Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 03:55:00 (1917)


     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) :
     Virðulegi forseti. Það er nú nokkuð liðið á nóttu og þessi umræða hefur auðvitað tekið langan tíma, og ekki að undra því að hér er stórt mál á ferðinni og þó auðvitað enn þá stærra í þeim skilningi að á síðustu stundu, eins og hér er margsinnis búið að ræða, hafa komið fram hugmyndir og tillögur frá hæstv. ríkisstjórn um aðgerðir sem hafa áhrif, ekki bara á fjárlagadæmið heldur auðvitað fjölmarga þætti í þjóðlífinu, í hinum opinbera rekstri. Þess vegna er ekki að undra þó að umræðan taki langan tíma og er þess sé óskað að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir og taki þátt í umræðunni, að þeir veiti svör við þeim spurningum sem beint er til þeirra. Þannig hljótum við stjórnarandstæðingar að verða að reyna að fá upplýsingar um það sem hér er á ferðinni, ekki síst vegna þess að þetta er svo seint fram komið. Þessar hugmyndir eða tillögur koma fram með svo stuttum fyrirvara fyrir þessa umræðu að við stjórnarandstæðingar töldum hana ekki tímabæra, lýstum því yfir í okkar nál. og svo hefur það auðvitað verið að sannast í umræðunni í allan dag. Umræðan var auðvitað ekki tímabær því að hugmyndirnar voru ekki mótaðar. Þær voru svo lítið þróaðar að stjórnarþingmenn ýmsir hafa verið að lýsa andstöðu sinni við þær allt frá upphafi, þessa 2--3 daga sem liðnir eru. Í dag eru hæstv. ráðherrar sjálfir farnir að lýsa því yfir að sennilega verði ekkert úr þessari hugmyndinni og sennilega verði ekkert af hinni hugmyndinni. Sennilega þurfi að leita að einhverjum nýjum leiðum.
    Ég tel mig samt hafa fengið nokkur viðbrögð frá hæstv. ráðherrum við þeim spurningum sem ég setti fram í fyrri ræðu minni í þessari umræðu. Ég vil t.d. þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa setið vel yfir þessari umræðu, fylgst með henni og verið viðstaddur í sal og svarað spurningu minni um málefni lánasjóðsins þó að ég hafi kannski ekki verið fyllilega ánægður með svarið. Mér fannst það segja ákaflega lítið, það eitt að næstu daga vonaðist ráðherrann til þess að geta lagt fram frv. um breytingar á lögum um lánasjóðinn sem gerðu það að verkum að á næsta ári væri hægt að reyna að standa við þær fjárveitingar sem eru í fjárlagafrv. eins og það liggur hér fyrir. Raunar svaraði hæstv. ráðherra engu um hvernig hægt er að glíma við þessar 600 millj. kr. sem stjórnendur sjóðsins telja sig vanta þrátt fyrir þær aðgerðir sem gripið var til á yfirstandandi ári. Þrátt fyrir nýjar tillögur eða hugmyndir, sem væntanlegar eru og stjórn LÍN hefur unnið að og menntmrh. hefur boðað að hann mundi beita sér fyrir, þá segir hér í bréfi Lánasjóðs ísl. námsmanna til hv. fjárln., með leyfi forseta:
    ,,Stjórn LÍN vinnur nú að tillögum um breytingar á úthlutunarreglum námslána og styrkja. Menntmrh. hefur einnig boðað að hann muni beita sér fyrir því að lögum um LÍN verði breytt á yfirstandandi þingi. Í því sambandi verður að minna á og undirstrika að breytingar á úthlutunarreglum, sem taka eiga gildi í upphafi næsta skólaárs, hafa einungis tiltölulega lítil áhrif á fjárþörf sjóðsins á fjárlagaárinu.``
    Ég leyfi mér að endurtaka þetta: ,,Í því sambandi verður að minna á og undirstrika að breytingar á úthlutunarreglum, sem taka eiga gildi í upphafi næsta skólaárs, hafa einungis tiltölulega lítil áhrif á fjárþörf sjóðsins á fjárlagaárinu.`` Af þessu bréfi má ráða að stjórnin telur nauðsynlegt að fá þessar 600 millj. kr. til þess að geta rekið starfsemina í líkingu við það sem a.m.k. lánþegar hafa gert sér vonir um og ráðherra reyndar, ef ég skildi hann rétt, lýsti yfir í lok sinnar ræðu að hann vonaðist til þess að þetta mundi ekki þurfa að koma harkalega niður á þörfum námsmanna, þ.e. þessar hugmyndir sem hann er þó að setja fram.

