Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 02:39:00 (1901)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
     Virulegi forseti. Það hefur gerst hér í kvöld að tveir hæstv. ráðherrar núv. ríkisstjórnar hafa gefið yfirlýsingar sem ganga þvert hvor á aðra og þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um að úr því sé skorið hvor hafi þar rétt fyrir sér hefur ekkert fengist upp.
    Það sem gerðist og ég sá út undan mér var að hæstv. forsrh. fór með viðkomandi ráðherra í hliðarherbergi og þeir hafa ekki sést síðan. Ég held að þetta sé fullkomin ástæða til að hér sé rætt um þingsköp og ég held meira að segja, virðulegi forseti, að það hljóti hæstv. forsrh. að skilja. Ég beini því til hæstv. forsrh. að hann geri hreint fyrir dyrum ríkisstjórnarinnar og úr því verði skorið hvor fór með rétt mál varðandi innflutning á mjólkurdufti, hæstv. landbrh. eða hæstv. viðskrh.

    Virðulegi forseti. Ég vil benda á að um er að ræða málefni sem er til umfjöllunar í brtt. meiri hluta fjvn., í lið 105. Það er algjörlega óviðunandi að við höldum þessari umræðu áfram öðruvísi en að hæstv. forsrh. komi annaðhvort með yfirlýsingu sjálfur eða sjái til þess að viðkomandi ráðherrar geri hreint fyrir sínum dyrum.