Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 20:32:00 (1866)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég óska eftir að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur umræðuna og einnig vil ég biðja um að sá, sem gegnir starfi umhvrh., verði viðstaddur. Ég hef ekki upplýsingar um hvaða hæstv. ráðherra það er en ég sé að hæstv. menntmrh. er hér við umræðuna. Hann hefur setið nokkuð staðfastlega í sæti sínu í dag og á hrós skilið fyrir það a.m.k. miðað við ýmsa aðra hvað viðveru snertir við þessa umræðu. Hæstv. félmrh. er hér einnig og mun ég beina máli mínu til hennar að einhverju leyti, en ég sakna sérstaklega virðulegs formanns nefndarinnar --- ég sé að hann er hér í þingsalnum og mun ég þá hefja mál mitt, virðulegur forseti.
    Þessi umræða, 2. umr. fjárlaga, var hafin svo sem venjubundið er af formanni fjárln. sem flutti ræðu sína í gær. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason gerðist heimspekilegur í vangaveltum sínum í framsögu sinni og raunar einnig bókmenntasinnaður því að hann vitnaði hér í texta ágætra skáldverka og greip niður í Íslandsklukkunni til þess að koma því á framfæri undir hvaða merki meiri hluti fjárln. hefði starfað og með hvaða hugarfari. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið ástæðan fyrir þessum tilvitnunum hv. formanns. Hann brá sér niður í svartholið á Bessastöðum í texta Halldórs Laxness í Íslandsklukkunni og lagði sér í munn orð skáldsins þar sem hann vitnar til eins af þeim sem þar sátu, Ásbjörns Jóakimssonar, fanga af Seltjarnarnesi. Það ber vissulega að fagna því þegar þingmenn grípa niður í góðar bókmenntir máli sínu til stuðnings. Og í þessu tilviki ætlaði hv. formaður fjárln. að bregða fyrir sig skildi máli sínu til stuðnings og greip til Ásbjörns Jóakimssonar í Íslandsklukkunni.
    Ég held að hv. þm. hefði átt að hugsa sig um betur áður en hann fór út í þennan bókmenntatexta. Hann vildi koma því á framfæri að meiri hluti fjárln. hefði verið jafnstaðfastur í störfum og Ásbjörn Jóakimsson, fangi í svartholinu á Bessastöðum, sem neitaði að ferja kóngsins mann yfir Skerjafjörð. Við hvern voru fangarnir í svartholinu á Bessastöðum að kljást? Við hvern voru þeir fulltrúar íslenskrar alþýðu, sem voru tugthúsaðir hjá kóngsvaldinu á Bessastöðum um aldamótin 1600--1700, í byrjun 17. aldar, að kljást? Það var ofríki konungsvaldsins, hins erlenda valds og handlangara þess, hér á landi.

    En fyrir hvaða vald er meiri hluti fjárln. að vinna, hv. formaður fjárln. sem var að vitna til hins staðfasta Ásbjörns Jóakimssonar? Er það íslensk alþýða sem þeir eru fulltrúar fyrir og eru að bregða skildi fyrir í störfum sínum eða eru þeir að ganga erinda annars valds sem lætur sér heldur fátt um finnast aðstæður alþýðufólks í landinu? Ég held að þeir, sem eru komnir í hlutverk konungsvaldsins og handlangara þess, séu nær meiri hluta fjárln. að ekki sé nú talað um sjálfa ríkisstjórn landsins en við höfum kannski áttað okkur á fram undir þetta. En það er smám saman að skýrast.
    Ég held að fulltrúar meiri hlutans, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, sé hér ekki í hlutverk Ásbjörns Jóakimsssonar og ég held að hv. þm. Sturla Böðvarsson, sem er í þessum meiri hluta, sé ekki í hlutverki Halldórs Finnbogasonar af Mýrum sem skáldið setur í svartholið á Bessastöðum í þessu verki og ég held að hv. þm. Árni Johnsen fari ekki í föt Hólmfasts Guðmundssonar í þessu skáldverki. Það mætti kannski vera að við fyndum einhverja samsömun hjá þessum heiðursmönnum sem mynda meiri hluta fjárln. með Jóni Þeófílussyni að vestan og ætla ég þó ekki að fara að draga samasemmerki milli Einars K. Guðfinnssonar, fulltrúa Vestfirðinga í þessum meiri hluta, og Jóni Þeófílussyni sem reyndi að bregða fyrir sig kukli í kvenmannsraunum og brá fyrir sig vindgapa og nábrókarstaf. En það er í rauninni þess háttar kukl, svartigaldur, sem meiri hluti fjárln. hefur reynt að ástunda en með mjög takmörkuðum árangri, í rauninni ekkert betri en hjá Jóni Þeófílussyni og allir þekkja sem lesið hafa Íslandsklukkuna hvernig gekk þegar hann var kominn upp á þakið hjá stúlkunni og ætlaði að bregða upp vindgapanum. ( Gripið fram í: Hvað gerðist?) Það svaf hjá henni maður, segir þar. Og við svo búið hrökklaðist Jón Þeófílusson frá. Og hann var kominn í svartholið á Bessastöðum í félagsskap með Jóni Hreggviðssyni og það átti að brenna hann. En það vafðist fyrir því að Þorskfirðingar synjuðu um hrísið. En ég er alveg viss um að þeir verða nógir til að leggja til hrís að því verki meiri hluta fjárln. sem liggur á borðum okkar og er hér til umræðu. Og ekki aðeins við sem stöndum á bak við þá sem flytja minnihlutaálit því að það liggur við að einstakir þingmenn stjórnarliðsins --- og raunar kemur það berlega fram í flutningi tillagna sem liggja hér á borðum okkar frá stjórnarþingmönnum sem hlaupast undan merkjum, una ekki því oki sem þeim er ætlað að ganga undir svo ég er ekkert frá því að það verði einnig hægt að leita í skóg til einstakra stjórnarþingmanna til að efna í þann köst sem þarf að efna í fyrir áramótin til þess að brenna þessi hugverk með verðugum hætti. Það gæti jafnvel verið að það fengist grein úr Eydalaskógi, ítökum Heydalakirkju, til þess að efna í þann bálköst sem sannarlega þyrfti til þess að brenna þá óværu sem hér er saman komin í tillögum meiri hluta fjárln.
    ,,Þú verður áreiðanlega brendur,`` voru svör Jóns Hreggviðssonar við kjökrinu í Jóni Þeófílussyni í dýflissunni á Bessastöðum. Ég veit ekki hvort það verður miklu hærra risið á formanni fjárln. áður lýkur. Hann hefur nú brugðið á það ráð að hrökklast úr starfi hjá því verkalýðsfélagi þar sem hann hefur starfað í tvo áratugi vegna þess að hann getur ekki réttlætt fyrir samvisku sinni að standa í þeim sporum í ljósi þeirra tillagna sem hann ber fram sem alþingismaður.
    Virðulegur forseti. Það voru vonir bundnar við þá vinnu að fjárlagagerð sem hófst í byrjun þessa þings og það voru vonir bundnar við þær breytingar á þingsköpum sem gerðar voru sl. vor sem gerðu ráð fyrir því að að fjárlagagerð yrði staðið með nýjum hætti, m.a. að fagnefndir þingsins kæmu þar til verka og það var gerð ákveðin atrenna að því máli í byrjun þessa þings, að vísu með ófullkomnari hætti en æskilegt hefði verið og nauðsynlegt er til þess að uppfylla anda nýrra þingskapa í sambandi við fjárlagagerð. Ég nefni þetta hér í upphafi ræðu minnar vegna þess að ég tel nauðsynlegt að þegar þingið verður búið að hrista af sér þau bönd sem núv. ríkisstjórn er að reyna að reyra það í, starf þess

og starfshætti, þá tökum við upp vinnu við fjárlagagerð þingsins í samræmi við það sem ný þingsköp kveða á um og nýtum þá möguleika sem felast í breyttum starfsháttum þingsins. Við þurfum að sjálfsögðu að ná samfellu í fjárlagagerðinni nú þegar þingnefndir eiga að starfa allt árið. Þar þarf að verða breyting varðandi starf fjárln. sjálfrar og hlýtur að verða þannig að hún hefji störf sín ekki síðar en í byrjun hvers árs og sé í rauninni vel á veg komin með þau áður en vorþingi lýkur hverju sinni þannig að fagnefndir sem við köllum svo, aðrar nefndir þingsins en fjárln., geti haft gott ráðrúm til þess að vinna með fjárln. að því að fara yfir einstaka málaflokka hver á sínu sviði, nýta m.a. sumarhlé Alþingis til þess að vinna að einstökum málaflokkum. Það er að mínu mati sú tilhögun sem við ættum að taka upp fyrr en síðar. Raunar kann það að vera nauðsynlegt að byrja fjárlagagerð hvers árs fyrr heldur en þarna er gert ráð fyrir svipað og gerist hjá nágrönnum okkar þar sem menn eru ári á undan að verulegu leyti við mótun fjárlaga þarnæsta árs.