    En nóg um það. Hæstv. félmrh. sagði í ræðu sinni í dag, reyndar er búið að rekja það áður og ætla ég því ekki að eyða löngum tíma í það, en vil árétta að hæstv. félmrh. sagði að engar brtt. til lækkunar málefna fatlaðra hefðu verið lagðar fram við 2. umr. fjárlaga. Þetta er því miður rangt, ef rétt er að segja því miður, því það hafa auðvitað verið lagðar fram brtt. sem verulega draga úr, skera niður þessa þjónustu og mig undrar það ef hæstv. félmrh. hefur ekki haft hugmynd um eða vitað hvað þarna var á ferðinni. Ég vona sannarlega að einhverjar þær hugmyndir sem hæstv. ríkisstjórn hefur um aðhald og sparnað í ríkisútgjöldum nái fram að ganga. Hins vegar er mjög hastarlegt ef það bitnar á þjónustunni á þann hátt að hreinlega verði að skera hana niður, draga úr henni með því að loka stofnunum eða með því að fækka vistfólki á stofnunum fyrir fatlaða og í sambýlum eins og hætt er við að gerist, ef þetta verður sem hér er boðað án þess að það komi fram einhverjar nýjar hugmyndir um það hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst standa að því að ná þessum markmiðum. Ég ætla að koma aðeins nánar að þessu síðar, virðulegi forseti, en ég vil árétta þetta. Ef hæstv. félmrh. hefur ekki áttað sig á því hvað hér er á ferðinni þá er það auðvitað hin almenna, flata niðurskurðarregla á launum um 6,7% sem er ekki lítil tala, 2 milljarðar 255 millj. kr., sem á að sparast á launalið fjárlaganna. Í þeim hugmyndum sem fjmrn. hefur látið frá sér fara er m.a. sagt að allar nýráðningar verði stöðvaðar og nauðsynleg störf mönnuð með tilfærslu innan kerfisins. Ég ætla að láta þetta duga um málið en vil árétta að það er ljóst að verið er að leggja til róttækar breytingar.
    Hæstv. heilbrrh. svaraði nokkrum spurningum áðan. Ég hefði gjarnan viljað að heilbrrh. væri hér viðstaddur. Ég ætla ekki að bæta við spurningum til hans, hann þarf ekki endilega að koma þess vegna upp aftur. Ég vil þakka honum fyrir hans mál áðan. Ég sé að hæstv. ráðherra kemur hér í dyrnar og ég ætla að segja við hann að ég þakka honum fyrir þau svör sem hann gaf áðan og ég ætla ekki að óska eftir því að hann komi í ræðustól mín vegna í þessari umræðu. Mig langar þó til þess að gera athugasemdir við það sem hann sagði áðan um lyfjamálin í fyrsta lagi. Tímans vegna ætla ég ekki að fara í langan talnaleik eða rekja það sem hér hefur verið sagt og hann rakti ítarlega í sínum svörum. Ég vil þó segja að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég þykist hafa undir höndum er áætlaður árssparnaður af þeim aðgerðum sem fyrrv. ríkisstjórn var búin að grípa til í lyfjamálunum a.m.k 300 millj. kr. á ári, sem hæstv. ráðherra nefndi að væru ekki nema rétt um 200 millj., sagði reyndar rösklega 200 millj. kr. Þetta skiptir ekki öllu máli en hitt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra var að í maímánuði sl. þegar ný ríkisstjórn tók við hafi verið útlit fyrir að lyfjaútgjöldin yrðu um 3 milljarðar kr. á árinu eða a.m.k. 2,9 og 1. júní hafi verið búið að greiða 1 1 / 2 milljarð. (Gripið fram í.) 1. júlí. Það munar að vísu nokkru og hugsanlegt er að ég hafi tekið skakkt eftir eða skrifað rangt niður. Ég hafði skrifað að 1. júní hafi verið búið að greiða 1 1 / 2 milljarð og í októberlok 1.850 millj. sem þýðir að aðeins 350 millj. hafi verið greiddar í júlí, ágúst, september og október, 87 millj. kr. á mánuði. Samkvæmt þessum upplýsingum ráðherra hef ég annaðhvort misheyrt eða misskilið hann eða honum orðið á mismæli varðandi þessa dagsetningu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég var með fyrir framan mig þá var búið að greiða frá Tryggingastofnuninni á tímabilinu frá 1. jan. til 31. júlí 1.463 millj. kr., sem er nokkurn veginn sama tala og hæstv. ráðherra nefndi, eða 209 millj. kr. á mánuði.
