Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 02:40:00 (1902)

     Elín R. Líndal :
     Virðulegi forseti. Stefnurit hæstv. ríkisstjórnar er kallað hvítbók. Það frv. sem hér er til umræðu sýnir betur en flest annað hvað sú nafngift er fráleit. Nær hefði verið að binda það ritverk í mórautt því að stefnan sem birtist í fjárlagafrv. er líkari Móra aftan úr öldum en nútímanum.
    Það var tíðkanlegt á öldum áður og háttur stórbokka og valdamanna að plaga sem verða mátti alþýðu manna. Ekki verður annað séð en að núverandi stjórnvöld ætli sér svipaða hluti. Kjörorð þeirra, velferð á varanlegum grunni, er líkast til dulnefni fyrir stefnu er kallast velferð og völd til fárra. Á seinni tímum hefur það ekki tíðkast að höggva vegna þess að einhver liggur vel við höggi. Nú eru þeir siðir upp teknir að nýju. Sækja skal t.d. hundruð milljóna í vasa þeirra sem leita þurfa læknishjálpar og nota þurfa lyf. Ein af þeim illu skattheimtum sem á döfinni eru hjá ríkisstjórninni eru þær 500 millj. sem sækja á til barnafólks. Barnabætur og barnabótaauki hafa í raun gegnt hlutverki sínu allvel, því hlutverki að létta nokkuð undir með barnafólki, að ógleymdum skólagjöldum og svo mætti áfram telja. Annars er það svolítið sérkennilegt og broslegt að allar þær auknu álögur sem þessi ríkisstjórn beitir sér fyrir á allan almenning í landinu mega ekki heita skattar heldur sértekjur, þjónustugjöld o.s.frv.
    Eitt af loforðum frá síðustu kosningum var að hækka ekki skatta, helst lækka. Þvílíkur tepruskapur. Allt er þetta gert undir því fororði að öll þjóðin þurfi að taka á til að komast út úr þeim vanda er ríkissjóður á í. Mikið rétt. Það hefur sýnt sig að það þarf ekki að efa að þjóðin er reiðubúin til að vinna sig út úr þessum vanda sem öðrum ef byrðinni er dreift á réttlátan hátt, þeir beri meira sem meira mega sín, og ef haft er samráð og samvinna við hagsmunaaðila við úrlausn þeirra mála sem þá varða og ríkisvaldið stendur við gerða samninga. Það er brot á samningum að dreifa beinum greiðslum til bænda á 12 mánuði í stað 10. Þetta samningsbrot þýðir í raun að bændur fá hátt í 20% af launum ársins 1992 á árinu 1993. Þessi frestun er náttúrlega fádæma ósvífni. Laun hafa haft og eiga að hafa ákveðinn forgang. Það er næsta víst að hvaða stétt sem er teldi slíkt fyrirkomulag óviðunandi þótt bændur séu ýmsu vanir í þeim efnum. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason, formaður fjárln., fór yfir það í gær í sinni ræðu að ekki gæti talist tilætlunarsemi að menn færu að lögum. Þar er ég hjartanlega sammála hv. þm.
    Hér ætla ég aðeins að koma inn á þennan búvörusamning sem var gerður í vor á milli ríkisvaldsins og Stéttarsambands bænda og grípa hér niður í lið 5.2 um greiðslur ríkissjóðs, með leyfi forseta. Þar segir í lið 5.2.1 í 2. mgr.:
    ,,Tilhögun beinna greiðslna skal tryggja framleiðendum áþekka fjármögnun og verið hefur. Fullnaðaruppgjör til framleiðenda fari fram ekki síðar en 15. des. þar sem tekið verði tillit til gæðaflokkunar framleiðslunnar. Beinar greiðslur skulu greiðast mánaðarlega. Greiddar verði fastar mánaðarlegar upphæðir frá 1. mars, í fyrsta sinn 1. mars 1992.``
    Til viðbótar má benda á að í sjálfu sér er refsiákvæði fyrir bændur í þessum sama lið, að ,,heimilt er að skerða eða fella niður beinar greiðslur ef framleiðandi verður uppvís að ólöglegri sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé``. Það er ekkert refsiákvæði fyrir stjórnvöld ef þau standa ekki við sitt. Líklega hafa menn staðið í þeirri barnalegu trú að þau mundu kannski standa við gerðan samning.