    Ég held að sú litla atrenna sem gerð var af hálfu fagnefndanna til þess að leggja mat á fjárlagatillögur, hugmyndir og tillögur hæstv. fjmrh. samkvæmt fjárlagafrv. hafi verið til bóta þó að þar hefði mátt taka miklu betur á heldur en ráðrúm var til og heldur en vilji stóð til hjá forustu einstakra þingnefnda sem ég ætla þó ekki að lasta sérstaklega vegna þess að þetta var byrjun, þetta var atrenna að verki samkvæmt nýjum þingsköpum og ekki óeðlilegt að menn þurfi nokkurn aðlögunartíma.
    Ég tók þátt í starfi menntmn. og umhvn. þingsins við þessa yfirferð og þessar nefndir skiluðu áliti. Ég mun síðar víkja að því nokkrum orðum en vil aðeins fara hér almennum orðum yfir nokkra þætti sem snerta gerð þessa frv. og vinnu að því bæði hvað varðar þing en alveg sérstaklega hlut ríkisstjórnar í þessu sambandi. Ég held að það sé hægt að taka undir fullum hálsi með minni hluta fjárln. þegar hann leggur mat á störf og starfsskilyrði fjárln. að þessu sinni, að vinnubrögðin hafi verið með miklum eindæmum og alveg sérstaklega að því er varðar hlut ríkisstjórnarinnar. Það hefur aldrei áður gerst degi fyrir framlagningu frv. úr nefnd að ríkisstjórn komi með breytingartillögur, eins og þær sem spruttu upp úr næturvinnu núv. ríkisstjórnar þann 9. des. sl. Þar gerir ríkisstjórnin sér lítið fyrir og leggur til nettóskerðingu fjárlaga upp á 1 1 / 2 milljarð fyrst og fremst með því að ætla að skera niður laun hjá hinu opinbera, skerða laun upp á yfir 2 milljarða kr., 2.255 millj. kr., og endurráðstafa til ráðuneyta tæpum milljarði, eins og hér hefur komið fram við umræðuna, þannig að nettóskerðingin nemur um 1.500 millj.
    Ekki hefur verið útlistað í einstökum atriðum og nánast sáralítið enn sem komið er með hverjum hætti þessi skerðing eigi að ganga fram. Það er þó alveg ljóst að láta á það í hendur ráðuneyta að verulegu leyti að ráðstafa eða leggja á þessa skerðingu innan sinna ráðuneyta, hjá stofnunum ríkisins og þeim sem þiggja laun hjá ríkinu. Hv. formaður fjvn. reyndi að milda þessa skerðingu með því að víkja að einhverri óreiðu sem hann taldi vera í launamálum hjá hinu opinbera. Hann dró það sérstaklega fram að þar væru menn of vel haldnir margir hverjir, þar væru um að ræða duldar greiðslur í ríkum mæli og hafði þar margt í flimtingum í þeim efnum.
    Nú er það svo að vafalaust er hægt að haga ýmsu betur hjá ríkinu, jafnt í rekstri sem varðandi mannahald og launamál, en þær dylgjur sem uppi voru hafðar af hálfu formanns fjvn. í þessum efnum voru til þess gerðar augljóslega að draga fjöður yfir meginkjarna þessara skerðingartillagna sem auðvitað eiga og munu bitna á hinum breiða fjölda ríkisstarfsmanna, þeim sem þá verður ekki sagt upp eða reknir frá störfum. Tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir, sem kunnugt er, að fækka störfum innan ársins hjá hinu opinbera um hvorki meira né minna en 600 manns. Hér er ekki fyrir að fara tillitssemi við hinn breiða fjölda sem starfað hefur hjá hinu opinbera. Aðrir verða einnig fyrir svipu ríkisstjórnarinnar, eins og fram hefur komið. Þeir sem starfa við undirstöðustörf í þjóðfélaginu, eins og sjómannastéttin, þar sem gert er ráð fyrir því að skerða kjör hennar mjög verulega þannig að það er metið á fleiri hundruð millj. kr., jafnvel 400--500 millj. kr. ef tillögur ríkisstjórnarinnar um skerðingu sjómannafrádráttar ná fram að ganga.
    Það hefur vissulega heyrst að hæstv. ríkisstjórn sé farin að hugsa sig um hvort henni sé stætt á því að bera þessar tillögur fram á þinginu og knýja þær fram í atkvæðagreiðslu. Hik er komið á marga stjórnarliða í ljósi þeirra víðtæku mótmæla, sem hafa komið frá sjómönnum og þeim sem njóta sjómannafrádráttar víða um landið, gegn þessum tillögum. Við skulum vona að þær umræður sem hér fara fram og það ráðrúm sem fólki gefst til þess að bregðast við hugmyndum ríkisstjórnarinnar verði til þess að stjórnin hrekist til baka með þau óráð, með þær tillögur, sem hún er að bera fram á elleftu stundu við fjárlagagerðina og eru langt frá því að hafa réttlæti að leiðarljósi. Þvert á móti er víða ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, eins og fram hefur komið í hugmyndunum varðandi málefni fatlaðra og öryrkja, og mikið hefur verið rætt við þessa umræðu. ( Forseti: Forseti vill beina því til hv. 4. þm. Austurl. að meiningin er að fresta fundinum um eða upp úr kl. 7 og vill spyrja hvort þannig standi á í ræðu hv. þm. að hann sé tilbúinn að hætta nú eða innan skamms.) Þingmaðurinn er reiðubúinn til þess. Ég er reiðubúinn til þess nú þegar, virðulegi forseti, og get tekið upp þráðinn að loknu kvöldmatarhléi. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég gerði hlé á máli mínu um sjöleytið þar sem ég ræddi um atlögu ríkisstjórnarinnar að einstökum þjóðfélagshópum, eins og kemur fram í niðurskurðartillögum, sem viðraðar hafa verið hér á þinginu og sýndar að hluta til, sumt þó í hálfkveðnum vísum. Ég hafði við upphaf míns máls óskað eftir því að hér yrðu nokkrir ráðherrar viðstaddir umræðuna auk hv. formanns fjárln. Enn er það hæstv. menntmrh. sem stendur vaktina einn, enn sem komið er, og nú inni ég virðulegan forseta eftir því hvort ekki sé þess að vænta að hæstv. ráðherrar með hæstv. fjmrh. í fararbroddi verði viðstaddir þessa umræðu í kvöld. Ég hafði sérstaklega óskað eftir nærveru hæstv. umhvrh. og vil biðja virðulegan forseta að hlutast til um að þeir verði hér viðstaddir þannig að ég geti flutt mál mitt. ( Forseti: Forseti veit ekki annað en hæstv. ráðherrar séu rétt ókomnir til fundar. Þeir vita af því að þess er vænst að þeir séu viðstaddir þessa umræðu, bæði í dag og í kvöld. Þess er því að vænta að þeir komi hér innan tíðar.) Er ekki ráðlegt, virðulegur forseti, að fresta fundinum þar til hæstv. ráðherrar sem nefndir voru eru viðstaddir? ( Forseti: Forseti heldur að hæstv. umhvrh. hafi fjarvist, hann er ekki hér á þingi svo að ekki er hægt að vænta þess að hann komi hér en aðrir hæstv. ráðherrar sem ekki eru með fjarvistir eða fjarverandi koma hér væntanlega innan tíðar.) Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að einhver gegni starfi umhvrh. um þessar mundir og undrast ef sá hinn sami ekki gegnir sínum þingskyldum. Sé svo að hæstv. umhvrh. Eiður Guðnason hafi tekið upp störf eftir fjarveru, þá geri ég ráð fyrir að hann hafi embættisskyldu sem ráðherra gagnvart þinginu. Ég bið virðulegan forseta að kanna það hið fyrsta hvort hann verður ekki viðstaddur umræðuna. Ég nefndi það óformlega utan þingsalar við formann þingflokks Alþfl. um það leyti sem við gerðum kvöldmatarhlé að ég óskaði eftir viðveru umhvrh., hver svo sem gegndi störfum umhvrh. En ég hefði talið skynsamlegt, virðulegur forseti, að gert yrði smáhlé á meðan hæstv. ráðherrar eru að skila sér til þingfundar. ( Forseti: Ef hv. þm. vill ekki nýta tímann og tala í viðurvist hæstv. menntmrh. sem er nú þegar viðstaddur verður að fresta fundinum um sinn.) Já. Ég tel það skynsamlegt. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég sé að ræst hefur úr að því leyti að hæstv. fjmrh. er kominn til fundar og hæstv. félmrh. er hér á næsta leiti. En ég sé enn ekki hylla undir hæstv. umhvrh. og spyr virðulegan forseta hvort von sé á hæstv. ráðherra til þings. ( Forseti: Hæstv. iðnrh. mun gegna störfum fyrir hæstv. umhvrh. og hann mun vera rétt ókominn í húsið.) Ég þakka virðulegum forseta fyrir upplýsingarnar og mun halda áfram máli mínu í trausti þess

að hæstv. umhvrh. verði fljótlega meðal vor.
