Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 03:01:00 (1907)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
     Herra forseti. Það er fullt samkomulag milli mín og bændasamtakanna um að við tökum okkur góðan tíma til þess að undirbúa framkvæmd búvörusamningsins eftir áramót. Í því felst að sjálfsögðu ekki samþykki þeirra við því að þeim greiðslum sé frestað fram yfir áramótin 1992. Ég vil ekki að neinn maður skilji orð mín svo. En það er rétt sem hér var rifjað upp áðan að ýmis atriði í tengslum við búvörusamninginn eru flóknari en virðist í fljótu hasti og það er ástæðan fyrir því að þetta mál hefur dregist.