Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 00:29:00 (1881)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykn. vék að rannsóknarmálum sem eru vitaskuld eitt af stærri viðfangsefnum þessa þjóðfélags. Ég hygg að hann hafi komist einhvern veginn þannig að orði að í fjárlagafrv. væri ekki stafkrók að finna um nýjar áherslur í rannsóknum. Hv. þm. hefur greinilega ekki lesið fjárlagafrv. gaumgæfilega því að í því er að finna ákvæði um nýtt, mjög stórt rannsóknarverkefni, eitt stærsta nýja rannsóknarverkefnið sem við höfum tekist á við um langan tíma. Hafrannsóknastofnun er gefið tækifæri á því að ráðast í fjölstofnaverkefni sem hún hefur lengi barist fyrir. Hún fær 65 millj. kr. á næsta ári til nýrra rannsóknarverkefna umfram þau rannsóknarverkefni sem hún hefur unnið að á undanförnum árum. Hér er um að ræða mjög stórt verkefni og er þess vegna rangt að halda

því fram að ekki séu nýjar rannsóknaráherslur í þessu frv.
    Það er alveg ljóst að við núverandi aðstæður þurfa menn að raða verkefnum í forgangsröð. Á sviði vísinda og rannsókna er það, frá mínum bæjardyrum séð, alveg augljóst að rannsóknarverkefni á sviði hafrannsókna hljóta að vera fremst í forgangsröð verkefna í þágu atvinnulífsins í landinu. Í þessu fjárlagafrv. er mælt fyrir um nýtt stórt átak á þessu sviði rannsókna.