    Ég lauk þar máli mínu áður en hlé var gert fyrir kvöldmat að fjalla um það með hvaða hætti hæstv. ríkisstjórn hyggst dreifa byrðunum í sambandi við það aðhald og niðurskurð í ríkisfjármálum sem hún stendur fyrir og gerir tillögur um.
    Það er eðlilegt og nauðsynlegt hverju sinni að halda þannig á ríkisfjármálum að ríkissjóður sé rekinn með sem minnstum halla hverju sinni. Þetta hefur verið markmið ríkisstjórna um langt skeið en það sem sker úr þegar við metum hvernig til tekst er það hvernig byrðunum er jafnað, hvaða tillögur það eru sem fram eru bornar í sambandi við aðhald í ríkisrekstri, hverjir það eru sem eiga að taka á sig byrðarnar og hverjum er sleppt við að axla byrðar í samfélagsins þágu.
    Þær tillögur sem hæstv. ríkisstjórn hefur kynnt og viðrað, sumt í hálfkveðnum vísum, eru þess eðlis að það er tiltölulega auðvelt að meta hvaða hug hæstv. ríkisstjórn ber til hinna einstöku hópa í samfélaginu, hverjir það eru sem hún ætlar að taki á sig þyngstar byrðar og hverjum er sleppt. Hæstv. ríkisstjórn og talsmenn hennar á þingi guma af því að þeir ætli ekki að hækka skatta. Það er þeirra markmið nr. eitt og tvö, engar skattahækkanir. Annað hefur þó komið í ljós, bæði við framlagningu fjárlagafrv. og enn frekar við þær tillögur sem fram eru bornar, að þetta markmið ríkisstjórnarinnar er fokið út í veður og vind. Ég átel það ekki út af fyrir sig þó að skattar séu hækkaðir í einhverjum mæli ef þar er réttlátlega að staðið og leitað að matarholum þar sem menn eru aflögufærir, fólk og fyrirtæki í landinu. Verk ríkisstjórnarinnar að þessu leyti sýna hvert hugurinn beinist. Það eru starfsstéttirnar í þjóðfélaginu, vinnustéttarnar í þjóðfélaginu, sem eiga að axla byrðarnar á meðan öðrum er sleppt sem sannarlega gætu tekið á sig auknar byrðar, þeir tekjuhæstu í þjóðfélaginu. Að ekki sé talað um þá sem sleppa við að greiða gjöld vegna beinna eða óbeinna undanbragða í sambandi við skattgreiðslur. Einnig er sá stóri og sístækkandi hópur sem makar krókinn á fjármagnstekjum sem eru óskertar og sem ekki eru skattlagðar hér eins og almennt gerist í nágrannalöndum og víðast hvar í Vestur-Evrópu. Það er þetta sem við stjórnarandstæðingar gagnrýnum þegar litið er til fjárlaganna og alveg sérstaklega þær hugmyndir sem nú eru fram bornar rétt fyrir 2. umr. fjárlaga og hér hafa verið drjúgt umræðuefni manna við umræðuna til þessa.
    Það hefur komið fram við umræðuna að hæstv. ráðherrar eru orðnir hikandi og að því er virðist hræddir vegna viðbragða almennings í landinu við þessum tillögum. Það hefur m.a. birst í máli hæstv. félmrh. við umræðuna í dag. Aldrei minnist ég þess að hafa séð slíka vanstillingu hjá nokkrum ráðherra við umræðu og er þó hæstv. félmrh. ekki meginábyrgðarmaður þess frv. sem hér er til umræðu. Ráðherrann hefur gripið inn í umræðuna margsinnis, vissulega með eðlilegum hætti, til þess að svara fyrirspurnum en einnig í andsvörum til þess að reyna að verja undanhald sitt. Vissulega er fagnaðarefni að þess sjáist merki að ráðherrann er kominn á fljúgandi ferð frá þeim tillögum sem hann stóð að og er það sannarlega fagnaðarefni ef ekki tekur annað og svipað við. Hæstv. ráðherra boðaði það hér í dag að annað skyldi taka við af álögum á fatlaða og ráðherrann var þó ófáanlegur til þess að greina þingheimi frá því hvað væri í pokanum. Við eigum því eftir að heyra það og ég skora enn á hæstv. ráðherra, því að greinilega þarf ekki mikið til að fá ráðherrann upp í ræðustól nú að loknu kvöldmatarhléi, að opinbera þingheimi hvað það er, hvaða aðgerðir það eru til tekjuöflunar sem ráðherrann hyggst beita sér fyrir og viðraði í dag að væru til kynningar við samtök sveitarstjórna og fulltrúa þeirra.
    Varðandi skerðingu á sjómannaafslætti hafa ekki komið nein skýr viðbrögð frá ríkisstjórninni. Þó örlar á því að þar sé undanhaldið hafið og er það raunar mjög að vonum, svo skörp viðbrögð sem komið hafa fram af hálfu sjómannastéttarinnar og þeirra sem notið hafa þessa skattaafsláttar í sambandi við störf sín, hefðbundins afsláttar, sem síst er ástæða

til að ráðast að nú þegar sjómannastéttin í landinu þarf vegna minnkandi afla að taka á sig mjög verulega rýrnun tekna á yfirstandandi ári og sýnilega enn frekar á komandi ári.
    Viðbrögð öryrkja og þeirra sem þroskaheftir eru og þurfa á aðstoð að halda hafa ekki látið á sér standa og eiga tvímælalaust þátt í því undanhaldi sem hæstv. félmrh. hefur þegar kynnt og sem breytir þeirri mynd sem við höfðum við upphaf þessarar umræðu.
    Ég get tekið undir þær áskoranir sem hér hafa komið fram að eðlilegt væri að fresta þessari umræðu á meðan hæstv. ríkisstjórn er að átta sig. Á meðan stjórnin er að búa sig undir það sjálfsagða verk að kynna þinginu hverjar eru hennar raunverulegu tillögur áður en frv. kemur til atkvæðagreiðslu við lok 2. umr. Það er í rauninni alls ekki sæmilegt að ætla okkur að taka afstöðu til frv., jafnóljóst og það er hverjar eru megintillögur ríkisstjórnarinnar og hvar ríkisstjórnin ætlar að stöðva sig af í sambandi við þetta mál.
    Ég nefndi það, virðulegur forseti, fyrr í minni ræðu að fagnefndir þingsins hefðu fjallað um einstaka þætti frv. Ég ætla að víkja að viðbrögðum menntmn. og sérstaklega minni hluta menntmn. við fjárlagafrv. eins og það lá fyrir. Það segir þó að sjálfsögðu ekki nema hálfa sögu vegna þess að við hefðum áreiðanlega þurft að bæta þar mörgu við ef við hefðum haft fyrir framan okkur þær tillögur sem nýkomnar eru á borð þingmanna, m.a. og ekki síst í sambandi við menntamálin í landinu og þá gífurlegu skerðingu sem þar er boðuð á launum og rekstrarliðum.