    Borin var upp fyrirspurn til hæstv. landbrh. 3. des. 1991. Mig langar til að vitna í hana,

með leyfi forseta. Þar spyr Jón Helgason hæstv. landbrh. hvenær hann ætli að leggja fram ,,frv. með nauðsynlegum lagabreytingum til að ríkisstjórnin geti staðið við búvörusamninginn sem gerður var fyrr á þessu ári við Stéttarsamband bænda. Samkvæmt samningnum eiga bændur að byrja að fá beinar greiðslur úr ríkissjóði í stað niðurgreiðslna á búvöru fljótlega eftir áramót, en engin lagaákvæði eru fyrir hendi um það enn þá. Hæstv. núv. landbrh. hefur þegar samið við bændur um stórfelldan niðurskurð á sauðfé í samræmi við ákvæði samningsins. Þá er spurningin: Er ljóst hvaða afleiðingar það hefði í för með sér fyrir bændur og ríkissjóð ef ekki væri unnt að standa við framhald hans?`` Hæstv. landbrh. svarar á þessa leið:
    ,,Í búvörusamningi eru mörg lögfræðileg álitaefni sem nauðsynlegt var að athuga rækilega og ýmis önnur flókin atriði sem ekki hafði verið hugsað fyrir við gerð búvörusamnings. Þess vegna tók samning frv. lengri tíma en ég hafði ætlað. Það liggur hins vegar fyrir í þeirri gerð sem gengið hefur verið frá því í landbrn. en er til athugunar í ríkisstjórninni. Ég geri mér vonir um að hægt verði að leggja það fram nú fyrir jól, en það á ekki að verða til þess að torvelda að staðið verði við búvörusamninginn vegna þess að unnt er að hefja smíði reglugerðar þegar í stað þegar tími vinnst til.``
    Þessi fyrirspurn er lögð fyrir ráðherra 3. des. 1991 og það vekur athygli að fullyrt er að staðið verði við þennan búvörusamning svo að það er ýmislegt sem hefur gerst á þessu umrædda næturfundi.
    Það er svolítið sérstakt að ekki hefur verið lagt fram frv. til laga með nauðsynlegum lagabreytingum til þess að hægt sé að hefja þessar beinu greiðslur þegar byrjað er að ráðast að þeirri aðgerð.
    Nokkur orð vil ég hafa til viðbótar út af hugleiðingum um þá stöðu sem bændur eru í hvað snertir niðurgreiðslu á ull. Hér var stofnað nýtt ullarfyrirtæki, Ístex, og það getur engan samning gert við umboðsmenn um kaup á ull af bændum af því að það hefur engan samning til að gera. Ekki hefur verið samið við þetta fyrirtæki. Þetta er stór hluti af verðlagsgrundvellinum þannig að það kemur sér til viðbótar ákaflega illa að svona sé að verki staðið.
    Í þessum tillögum til niðurskurðar eru sértækar aðgerðir sem beinast að tveimur framleiðslugreinum sem báðar hafa mátt þola mikla tekjurýrnun vegna skerðingar á kvóta. Þar á ég við sjómenn sem hafa sætt samdrætti í veiðum og bændur sem búa við stöðugt minnkandi framleiðslurétt.
    Það sem stendur upp úr í stefnu hæstv. ríkisstjórnar er að aðgerðir hennar skulu beinast sem harðast að landsbyggðinni og svo auðvitað þeim sem vel liggja við höggi.