    Í ágústmánuði bætast við þessa tölu 144 millj., í septembermánuði bætast við 157 millj., í októbermánuði 171 millj. og í nóvembermánuði er mér sagt, samkvæmt upplýsingum úr heilbrrn., þó kann að vera að ekki sé alveg um endanlega tölu að ræða, að útgjöldin hafi verið rétt um 200 millj. kr. Í nóvember eru útgjöldin því búin að ná aftur sömu meðaltölu eins og fyrstu sjö mánuði ársins.
    Þetta vil ég láta koma fram vegna þess að mér fannst a.m.k. eins og ég hafði skráð að

nokkru munaði en samkvæmt þessu er ljóst að útgjöldin eru að nálgast það sem var áður. Vonandi tekst hæstv. ráðherra að standa við þau fyrirheit sem gefin eru um enn frekari lækkun á lyfjaútgjöldunum og ég vonast til þess fyrst og fremst að það gerist með kerfisbreytingum. Hann boðaði það að nýjar hugmyndir væru komnar fram, m.a. tillögur frá apótekurum sjálfum og það er vel. Ég hef haldið því fram að nauðsynlegt væri að grípa til slíkra skipulags- eða kerfisbreytinga fremur en þeirrar aðferðar sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn greip til, þ.e. að hækka fyrst og fremst greiðslur einstaklinganna og ná kostnaðinum niður með því móti. Ég vil óska ráðherra til hamingju með að hafa leyst deiluna eða að deilunni við tannréttingalæknana skuli vera lokið ef svo er. Þar voru mál komin í virkilega erfiða stöðu eins og hefur komið fram í umræðum áður. Mig langar að spyrja ráðherrann í framhaldi af því. Hann þarf ekki að svara því nú, eins og ég sagði áðan, vegna þess að það kemur auðvitað upp aftur í sambandi við umræður um bandorminn svokallaða eða frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar koma fram hugmyndir hæstv. ráðherra um breytingar á lögum um almannatryggingar, hvernig eigi að standa að greiðslum fyrir tannlækningar og tannréttingar, hvort sú niðurstaða að þessi deila skuli vera leyst muni hafa áhrif á þær hugmyndir sem þar voru settar fram.
    Ég lýsti því yfir í umræðu um það frv. að ég teldi að 15. gr. í því frv. væri nokkuð þröng og takmörkuð og vil láta þá skoðun mína koma hér aftur í ljós að ég tel að endurskoða þurfi þær hugmyndir sem þar voru settar fram og e.t.v. í nýju ljósi í sambandi við lausn þessarar deilu.
    Að lokum langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann svaraði því ekki hér --- reyndar var hann ekki heldur við umræðuna í gær þegar ég ætlaði að beina til hans spurningum um skipulagsbreytingar á sjúkrahúsunum í Reykjavík. Þá vitnaði ég til skýrslu sem erlendir sérfræðingar hafa unnið fyrir ríkisspítalana. Þar eru lagðar til allt aðrar aðferðir við þessar skipulagsbreytingar heldur en þær sem hæstv. ráherra hefur boðað. Ég bað um álit hans á þessari skýrslu og hvort það væri ekki bæði eðlilegt og sjálfsagt að draga þær fyrirhuguðu breytingar sem eru á borði ráðherra og skoða niðurstöður þessarar skýrslu betur. Þau mál eiga auðvitað einnig eftir að koma aftur upp í 3. umr. og þá gefst á ný tóm til að ræða það mál frekar við hæstv. ráðherra.