    Minni hluti menntmn. skilaði áliti til fjárln. samkvæmt þingsköpum og varð ekki samstaða um álit í nefndinni. Meiri hluti menntmn. vildi sem minnst segja um málið á blaði þó að það væri vissulega ljóst að ýmsir sem í þeim hópi eru höfðu eðlilega ekki síður en við í minni hlutanum áhyggjur af því hvert stefndi varðandi fjárveitingar til menntamála og alls þess sem undir menntmrn. heyrir.
    Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna hér til álits menntmn., sem er fylgiskjal með nefndaráliti meiri hluta fjárln., en þar segir, með leyfi forseta: ,,Frá því að börnum var gert skylt að sækja skóla í upphafi þessarar aldar hefur ríkt sú stefna í íslenskum menntamálum að það sé skylda samfélagsins að sjá til þess að allir fái notið þeirrar menntunar sem nauðsynleg er talin hverjum manni. Kostnaður við skólakerfið hefur verið greiddur úr sameiginlegum sjóðum okkar á öllum skólastigum. Einu undantekningarnar eru sérskólar og skólar sem reknir eru af einkaaðilum en þeir taka nokkur gjöld af nemendum sínum.
    Nú bregður svo við að núverandi ríkisstjórn boðar afgerandi stefnubreytingu sem glöggt má sjá í því frv. til fjárlaga sem menntmn. hefur haft til athugunar að undanförnu. Fyrirhugað er að taka upp nemendaskatt á framhalds- og háskólastigi. Háskólanemar eiga að greiða allt að 17 þús. kr. en nemendur í framhaldsskólum allt að 8 þús. kr. Þar við bætist sú upphæð sem nemendur greiða til félagsstarfa sinna. Fjárveitingar til framhalds- og háskóla eru skornar niður og skólunum gert að mæta niðurskurðinum með nemendasköttum auk þess sem þeir eiga að hagræða og spara, m.a. með samdrætti í kennslu. Eins og kunnugt er streyma nemendur í framhaldsskóla og eru þeir flestir yfirfullir. Því mun skólunum reynast erfitt að skera niður kennslu og eiga því ekki annarra kosta völ en að innheimta skólagjöld til að standa undir rekstrinum sem þeir geta að vísu ekki að óbreyttum lögum.
    Þeir nefndarmenn menntmn., sem undir þetta álit rita, eru alfarið á móti því að skólagjöld verði innheimt í ríkisskólum. Skólakerfið á að vinna að jöfnuði þegnanna og það þjónar velferð samfélagsins alls. Enginn á að þurfa að hverfa frá námi af þeirri ástæðu að hann geti ekki greitt fyrir nám sitt. Það er ekki sæmandi jafn vel stæðu samfélagi og okkar að ganga á vit fortíðar með þeim hætti sem ríkisstjórnin nú boðar. Hér er ekki um háar upphæðir að ræða fyrir ríkissjóð, en einstaklingana og fjölskyldurnar í landinu getur munað um þá peninga sem á að innheimta. Aðalatriðið er þó að nú á að hverfa frá þeirri jafnréttisstefnu sem ríkt hefur um áraraðir í íslensku skólakerfi og því er minni hluti nefndarinnar andvígur.
    Á síðasta vetri voru samþykktar breytingar á grunnskólalögum svo og lög um leikskóla sem bæta mjög aðstöðu yngstu barnanna og stefna í þá átt að aðlaga skólakerfið breyttu þjóðfélagi. Í fjárlögum ársins 1992 er gert ráð fyrir að nokkrum þeirra breytinga, sem fyrirhugaðar voru, verði frestað í sparnaðarskyni og er það mjög miður. Þá vill minni hluti nefndarinnar benda á að Námsgagnastofnun, sem á að þjóna öllum grunnskólanemendum landsins, fær enga aukningu á fjárveitingum og er allt of þröngur stakkur skorinn.
    Þá má ekki láta hjá líða að nefna stöðu héraðsskólanna en frv. ber með sér algjört stefnuleysi í málefnum þeirra.
    Enn einu sinni er boðaður samdráttur í íslensku efnahagslífi vegna minnkandi afla. Enn einu sinni stöndum við frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd hve íslenskt atvinnulíf er einhæft. Á slíkum tímum erum við rækilaga minnt á hve nauðsynlegt er að efla rannsóknir og tilraunir sem gætu orðið til að auðga atvinnulíf og efla menningu. Ríkisstjórn sú, sem nú situr, er greinilega ekki þeirrar skoðunar að rannsóknir þurfi að auka því hún sker niður framlög til rannsóknastofnanna og gerir þeim skylt að afla aukinna sértekna. Þetta er að okkar dómi röng stefna og hættuleg og verður að leiðréttast. Í ýmsum tilfellum er um óraunhæfar sértekjuáætlanir að ræða svo sem á Tilraunastöðinni á Keldum og því hætt við að viðkomandi stofnanir lendi í fjárþröng á næsta ári.
     Menningarlífið fer ekki varhluta af þeim niðurskurði sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir. Minni hluti nefndarinnar bendir sérstaklega á samdrátt í stuðningi ríkisins við listasöfn, en þar eru þess dæmi að fjárveitingar séu skornar niður um allt að 62%. Þar á í hlut listasafn Sigurjóns Ólafssonar en aðstandendur þess safns hafa lýst því yfir að safninu verði að loka fáist ekki út bætt.`` --- Ég get þess hér að mig minnir að einhver smáleiðrétting komi fram í tillögu meiri hluta fjárln. að þessu leyti. Mátti vissulega betur gera en þar er tillaga um. --- ,,Fleiri söfn mætti nefna en minni hluti nefndarinnar vill vekja sérstaka athygli á vanda Þjóðminjasafnsins og Þjóðskjalasafnsins. Eins og kunnugt er hefur hús Þjóðminjasafnsins verið í niðurníðslu og safnið allt þarfnast algjörrar endurskipulagningar. Á fjárlögum næsta árs eru aðeins 10 millj. kr. til viðgerða á húsi Þjóðminjasafnsins og ljóst er að þar er verið að slá á frest vanda sem aðeins vex fyrir vikið. Þjóðskjalasafnið fékk fyrir nokkrum árum nýtt húsnæði sem gefur safninu nýja möguleika til varðveislu og skipulagningar skjalavörslu en allt of hægt gengur sökum naumra fjárveitinga að taka húsnæðið til fyrirhugaðra nota og koma skjalageymslum í horf. Þar er úrbóta þörf.
    Af annarri menningarstarfsemi vill minni hluti nefndarinnar sérstaklega nefna hróplegan niðurskurð á fjárframlögum frjálsrar leiklistarstarfsemi í landinu og óraunhæf framlög til Þjóðleikhússins. Alþýðuleikhúsið, sem um árabil hefur fengið ákveðna fjárveitingu, er þurrkað út. Þá kemur niðurskurðurinn harkalaga niður á leikfélögum úti á landsbyggðinni en fátt er dreifðri byggð í landinu meira til stuðnings en öflug menningarstarfsemi.``
    Þetta er kjarninn í áliti menntmn. sem sent var til fjárln. 8. nóv. sl.
    Undir þessu áliti standa nöfn þess sem hér talar, einnig Kristínar Ástgeirsdóttur og Valgerðar Sverrisdóttur.
    Ég taldi ástæðu til kynna þau viðhorf sem hér koma fram í þessu áliti en þar með er raunar ekki hálf sagan sögð. Eins og ég gat um þá fela nýkomnar tillögur um flatan niðurskurð á launaliðum og rekstrarkostnaði í sér gífurlega skerðingu á framlögum til menntmrn. Þó að hluta af því eigi að endurgreiða til menntmrh., sem eins konar spilapeninga til að úthluta, e.t.v. eftir geðþótta hæstv. ráðherra, ég er ekki að ætla honum það sérstaklega heldur munu þær hugmyndir sem þar eru eiga við öll ráðuneytin, a.m.k. hefur ekkert verið kynnt hér um það eftir hvaða reglum eigi að úthluta þeim milljarði sem þar er á ferðinni og sem ráðuneytunum er ætlað að sjá fyrir.     Þá er einnig ógetið í þessu samhengi þeirra tillagna sem koma fram í bandorminum sæla sem hér var til umræðu í sambandi við frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992 fyrir örfáum dögum síðan. Þar er að vísu um að ræða mjög óverulegan niðurskurð hvað snertir fjárveitingar en þeim mun harkalegar vegið að stefnumiðun í sambandi við íslensk skólamál sem er enn meira áhyggjuefni en þeir fáu tugir milljóna sem ætlað er í beinan niðurskurð samkvæmt því frumvarpi. Það mál er til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. þingsins og ætla ég ekki að gera það að umræðuefni frekar enda ræddi ég það allítarlega þegar það var til meðferðar.
