Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 23:53:00 (1876)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það skiptir litlu máli hvað hæstv. viðskrh. segir um að niðurgreiðslum á þurrmjólk verði breytt vegna þess að samkvæmt búvörulögunum, gildandi landslögum, getur hæstv. viðskrh. ekki breytt þessu. Það þarf þess vegna annaðhvort samþykki Framleiðsluráðs landbúnaðarins eða ef það fæst ekki, þá þarf hæstv landbrh. að flytja hér lagafrv. til að breyta þessum lögum. Það er því alveg ljóst að hér er komið upp mikið ágreiningsmál, enn eitt innan ríkisstjórnarinnar og stækkar nú safnið klukkustund frá klukkustund.
    Hvað snertir Norðurlöndin, þá er það ekki bara Svíþjóð, heldur fleiri lönd sem eru með margfalt, margfalt meiri aðstoð við neytendasamtök en lagt er til hér í þessu frv. og mér finnst það aumt af hæstv. viðskrh. að vera að reyna að verja það að hann leggur á sig sérstakan krók til þess að taka fáeinar milljónir af Neytendasamtökunum sem ég þó hélt að ættu það inni hjá ríkisstjórninni að reyna að stuðla að lágu vöruverði og hagkvæmni fyrir neytendur í landinu með því að starfsemi þeirra sé efld.