    Þá langar mig, virðulegi forseti, að fara nokkrum orðum um ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssonar, sem hann flutti í dag. Mér þykir reyndar leitt að hv. þm. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu. Hann er varaformaður fjárln. en ég ætla ekki að gera kröfu til þess að hann verði ræstur seint á nóttu til þess að koma hér og hlýða á þessa umræðu. Ég lýsi hins vegar yfir undrun minni með það að hann skuli ekki vera hér og hlýða á umræðuna alla, ekki síst eftir það sem hann sagði í dag. Hann eyddi æði löngum tíma af ræðu sinni í að gagnrýna það sem ég setti fram í gær, notaði reyndar mestallan sinn ræðutíma til þess að gera lítið úr máli manna. Hann hefði gjarnan þurft a.m.k. að hlusta á nokkrar athugasemdir við þeirri ræðu af minni hálfu. Ég vona að hann virði það við mig þó að ég láti þær athugasemdir koma fram núna að honum fjarstöddum ef ég hlífi honum við því að láta vekja hann til að koma hingað og hlusta á þær. Hann talaði m.a. um það í ræðu sinni, sem hann eyddi einkum á þann sem hér stendur, að ég hefði haldið mikla maraþonræðu í gær. Meira að segja hef ég heyrt í þingsölum að það sé undarlegt ef ég er orðinn aðalmálþófsmaðurinn hér á þingi. Ég hef ekki lagt það fyrir mig að jafnaði. En hv. þm. Pálmi Jónsson talaði í rúma klukkustund, klukkustund og 4 eða 5 mínútur samkvæmt tímaskráningu hæstv. forseta. Sá sem hér stendur talaði hins vegar frá kl. 15.23 til kl. 16.54 eða í eina klukkustund 31 mínútu. Það var nú maraþonræðan. Það var meira að segja samdægurs hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Samtals rúmur klukkutími. Hann talaði í dag í 50 mínútur, hann talaði í gær í rúmar 10, svo að öllu sé til skila haldið. Ég á líklega nokkurn tíma inni hjá hv. þm. og hæstv. fjmrh. að tala dálítið yfir þingheimi. ( Gripið fram í: Láttu það nú ekki bitna á okkur.) Ég ætla ekki að gera það. Ég ætla að reyna að vera ekki mjög langorður að þessu sinni, hæstv. fjmrh. Það sem kom fram m.a. í ræðu hv. þm. var að honum fannst við stjórnarandstæðingar ekki gera nóg af því að hæla hæstv. ríkisstjórn og þótti mér mjög undarlegt að hann skyldi helst eiga von á því frá okkur. Þeir hafa ekki gert mikið af því stjórnarliðarnir, að koma í ræðustól og hæla hæstv. ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Hann átti von á því að það kæmi héðan. A.m.k. var það alveg auðheyrt á ræðu hans og hann fann sér það til huggunar og málsbóta að hv. 4. þm. Suðurl., sem þó hefði deilt fast á ýmsa þætti ríkisfjármálanna í meðförum hæstv. ríkisstjórnar, hefði samt látið einhver viðurkenningarorð falla eða það hefði gætt viðurkenningar í orðum hv. þm. Hv. 4. þm. Suðurl. hefði jafnframt lýst þeirri skoðun sinni að lengri tíma þyrfti en gert væri ráð fyrir í þessum tillögum, sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram, til róttækra skipulagsbreytinga. Slík sjónarmið væri auðvitað sjálfsagt að virða en þó ekki meira en hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að gera. Þessi tími sem hún ætlar sér að nota núna eru tveir eða þrír dagar milli 2. og 3. umr. til þess að knýja þessar hugmyndir sínar fram. En viðurkenningarorð voru þó nokkur í þessu að mati hv. þm. Hann taldi hins vegar að ræða þess sem hér stendur hafi verið með nokkuð öðrum hætti. Hún hefði mestmegnis verið gagnrýni og nánast ekkert nema gagnrýni. Þá verð ég að segja það aftur að ég veit ekki hvort hv. þm. gat dottið í hug að ég færi að eyða mínum ræðutíma í það að hæla sérstaklega hæstv. ríkisstjórn og hennar vinnubrögðum. Ég hlaut fyrst og fremst að nota minn tíma hér til að láta koma fram það sem ég tel gagnrýnisvert og það sem ég tel ámælisvert og það sem ég tel að sé ekki rétt í þessum vinnubrögðum og í þessum tillögum sem fyrir liggja.