    Hins vegar vekur það athygli, virðulegur forseti, að við skulum vera að fjalla um mál sem snerta ríkisfjármálin 1992 sundurgreint, vegna þess að hugmyndir ríkisstjórnarinnar eru á tvist og bast. Þær eru ekki komnar nema að hluta inn í fjárlagafrv., sem við ræðum hér, og aðrir þættir eru í öðrum frv. eins og umræddu frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta er auðvitað mjög óheppilegt. Mér finnst það orka mjög tvímælis að um frumvörp af þessu tagi, sem varða ráðstafanir í ríkisfjármálum, skuli vera fjallað í annarri nefnd en fjárln. þingsins. Það verður enn til þess að auka á sundurvirknina í málsmeðferðinni og allt er óskýrar fyrir bragðið. Ég átta mig ekki á því hvaða viðhorf liggja til grundvallar þeirri málsmeðferð og hvet til þess að það verði endurmetið við fjárlagagerð ársins 1993 hvort ekki er skynsamlegt að láta alla þá þætti sem varða ríkisfjármálin ganga til fjárln., þar á meðal frv. til lánsfjárlaga eða a.m.k. verulega þætti þess máls. Fjárln. haldi þannig um þræðina og frá fjárln. sé málunum vísað til annarra nefnda þingsins til meðferðar og umfjöllunar með eðlilegum hætti eins og þingskapalög gera ráð fyrir.
    Í áliti minni hluta menntmn. er lýst sérstökum áhyggjum vegna þess hvernig búið er að rannsóknum og þróunarstarfsemi í landinu. Það varðar fjárlagafrv. næsta árs. Það gerði ég að sérstöku umræðuefni þegar við ræddum frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég minni bara á hversu gersamlega ófullnægjandi það er og reyndar mjög í stíl við það svartnætti sem ríkir yfir ríkisstjórninni og gerðum hennar í sambandi við fjárlagagerðina því þar vantar allar stefnumarkandi áherslur sem geta verið til sóknar, til að afla sóknarfæra fyrir framtíðina, til að skjóta stoðum undir framleiðslustarfsemi í landinu á komandi árum og skal ekki meira um það sagt að sinni.
    En fleiri þættir sem varða menntamálin og skólastarfsemi í landinu er ástæða til að gera að umræðuefni. Hér er komin til umræðu tillaga frá fjórum þingmönnum sem flutt er á þskj. 258. 1. flm. er hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og með henni Valgerður Sverrisdóttir, Hjörleifur Guttormsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Þar er að finna tillögur um að hnekkja þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur boðað í sambandi við nemendaskatta í landinu á framhaldsskólastigi og á háskólastigi. Við skulum vona að þessi tillaga fái þann stuðning sem þarf til þess að a.m.k. þessi þáttur í óheillastefnu ríkisstjórnarinnar liggi ekki hér fyrir þegar málið kemur til 3. umr.
    Það hefur komið fram að ýmsir stjórnarliðar telja sig albúna til að leggjast á sveif með stjórnarandstöðunni við að hnekkja þeirri stefnu sem þarna var mörkuð. Ýmsir stjórnarliðar hafa lýst vilja til þess að leggjast á sveif með stjórnarandstöðunni í þinginu til að hnekkja þessari stefnu varðandi nemendaskatta.
    Ef litið er til æðstu stofnana í skólakerfinu, ef svo má segja þó að það sé kannski ekki það orðalag sem við munum endilega velja a.m.k. ekki hvað snertir mikilvægi en ég á við háskólastigið, þá er ljóst að mjög skortir á að þar sé staðið að málum eins og vert væri og þörf væri á m.a. vegna rannsókna og þróunarstarfsemi og þess sem snýr að nýsköpun í atvinnulífi í landinu. Þetta á við almennt um háskólastigið. Þetta á við um Tækniskóla Íslands, þetta á við um Háskólann á Akureyri og þetta á við um Háskóla Íslands svo nokkur dæmi séu nefnd.

    Ég tel alveg sérstaka ástæðu til þess, virðulegur forseti, að við reynum að sameinast um það að efla þann vísi til háskólanáms sem kominn er á Akureyri. Ánægjulegt var að fá nýlega á fund menntmn. þingsins fulltrúa frá Háskólanum á Akureyri til að kynna hugmyndir um nýja vaxtarsprota við þann skóla. Við skulum vona að einhverjir þeirra fái náð fyrir augum fjárveitingavalds og stuðning eins og vert væri, m.a. kennaramenntun við þann skóla. Einnig tel ég að það ætti að leitast við að tengja við þann skóla ákveðna þætti sem snerta atvinnulífið. Sjávarútvegsmálefni hafa verið nefnd í því samhengi en margt fleira getur þar til greina komið.
    Við skulum minnast þess að háskólastarfsemi þrífst ekki án rannsókna og tryggja þarf að Háskólinn á Akureyri geti staðið fyrir rannsóknastarfi og tengst nýmælum í atvinnulífi. Í skjóli hans og upp úr starfi hans ætti að spretta atvinnuþróun sem gjarnan má tengjast þeim landshluta þar sem skólinn er staðsettur og landsbyggðinni sérstaklega. Þó vil ég minna á að þetta er skóli fyrir landið allt, alveg eins og Háskóli Íslands hér í Reykjavík og á ekki að gjalda aðseturs síns að þessu leyti.
    Háskóli Íslands er stór stofnun, stofnun í vexti, stofnun sem verðskuldar alla athygli okkar á Alþingi. Nýlega var menntmn. þingsins í heimsókn hjá Háskóla Íslands og þar var okkur gefið yfirlit yfir stöðu mála, sérstaklega að því er varðar fjárlagagerðina. Ég hlýt að nefna hér, virðulegur forseti, í nokkrum orðum það helsta sem blasir við þegar við lítum til fjárlagafrv.
    Varðandi fjárveitingar til Háskóla Íslands þyrftu þær að nema á árinu 1992 tæpum 1.700 millj. kr. og til þess að halda í horfinu er það mat háskólamanna, forráðamanna Háskólans, að það skorti 162 millj. upp á að það megi takast. Þá eru ekki reiknaðar með 75 millj. kr. sem ríkisstjórnin ætlaði að afla til skólans með sérstökum nemendasköttum eða skólagjöldum sem svöruðu til þessarar upphæðar, um 75 millj. kr. Það vantar sem sagt verulega á að það sé haldið í horfinu varðandi fjárveitingar til Háskólans. Fyrir utan þessa upphæð skortir á aukningu vegna fjölgunar nemenda við skólann. Það er ekki tekið tillit til þess, hvað þá til aukningar vegna æskilegra nýmæla og þróunar háskóladeilda sem Háskólinn hefur haft í undirbúningi svo og hækkun sem þyrfti að verða á framlögum til rannsóknasjóðs í sambandi við starfsemi skólans.
