjölmörg atriði í fjárlagafrv. og segi: Ef þeim verður ekki breytt þá er það ekki grundvöllur að nýjum kjarasamningum? Finnst hæstv. ráðherrum það vera gæfulegt spor fyrir stöðugleika á nýju ári og nýjum kjarasamningum að formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur neyðist til að segja af sér eftir rúmlega 20 ára formennsku í félaginu vegna þess að það samrýmist með engu að greiða atkvæði með þessu fjárlagafrv. og vera einn af forustumönnum íslensks launafólks? Er þetta vænlegt veganesti í þeirri erfiðu för sem fram undan er, hæstv. forsrh., ef þjóðin á óumdeilanlega í miklum erfiðleikum? Væri ekki skynsamlegra að ganga til viðræðna við stjórnarandstöðuna, við samtök launafólks og ná þeirri breiðu sátt um þetta fjárlagafrv. sem við náðum í desember í fyrra um okkar verk, náðum árið þar áður líka um þau verk vegna þess að við lærðum af reynslunni að það er vonlaust verk fyrir ríkisstjórn að ná kjarasamningum við samtök launafólks í stríði. Það gengur ekki upp að fara í stríð við samtök launafólks. Og orðin sem forustumenn Alþýðusambandsins og Verkamannasambandsins hafa viðhaft á síðustu dögum eru ótvíræður vitnisburður um það að þeir menn sem gjarnan vilja ná árangri og ganga til samstarfs við ríkisstjórnina óttast að verði fjárlagafrv. með þeim hætti þá verði þeir skildir eftir.
    Ég bið þess vegna hæstv. ríkisstjórn að athuga vel sinn gang. Ég tel að það væri skynsamlegt hjá hæstv. ríkisstjórn að fresta atkvæðagreiðslu við 2. umr. þessa fjárlagafrv. þar til eftir helgi. Ég teldi að það væri skynsamlegt hjá hæstv. ríkisstjórn að fara nú í viðræður við samtök launafólks og alla aðila launamarkaðarins og ná fram breytingum á fjárlagafrv. í víðtæku samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins. Það væru vinnubrögð af viti. En ef ríkisstjórnin ætlar að knýja fram atkvæðagreiðslu hér á morgun þá er það verknaður sem undirstrikar þá ákvörðun formanns fjárlaganefndar að segja af sér formennsku í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur vegna þess að það sé ekki hægt að vera kjörinn trúnaðarmaður launafólks á Íslandi og greiða atkvæði með þessu fjárlagafrv. á Alþingi.