    Ég lét þau orð falla í sambandi við umræðurnar um bandorminn, svo að ég vitni til þess aftur, að þar væru nokkur atriði sem ég gæti stutt og reyndar lýsti ég stuðningi mínum við í þeirri umræðu. Auðvitað er það svo að eitthvað af þeim tillögum sem hér liggja fyrir kunna að verða samþykktar af stjórnarandstæðingum. Ég ætla ekki að lýsa því yfir hér og nú að það komi ekki til greina. Við eigum auðvitað eftir að fjalla um þetta mál í 3. umr. Sjálfsagt getur ýmislegt skýrst á þeim tíma eins og reyndar hefur verið að gerast hér í dag. Þrátt fyrir allt hefur ýmislegt verið að skýrast í dag.
    Hv. þm. gerði það líka að umræðuefni að ég hefði sagt eitthvað í þá veru að aðhaldi væri ekki mótmælt og taldi þetta einkennilegt orðalag að ég skyldi ekki frekar lýsa stuðningi við aðhaldið. Vissulega má vera rétt hjá hv. þm. að ég hafi ekki notað þarna alveg rétt orðalag. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherrar og hv. þm. væni mig ekki um það að vera á móti því að aðhaldi sé beitt þó að ég hafi e.t.v. ekki hagað orðum mínum þarna eins og æskilegast hefði verið. Ég get þá gert það hér og nú að lýsa stuðningi við allar skynsamlegar aðgerðir og aðferðir til þess að gæta aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstrinum. Ég tel mig reyndar sjálfan hafa reynt að sýna það og hafa haft nokkra tilburði til þess á meðan ég var í ráðherrastóli. Þetta finnst mér nær því að vera orðhengilsháttur hjá hv. þm. að gera mál úr svona hlutum.
    En áfram hélt hv. þm. og sagði að ég hefði einkum talað um að ekki væru farnar réttar leiðir og við stjórnarandstæðingar og/eða framsóknarmenn, sem ég var að tala fyrir líka þó að ég mælti auðvitað fyrir munn stjórnarandstæðinga í fjárln. og mælti fyrir nál. stjórnarandstöðunnar, hefðum viljað fara aðrar leiðir. Ég hefði ekki bent á neitt annað í ræðu minni en eina tillögu, þ.e. skatta á fjármagnstekjur. Reyndar var það ekki alveg rétt hjá hv. þm. Ég nefndi fleira og ég rakti líka það sem hafði verið á döfinni varðandi kerfis- og skipulagsbreytingar í þeim málaflokki sem ég fór með. Ég hafði lagt til nýtt frv. um almannatryggingar sem átti að spara allnokkra fjármuni. Ég hafði lagt til og lagt fram í þinginu nýtt frv. um lyfjamál. En svo vill til að það voru einmitt þingmenn Alþfl. sem stöðvuðu bæði þessi mál, voru á móti þeim og stöðvuðu þau. Ég hafði líka verið með bæði í ráðuneyti og í þingi breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu og skipulagsbreytingar varðandi rekstur sjúkrahúsa í Reykjavík. Þar gætti nú tregðunnar og andstöðunnar kannski fyrst og fremst í flokki hv. þm., þ.e. hjá Reykjavíkuríhaldinu, sem reyndi að beita sér fyrir hugmyndum um breytingar þar.
    Ég nefndi vissulega skattinn á fjármagnstekjur. Ég nefndi líka að það mætti hugsa sér að endurskoða það sjónarmið hvort ekki bæri að taka upp hátekjuskatt eða tvö skattþrep þegar við horfum fram á það að launamunurinn í landinu er orðinn eins og raun ber vitni. Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið að það mundi auðvitað bæta við skattálögurnar sem er auðvitað rétt. Ég sagði það líka í minni ræðu að ég teldi að þeir ættu að bera skattana sem hefðu til þess tekjur. En hæstv. ríkisstjórn hefur valið aðra aðferð við skattálagninguna. Hún hefur valið þá aðferð að láta þá sem eru að ganga í skóla eða þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, og þá trúlega einkum og eingöngu þá sem sjúkir eru, bera skattana. Það er ekki svo að engar skattahækkanir séu hjá hæstv. ríkisstjórn. Auðvitað er fullt af þeim og mest ber á þessum svokölluðu þjónustugjöldum sem eru auðvitað feluskattar.