    Þess ber að geta og við þurfum að hafa það í huga að fjárveitingar til Háskólans eru lægri en til sambærilegra háskóla erlendis. Fyrir því liggja skilmerkileg gögn sem styðja það viðhorf og þá fullyrðingu háskólamanna. Við þurfum að gæta að því að þessi skóli, eins og aðrir skólar á háskólastigi, á ekki síst að verða til þess að bæta aðstöðuna varðandi rannsóknir og þróun og það sem skilar sér inn í atvinnulíf í landinu. Einnig þarf að huga að þeim þáttum sem snúa að menningarlífi, menningarstarfsemi og hugvísindum því að maðurinn lifir enn ekki á brauði einu saman og mun seint gera. Í yfirliti sem við fengum frá Háskóla Íslands segir í niðurstöðum, ég leyfi mér að vitna til þess, virðulegur forseti:
    ,,Háskóli Íslands hefur vaxið ört á liðnum árum vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur í menntamálum á Íslandi og í nágrannalöndunum. Háskóli Íslands er og verður æðsta mennta- og vísindastofnun þjóðarinnar. Atvinnulífið krefst æ meiri verkaskiptingar, sérhæfingar og menntunar. Aukin menntun skilar sér í aukinni framleiðni og bættum hag alls þjóðfélagsins. Allar vestrænar þjóðir leggja mikið upp úr góðu skólakerfi og sérstaklega er varið miklum fjármunum til háskóla vegna kennslu og rannsókna. Svo virðist sem skilningur ríki á þessu sjónarmiði innan núv. ríkisstjórnar`` --- segir þar og eru þeir þá að vitna til stefnuskrár --- ,,því í stefnu- og starfsáætlun hennar segir orðrétt um háskólanám:
    ,,Samkeppni á sviði mennta og rannsókna hefur aukist samhliða því að ljóst er orðið að afkoma þjóða ræðst í æ ríkari mæli af öflugu rannsókna- og þróunarstarfi, jafnt í undirstöðugreinum sem þjónustugreinum. Hugað verður sérstaklega að því að styrkja þau svið

í kennslu og rannsóknum þar sem Íslendingar hafa möguleika á að skara fram úr á alþjóðavettvangi.`` Og enn fremur segir: ,,Sérstök áhersla verður lögð á að efla framhaldsnám og þjálfun rannsóknarmanna við Háskóla Íslands.````
    Á þetta er bent í niðurstöðum frá Háskólanum sem settar eru fram 29. okt. sl. en því miður hefur þetta ekki gengið eftir í meðferð fjárlagafrv. og því skortir eins og hér hefur komið fram verulega á að halda megi í horfinu í sambandi við starfsemi Háskólans. Fjárveitingar til Háskólans hafa farið vaxandi á liðnum árum og það er nauðsynlegt að við gætum þess að þar sé eðlilega á haldið og alveg sérstaklega með tilliti til þess að skjóta rótum undir rannsóknir sem hagnýtar geta talist fyrir utan eðlilega aðhlynningu að hugvísindaþáttum sem þar eru kenndir og stundaðir.
    Ég mun þá víkja, virðulegur forseti, frá menntamálunum yfir til umhverfismálanna. Ég sá hæstv. starfandi umhvrh. áðan í sal en hann er horfinn á braut en ég vildi biðja um að honum væri gert viðvart að nærveru hans sé óskað.
    Umhvn. Alþingis fjallaði eins og menntmn. um fjárlagafrv. og skilaði sameiginlegu áliti til fjárln. þann 7. nóv. sl. Í stuttu sameiginlegu áliti nefndarinnar segir:
    ,,Nefndin telur að umfjöllun hennar um fjárlagafrv. hafi verið gagnlegt nýmæli og hyggst hún halda áfram á sömu braut á næsta þingi. Við skipulagningu starfsins næsta haust tekur nefndin mið af fenginni reynslu og mun hefja yfirferðina fyrr en nú var mögulegt.
    Nefndin ákvað að gera ekki brtt. við einstaka liði þess hluta fjárlagafrv. sem að henni snýr. Eigi að síður vill nefndin vekja athygli á brýnni fjárþörf`` --- og enn bólar ekki á hæstv. ráðherra. ( Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. um að það er verið að kalla til hans og hér kemur hann.) Hér kemur hæstv. starfandi umhvrh. og jafnframt hæstv. iðnrh. og fer ekki illa á því því að svo vill nú til að umhvrn. hefur seilst til ýmissa þátta sem varða umhverfismál í landinu og heldur þar nokkuð fast á gagnvart ráðuneyti umhverfismála. En ég var, hæstv. ráðherra, að rekja hér stutt álit umhvn. þingsins varðandi fjárveitingar þar sem nefndin vill vekja athygli á brýnni fjárþörf ,,til verkefna á sviði umhvrn. eins og viðbótartillögur ráðuneytisins til fjárlaganefndar vitna um. Þá kom fram í gögnum sem Náttúruverndarráð lagði fram að fjölgun verkefna og stöðug eftirspurn eftir þjónustu ráðsins kalli á meiri fjárþörf af opinberu fé en verið hefur hingað til. Enn fremur vill nefndin minna á að umhvrn. er yngsta ráðuneytið innan Stjórnarráðsins og því er brýnt að við fjárveitingar til ráðuneytisins verði nægilegt tillit tekið til uppbyggingar þess. Þýðing umhverfismála á alþjóðavísu fer ört vaxandi og það endurspeglast m.a. í auknum fjárframlögum til þessa málaflokks í nágrannalöndum okkar.``
    Þetta er kjarninn úr umsögn umhvn. sem öll nefndin stendur að og undirritar fremstur formaður nefndarinnar, hv. þm. nú í forsetastól, Gunnlaugur Stefánsson. Ég tel alveg sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á þeirri mjög svo slæmu útreið sem þetta nýja ráðuneyti hefur fengið af hálfu ríkisstjórnarinnar og af hálfu fjárln. þingsins því að hún bætir þar sýnist mér lítt um betur. Og það ber alveg sérstaklega að draga þetta fram vegna þess að hér er um að ræða ráðuneyti sem hefur fengið þýðingarmikil verkefni í hendur. Að vísu er þar ekki allt til skila komið sem stefnt var að í upphafi hvað verkefni snertir, en þó er ljóst að ráðuneytið þarf, til þess að ná tökum á sínum málaflokki, allt aðra meðferð og allt annan skilning af hálfu fjárveitingavaldsins heldur en kemur fram í frv. til fjárlaga og þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Þær eru að mínu mati beinlínis aðför að þessu ráðuneyti umhverfismála sem þyrfti að geta tekið á sínum málum þannig að við vinnum okkur fram í þessum þýðingarmikla málaflokki og vinnum upp það sem vantað hefur á mörgum undanförnum árum að Stjórnarráðið tæki á þessum málum, umhverfismálunum, eins og brýn þörf er á. Þetta endurspeglast í athugasemdum og sérstöku bréfi ráðuneytisins sjálfs til fjárln. þingsins 23. okt. 1991. Þar leggur ráðuneytið fram óskir, skömmu eftir að fjárlagafrv. er lagt, um breytingar á frv. fyrir árið 1992. Þar er að finna tillögu um fjárveitingu til svonefndrar stafrænnar kortagerðar upp á 57 millj. kr. sem er afar brýnt undirstöðuverkefni og gerist ekki nema skilningur sé hér á Alþingi fyrir því. Þar er í öðru lagi tillaga um átak í sorphirðumálum, að til þess verði varið af ríkisins hálfu 125 millj. kr. Þetta er ósk frá hæstv. umhvrh. 23. okt. sl. Ég heyrði einhvern nefna hér töluna 5 millj. eða eitthvað í þá átt fyrir skemmstu sem von væri á að kæmi inn í þennan málaflokk --- og nú er hv. formaður fjárln. á brautu. Maður hefur ekki við að reyna að tryggja að þeir, sem eru hér ábyrgðarmenn þessa máls sem við ræðum hér, séu viðlátnir. Og er þá hæstv. heilbrrh. kominn um alllangan veg að ég trúi og ber að fagna því að það hefur aðeins fjölgað þarna á vinstri væng.
    Í þriðja lagi nefnir ráðuneytið alþjóðlega framkvæmdamiðstöð umhverfisrannsókna, upp á 12 millj., byggingarstaðlaráð upp á 4 millj., náttúruhús í Reykjavík, viðbót upp á 1 1 / 2 millj. Ég sá ekki betur heldur en meiri hluti fjárln. væri að strika þann lið út og sýnir það nú naglaskapinn ásamt öðru hjá þessu liði eða réttara sagt hugmyndaauðgina sem að baki býr þar sem um er að ræða undirbúning vegna tillagna sem unnar voru fyrir umhvrn., áður menntmrn., og varðar það verkefni að koma upp hér á höfuðborgarsvæðinu sómasamlegu náttúruhúsi með safnaðstöðu og aðstöðu fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands. Og það sem er nýtt í því máli og skiptir máli í því samhengi er að það tókst eftir langa töf að fá höfuðborgina til liðs við þetta málefni sem samstarfsaðila svo og Háskóla Íslands til þess að taka þátt í þessu verkefni sem er þáttur í því, ásamt því frv. sem hæstv. umhvrh. hefur nýlega lagt hér fyrir varðandi Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur í landshlutunum að lyfta þessum þætti úr öskustó sem er einn af undirstöðuþáttum umhverfismála í landinu og málefna til aukins skilnings á náttúru landsins. Og þá kemur meiri hluti fjárln. og strikar út litla undirbúningsfjárveitingu upp á 3,5 millj. kr. sem er mótframlag á móti Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands til þess að undirbúa þetta verkefni.
