Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 18:32:00 (1865)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það hefur allmikið komið fram í umræðunni í dag að sérstaklega sé verið að ráðast að fötluðum. Ég vísa þessu alfarið á bug og taldi mig skýra það hér í dag. Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns um verið væri að skerða margfalt fjármagn til rekstrar hjá fötluðum þá vísa ég því einnig á bug. Í fjárlagafrv. eru nú 85 millj. umfram verðlagsforsendur fjárlaga, nú við 2. umr. fjárlaga er bætt við 40 millj. kr. Við erum þannig að tala um 125 millj. kr. aukningu í þennan málaflokk. Félmrn. er gert að skera niður nettó 59 millj. kr. hjá öllum stofnunum. Hvernig sem á málið er litið er veruleg aukning í þessum málaflokki. Það er ekki verið að skerða þjónustuna. Þrátt fyrir þann niðurskurð, sem þarna er, er verið að auka þjónustuna fremur en hitt. Ef hægt er að ná þessum sparnaði, þessum 54 millj. kr., ef ég get það án þess að skerða nýráðningar, verða þær látnar gilda. Ég vil að þetta komi fram. Mér finnst alveg óþarfi að vera að hræða það fólk sem vinnur í þessum málaflokki vegna þess að tölur tala sínu máli. (Gripið fram í.)