Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 02:32:00 (1899)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka undir orð hv. 11. þm. Reykv. eins og hann lýsti þessu tannréttingauppgjörsmáli í lok ræðu sinnar. Búið að tilkynna þeim sjúklingum, sem leita þessarar læknishjálpar eða eiga rétt á að leita læknishjálpar, bæði af heilbrrn. og Tryggingastofnun hvaða endurkröfurétt þetta fólk hefur. Það væri ekki hægt, jafnvel þótt það væri talið skynsamlegt, að rjúfa þau heit. Það er einfaldlega ekki hægt því að fólkið á þessa kröfu hvort sem menn eru viljugir til að standa við yfirlýsingarnar eða ekki. Það er kjarni málsins. Engu breytir hvað ég segi um það mál úr þessum ræðustól. Samkvæmt auglýsingum Tryggingastofnunar og heilbrrn. á fólkið þennan rétt.
    Í annan stað spurði hv. þm. eftir hvaða reglum ég hygðist endurgreiða nú. Sé það rétt, sem mér var tjáð nú síðdegis, að tannréttingalæknar hafi látið af andstöðu sinni tel ég að þeir séu þar með að tilkynna að þeir ætli sér að gangast undir þann samning sem stéttarfélag þeirra hafði gert um endurgreiðslu fyrir tannréttingar og öll þau ákvæði sem í þeim samningi eru. Hann sé því í gildi fyrir þá eins og aðra tannlækna fram til marsloka. Ég hef sagt þeim samningi upp. Honum lýkur eða gildistíma hans lýkur í marslok. Ég get ekki gefið fullnægjandi svar um þetta nú því að ég á eftir að kynna mér betur hvers eðlis afstaða tannréttingalæknanna er. Ef hún er svona eru það náttúrlega ákvæðin í samningnum sem gilda.
    Í annan stað og að lokum, virðulegi forseti, er það rétt að ekki kemur annað fram í svari Tryggingastofnunar ríkisins en það að heimildarbótaþegum hefur ekki fjölgað eins og menn voru að segja að verið gæti og þó að það komi ekki fram í svarinu get ég upplýst það hér að fjárhæð heimildarbótagreiðslna hefur heldur ekki hækkað umfram það sem eðlilegt getur talist þrátt fyrir lyfjareglugerðina.