    Ég veit ekki, virðulegir alþm., hvort þið hafið hugleitt hvers konar aðstaða það er sem okkur er búin til þess að átta okkur á undirstöðuþáttum varðandi náttúru okkar lands. Og jafnhliða hvernig aðstaða ferðaþjónustunnar í landinu er búin til þess að taka á móti þeim sem sækja okkur heim og sem flestir eru að leita til Íslands til þess að skoða náttúru landsins og kynnast henni. Þar er að sjálfsögðu sæmilegt andlit, kynning á nútímalega vísu, einn af undirstöðuþáttunum og þar á auðvitað höfuðborg landsins að leggja því lið ásamt ríkisvaldinu. Þess vegna er það auðvitað afar jákvætt að það hefur tekist að efna til samstarfs höfuðborgar, Háskóla og að einhverju leyti ríkisins til þess að koma þessu verkefni áfram. En þetta er aðeins eitt lítið sýnishorn af því svartnætti sem grúfir yfir meiri hluta fjárln., eitt lítið dæmi, einn lítill nagli af mörgum í þá glatkistu, sem þessi fjárln. er að smíða í sambandi við framfaramál í landinu.
    Ég tel þó að ég sé baráttumaður fyrir hag landsbyggðarinnar að við verðum að hafa auga á því sem varðar landið allt og samstillingu kraftanna. Það hefur einmitt skort á að höfuðborg landsins tæki á málum með ríkisvaldinu og stæði skil á eðlilegum þáttum til starfsemi sem höfuðborgarbúar og næsta nágrenni hefur hag af öðrum fremur. Þess vegna var það samstarf sem hér var lagður grunnur að þeim mun meira ánægjuefni.
    Þá er nefnt í tillögum umhvrn. gróðurkortagerð, fjárveiting upp á 2 millj. kr. Allt liggur þetta úti ef ekki útstrikað samkvæmt tillögu meiri hluta fjárln. Það var reitt fram sem skýring, virðulegur forseti og hæstv. umhvrh., á því að umhvrn. fór svo hraklega út úr fjárveitingum að það hefði ekki, sem ungt ráðuneyti og menn kannski ekki allt of kunnugir rangölum Stjórnarráðsins og undirbúningi fjárlagagerðar, náð sínum hlut. Hæstv. fjmrh. hafði sótt lagið það langt að ráðuneytinu gafst ekki einu sinni kostur til að lesa yfir tillögurnar áður en þær voru prentaðar í frv. hæstv. ráðherra. Og þykir mér heldur langt

seilst í þeim málum.
    Ég gæti flutt margt til rökstuðnings þeim orðum sem ég hef látið falla varðandi umhverfismálin. Ég gæti vitnað til fjárþarfar að því er snertir náttúruvernd víða um land og tillögur Náttúruverndarráðs þar að lútandi og athugasemdir við fjárlagagerð. Þar er staðan þannig hvað snertir eftirlit og úrbætur, m.a. á ferðamannastöðum í landinu að það er okkur til stórskammar. Það er þjóðinni til stórfellds vansa hvernig staðið er þar að málum og þó er þar um að ræða þann þátt í atvinnuþróun í landinu sem hefur skilað vexti, jafnvel meiri vexti á undanförnum árum heldur en landið þolir, sú auðlind sem við erum að gera út á með ferðamennskunni vegna þess hvernig við stöndum að málum. Ég tel hins vegar að ef eðlilega væri á málum haldið, eðlileg uppbygging væri, eftirlit og fræðsla tengd ferðamannastöðum á landinu og skipulag þannig að um eðlilega dreifingu ferðamanna væri að ræða þá gæti landið vel staðið undir þeim ferðamannastraumi innlendra og erlendra manna sem hér eru nú og jafnvel tekið við frekari vexti að þessu leyti. En ef fram heldur sem horfir í fjársvelti til þessara þátta, eins og hér er enn fram haldið og í verri mæli en áður, þá verðum við einnig að setja takmörk í sambandi við þessa atvinnustarfsemi, þ.e. ferðaþjónustuna, og er hún þó aðeins einn þáttur þess sjálfsagða verkefnis að standa vörð um náttúru landsins og gæta þess að hún spillist ekki. Það vantar ekki fögur orð í því sambandi, en það eru efndir sem á skortir. Það er sá skilningur sem þarf til verka og nauðsynlegra aðgerða. Hann reynist ekki vera til staðar.
    Og það hefur ekki mikið ræst úr með þeim brtt. sem hér liggja fyrir frá hv. fjárln. og einnig sjálft Alþingi er þar undir öxinni. Þar er bætt við þann niðurskurð sem stjórn þingsins féllst á hálfnauðug á sl. sumri fyrir atbeina ríkisvaldsins, vegna þess að hæstv. forsrh. setti þinginu sérstakt erindi og óskaði eftir því, svo að ekki sé sagt krafðist þess, að skorið yrði niður til viðbótar við það sem gert var af forsætisnefnd þingsins á upphaflegum áætlunum embættismanna. Við þessu var orðið af meiri hluta í forsætisnefnd. Ég varaði við þeim vinnubrögðum að þingið færi að taka á málum sérstaklega eftir óskum frá ríkisstjórn. Alþingi á að meta sín mál óháð stjórnvöldum. Alþingi á sjálft að meta fjárþörfina hverju sinni. Enn kemur ríkisvaldið og hefur nú lagst á meiri hluta fjárln. sem skilar hér inn tillögu um 7 millj. kr. niðurskurð til viðbótar.
    Það er nauðsynlegt, virðulegur forseti, fyrir þingið að gæta að sinni stöðu, ekki síst gagnvart óbilgjörnu ríkisvaldi, óbilgjörnum ráðherrum og ríkisvaldi, sem gengur fram gagnvart þinginu eins og raun ber vitni eins og menn sjá nú lýsandi dæmi um dag hvern í sambandi við fjárlagagerðina. En það er ekki eingöngu hér. Úti um landið eru stofnanir sem ekki fá náð fyrir augum ríkisvaldsins. Ég vil taka eitt dæmi um nýja starfshætti, ný vinnubrögð af hálfu meiri hlutans og ráðherra sem standa að baki meiri hluta fjárln. og gera kröfur til þeirra handlangara sem bera hér fram tillögur á þinginu. Dæmin, sem við okkur blasa, eru fjárveitingar og nú kem ég að einum þætti sem snýr að mínu kjördæmi. Ég hef ekki dvalið, virðulegi forseti, mikið við það en það eru heilsugæslumálin og hjúkrunarmálin í Austurlandskjördæmi sem um er að ræða. Þar er verkefni sem lengi hefur beðið og ekki fær neinar undirtektir hjá hæstv. heilbrrh. né heldur hjá meiri hluta fjárln. Um er að ræða hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði sem hefur verið í undirbúningi um langt skeið og knúið hefur verið á um vegna neyðarástands sem ríkir í þessari öflugu útgerðarstöð og þéttbýli á suðausturhorni landsins. Við alþingismenn Austurlands höfum fengið fjölda erinda, áskorana og beiðna frá fólki á þessu svæði, fólki sem gerir þá einu kröfu að unnið sé að úrbótum fyrir aldraða í Austur-Skaftafellssýslu og nágrenni. En það er ekki að finna krónu í þetta verkefni samkvæmt tillögum hæstv. heilbrrh. eða meiri hluta fjárln.