    Þá fann hv. þm. mjög að því að ég hefði talað um að eitthvað sem meiri hluti fjárln. hefði verið að aðhafast og lagt til hér í sínum brtt. væri ámælisvert og kannski öllu frekar ámælisvert það sem þeir gerðu ekki, þ.e. að verða ekki að einhverju leyti við óskum um aukin útgjöld. Ég tel reyndar, taldi í gær og taldi í vinnu fjárln. og tel enn að það hefði verið nauðsynlegt í sumum tilfellum að skoða þær óskir sem bárust nefndinni í tveggja mánaða viðtölum samtals við fulltrúa ýmissa opinberra stofnana og félagasamtaka. Ég tel að það hefði verið nauðsynlegt að skoða vissa þætti og það væri ámælisvert að hafa rutt því út af borðinu án athugunar og segja bara núll, núll. Það voru afgreiðslur og tillögur meiri hlutans í flestum tilvikum. Það sem ég tel ámælisvert, og ég gat reyndar sérstaklega um í gær, eru þeir þættir sem varða öryggismál. Ég nefndi í því sambandi bæði meðferðina á lögreglustjóranum í Reykjavík og Landhelgisgæslunni, ekki síst eftir umræður um störf og hlutverk Landhelgisgæslunnar á undanförnum vikum hér í hv. þingi. Ég ætla að bæta við einni stofnun enn í þessu sambandi. Það er lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli sem fær þá meðferð í fjárlagafrv. að starfsemi hans, eða stofnunar hans er skorin niður a.m.k. um helming. Ég hef ekki tölurnar fyrir framan mig, virðulegi forseti, eins og er, en ég þykist muna rétt að það sé um helmingur og þá þarf auðvitað að gerbreyta rekstri þeirrar stofnunar. Ég er ekki að fortaka það og fullyrða að ekki sé hægt og ekki þurfi að gera þar skipulagsbreytingar eins og víðar. Menn þurfa þá að átta sig á því hvað þeir ætla að gera og hvaða afleiðingar það muni hafa. Ef menn ætla að leggja niður tollgæsluna, þá er það sjónarmið út af fyrir sig. En ekki virtist það vera nákvæmlega ljóst á fundi fjárln. þegar fulltrúar utanrrn., því að það vill svo til að þessi stofnun heyrir undir utanrrn., og fulltrúar lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli komu til fundar við nefndina. Þar voru í raun engar tillögur og ráðuneytið hafði ekki sett fram neinar skýrar hugmyndir um hvað þar ætti að gera.
    Þessar þrjár stofnanir vil ég nefna sérstaklega sem dæmi um það sem ég taldi að væri ámælisvert. Ég get auðvitað nefnt fleiri, ætla þó ekki að nefna nema eina til viðbótar, Hjúkrunarheimili Sjálfsbjargar hér í Reykjavík. Sjálfsbjörg hefur lagt fyrir nefndina óskir um verulegar fjárhæðir í viðbót við það sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Svar nefndarinnar er auðvitað einfalt eins og við öðru. Tillaga meiri hlutans er núll. Hvað skyldi það nú vera sem þeir Sjálfsbjargarmenn eða forsvarsmenn þessara samtaka eru að biðja um? Þeir hafa óskað eftir því að þar yrði fjölgað stöðugildum um 8, úr tæplega 100 sem þau eru nú. Þeir höfðu reyndar óskað eftir því í upphafi að fjölgað yrði um 17 stöðugildi. Þeir hafa

skorið sínar óskir niður í 8 stöðugildi til þess að draga úr þessum beiðnum og telja mjög nauðsynlegt eða brýnt að fá einhverja úrlausn. En svar ríkisstjórnarinnar er að skera þennan launalið niður um 6,7% sem þýðir auðvitað að stöðugildum fækkar um 6--7 á þessari stofnun sem þjónar fötluðum einstaklingum sem eru ósjálfbjarga, þurfa mikla aðhlynningu sumir hverjir og þurfa næturvörslu. Þetta er þungt heimili í þeim skilningi að sú þjónusta sem þar er veitt er vandasöm og þarf að vera stöðug allan sólarhringinn.