    Mörg erindin hafa verið send hæstv. heilbrrh. um þetta efni. Ég leyfi mér að vitna í eitt hið síðasta sem ég hygg að ráðherrann hafi fengið. Það er frá 6. nóv. 1991 og er þó aðeins kafli úr bréfi frá heilsugæslulækni, bæjarstjóra og stjórn heilsugæslustöðvarinnar á Höfn þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Í árslok 1990 voru íbúar Austur-Skaftafellssýslu 2.368 fyrir utan þá sem lögheimili áttu annars staðar. Íbúar 67 ára og eldri að meðtöldum vistmönnum Skjólgarðs voru 216 eða rúmlega 9% af heildaríbúatölunni. Samkvæmt bréfi dags. 4. nóv. sl. frá heilbrigðisfulltrúa Austur-Skaftafellssýslu uppfylla aðeins 5 af 18 herbergjum hjúkrunardeildar Skjólgarðs lágmarkskröfur um stærð. Auk þessa gerir hann aðrar athugasemdir, sérlega hvað varðar stærð og aðstöðu í eldhúsi sem og staðsetningu þvottahúss. Eldvarnareftirlit Austur-Skaftafellsýslu hefur einnig gert athugasemdir og telur húsið slysagildru. Í dag er 31 hjúkrunarsjúklingur á Skjólgarði. Af þessu má sjá að aðbúnaður vistmanna og starfsfólks er óviðunandi. Það eru mörg ár síðan farið var að ræða um byggingu hjúkrunardeildar á Höfn. Reyndar var gert ráð fyrir slíkri deild í tengslum við heilsugæslustöðina á upprunalegum teikningum þeirrar byggingar. Hafa þessi mál verið endurskoðuð í tímans rás og liggja nú fyrir nýjar teikningar að hjúkrunarálmu sem gert er ráð fyrir að byggja í tveimur áföngum. Höfn er landfræðilega afskekkt byggðarlag þar sem 100 km eru í næsta kauptún, Djúpavog. Tæpir 500 km eru til sjúkrahúsanna í Reykjavík og um 300 km í Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Þetta er löng leið þegar verið er að tala um sjúkraflutninga hvort sem er í lofti eða á landi. Sjúkraflugþjónustan er innt af hendi frá Egilsstöðum eða Reykjavík, aðallega þó frá Egilsstöðum. Engin sjúkraflugvél er staðsett á Höfn. Samkvæmt fyrrnefndum teikningum, sem áður er lýst í bréfinu, að hjúkrunarálmunni er reiknað með 30 rúmum. Af þeim mundu 2--4 rúm nýtast til skammtímainnlagna, til að mynda hvíldarinnlagna og yfirvakninga eftir minni háttar slys sem annars þyrfti að sinna á sjúkrahúsi. Aðstaða væri til fæðingarhjálpar.`` Þetta eru aðalatriðin í þessu erindi sem Guðmundur Olgeirsson heilsugæslulæknir, Björn Grétar Sveinsson formaður stjórnar Skjólgarðs, Sturlaugur Þorsteinsson, bæjarstjóri Höfn, og Unnur Garðarsdóttir, í stjórn Heilsugæslustöðvar á Höfn undirrita.
    Undir þetta erindi er tekið af fjölmörgum sem beina ákalli til okkar þingmanna og ráðuneytis m.a. frá Læknafélagi Austurlands sem vel ætti að þekkja aðstæður og dregur fram hversu hörmulega þar er búið að vistmönnum nú hvað þá á næstu árum þegar margir hafa bæst við. Jafnvel þótt hafist væri handa strax, því raunar var veitt byrjunarfjárveiting á síðasta ári upp á að mig minnir 1 millj. kr. eða svo, þá dugar hún skammt.
    Hér er illa að málum staðið. Það gengur ekki að standa þannig að varðandi þá öldruðu í þessu landi, fólk sem hefur byggt upp Ísland á liðnum áratugum með þeim myndarskap sem við búum að í dag. Við þingmenn Austurl. töldum okkur knúða til þess við yfirferð yfir þennan málaflokk að gera litla úrbót að því er snertir Höfn í Hornafirði með því að flytja fjármagn frá þremur stöðum, þó að enginn sé í raun aflögufær, til þess að það væri þó á blaði og hægt að hefjast handa við þetta verkefni. En einnig það var barið niður af ráðherra og meiri hluta fjárln. sem beygði sig undir hans ok. Þetta er einsdæmi í málsmeðferð á þeim tíma sem ég hef komið nærri fjárlagagerð sem þingmaður kjördæmis, að ekki sé tekið tillit til eindreginna óska þingmanna kjördæmisins jafnt úr stjórn sem stjórnarandstöðu. Viðbrögðin við þessu endurspeglast m.a. í því að hér liggur eðlilega fyrir breytingartillaga sem einn af þingmönnum Austurl. úr stjórnarliði flytur við þessa umræðu og vona ég sannarlega að sú tillaga fái jákvæðar undirtektir svo sem öll rök standa til.
    Ég hlaut, virðulegur forseti, að nefna þetta mál, lítið á heildarmælikvarða fjárlaga en stórt á mælikvarða þeirrar byggðar sem í hlut á og þess fólks sem horfir til úrlausnar og eðlilegs skilnings til Alþingis varðandi lágmarksþarfir.
    Virðulegur forseti. Í upphafi máls míns gerði ég að umtalsefni þá heimspeki sem virðist svífa yfir vötnum meiri hluta fjárln. í tillögugerð hennar og þær rangtúlkanir og þær skrautfjaðrir sem þessi meiri hluti reynir að afla sér með því að telja sig vera vörslumann fyrir alþýðu í landinu með því að vitna til þeirra sem risu upp gegn kóngsins valdi fyrr á tíð. En þeir eru í raun aumir handlangarar þeirra sem nú eru komnir í stað þessa valds, aumir handlangarar þeirra og eiga ekki að skreyta sig með slíkum fjöðrum. Það duga þeim engir galdrastafir til þess að blekkja því að alþýða manna í landinu er að átta sig á því þessa dagana fyrir hvað þessi ríkisstjórn stendur, hvers konar svartagall það er sem hún er að byrla landsmönnum. Það er ekki bara hrafnsgall, það er svartagall sem þar er á ferðinni og er ég þá kominn að Jóni Þeófílussyni á ný sem reyndi að beita kunnáttu alþýðumannsins og var settur í svartholið á Bessastöðum af þeim sökum. Jón Hreggviðsson kallaði eftir því að þörf væri á að geta beitt galdri í svartholinu á Bessastöðum og hvernig væri að verða sér úti um vindgapa til þess að óskirnar næðu fram. Jón Þeófílusson svaraði, samkvæmt orðum skáldsins, að ekki væri hlaupið að því að koma sér upp þessum staf ,,til þess þurfti mun rýmri aðgáng að dýraríkinu og náttúrukröftunum en kostur var í þessum stað; vindgapi er letraður með hrafnsgalli á mórautt hundtíkarskinn holdrosamegin og borið síðan ofaní stafinn blóð úr svörtum fressketti sem óspjölluð mey hefur skorið á háls við fullu túngli.
    Hvernig gastu fengið óspjallaða mey til að skera svartan fresskött? spurði Jón Hreggviðsson.
    Hún systir mín gerði það, sagði maðurinn. Það tók okkur þrjú ár að útvega hrafnsgallið. En fyrstu nóttina sem ég hélt gapanum á lofti uppá svefnhúsi prestsdótturinnar og þuldi gapaldursstefnu var komið að mér, enda var þá kýrin dauð.
    En stúlkan, spurði Jón Hreggviðsson.
    Það svaf hjá henni maður, sagði Jón Þeófílusson grátandi.
    Jón Hreggviðsson hristi höfuðið.
    Meðal annarra orða, varstu ekki eitthvað að tala um nábrók: ég skil varla þú hafir þurft að vera á flæðiskeri staddur ef þú hefur átt nábrók, því mér er sagt það sé ævinlega í henni peníngur ef vel er leitað.     Ég var búinn að útvega mér nábrókarstafinn og stela peníngnum frá ekkjunni til að láta í hana. En nábrókina sjálfa eignaðist ég aldrei, því maðurinn sem ég samdi við um að mega flá af honum húðina er ekki dauður enn og kominn þó fast að níræðu. Enda var alt um seinan því kýrin var dauð og folaldið komið oní pyttinn. Og skömmu síðar vitraðist Pokurinn honum Sigurði sáluga á banasænginni og vitnaði á móti mér.
    Nú varð þögn um sinn, utan hvað galdramaðurnn heyrðist snökta í myrkrinu. Eftir drykklánga stund sagði Jón Hreggviðsson af hljóði:
    Þú verður áreiðanlega brendur.
    Galdramaðurinn hélt áfram að skæla.``
    Mín lokaorð eru þau: Sú ríkisstjórn sem ber hér fram þetta fjárlagafrv. til 2. umr. á ekkert annað fremur skilið heldur en að brenna upp á eigin verkum sem fram eru borin með þessu frv. Það væru verðskulduð endalok og mér sýnist raunar að hún sé farin að safna eldi að höfði sér með þeim tillögum sem hér liggja fyrir.