    Annar liður í umsókn Sjálfsbjargar var að bæta örlitlum fjármunum við viðhaldsupphæðina. Ég ætla að segja frá því að nýlega varð tjón í vatnsveðri á húsinu. Þar lekur þak og sá þakleki hafði þau áhrif að brunavarnarkerfi skemmdist og er að hluta til óvirkt. Það er óvirkt enn í dag og verður það meðan þeir fá ekki fjármuni til að gera við það, meðan þeir fá ekki fjármuni til þess að sjá um sómasamlegt viðhald á þessu húsi. Öryggismálin eru þar líka í ólestri. Svona hluti á ég við þegar ég tala um að vinnubrögð meiri hlutans í hv. nefnd séu ámælisverð.
    Síðan talaði þingmaðurinn um að ég hefði lagt til að taka hluta af fjárfestingarliðum inn á 6. gr. fjárlagafrv. til þess að fela þá í útkomu fjárlaganna þannig að hægt væri að greiða þá eftir öðrum leiðum og þeir sæjust þá ekki í útgjaldahliðinni undir fjárfestingarliðnum. Ég verð því miður að segja um þessi ummæli hv. þm., þótt að hann sé fjarstaddur, að þetta er alrangt. Það mun ég auðvitað ræða við hann á fundum sem við eigum væntanlega eftir að sitja saman í fjárln. Ég tók það sérstaklega fram að auðvitað ættu fjárfestingarliðir að vera inni í frv. sjálfu. Ég bendi hins vegar á að í ár hefðu fjárfestingar við heilsugæsluna í Reykjavík verið inni á 6. gr. af því að þar var um að ræða hugmyndir um húsnæðiskaup og heimildir til að fjárfesta í húsnæði. Það hefur verið algengt á undanförnum árum að hafa heimildir til slíkra húsakaupa inni á 6. gr. Nú stendur hins vegar fyrir dyrum að innrétta þetta húsnæði fyrir heilsugæslustöð í Mjódd í Breiðholti. Þá er sjálfsagt og eðlilegt að sú fjárfesting komi inn í fjárlagafrv. af gjaldalið sem til þess er ætlaður. Það tók ég reyndar fram þannig að þessi ummæli hv. þm. eru röng.
    Ég var hins vegar að benda á að það að taka 50 millj. kr. af þessum lið í fjárfestinguna í höfuðborginni þýddi að óbreytt krónutala á þessum fjárlagalið fæli í sér að minna væri til fjárfestingar í þeim viðfangsefnum sem í gangi hefðu verið á seinustu árum. Það voru mín ummæli í gær, virðulegi forseti.
    Ég fer að ljúka þessum tilvitnunum í ræðu hv. þm. Mér finnst leiðinlegt að þurfa að gera það að honum fjarstöddum en ég gat þó ekki látið hjá líða að gera við hana athugasemdir. Tvö eða þrjú atriði eru eftir enn, eins og það að mér hafi orðið tíðrætt um nauðvörn einhvers tiltekins ráðherra í tilteknum málaflokki. Það sem ég sagði um nauðvörn í minni ræðu í gær var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Nú er í nauðvörn og úrræðaleysi síðustu daga fjárlagaafgreiðslunnar, gripið til þeirrar leiðar, segja má á elleftu stundu, að fara leið hins flata niðurskurðar.``
    Auðvitað er öll ríkisstjórnin komin í þessa nauðvörn, komin í þá nauðvörn að grípa til aðgerða sem t.d. hæstv. heilbrrh. lýsti yfir fyrir örfáum dögum síðan að væru óframkvæmanlegar. Ég las þetta upp tvisvar í gær og ég held að ég verði að gera það einu sinni enn. Þetta er ekki löng málsgrein en hún er samt dálítið merkileg fyrir þeirra hluta sakir að þarna er hæstv. heilbrrh. að dæma þau vinnubrögð sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú gripið til. Þetta var í umræðum utan dagskrár um málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði 15. okt. sl. og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hæstv. fyrrv. heilbrrh. gerði ítrekaðar tilraunir í þessum efnum, m.a. með því að leggja til svokallaðan flatan niðurskurð til sjúkrahúsa víðs vegar um land. Þá risu menn upp til harkalegrar gagnrýni, stjórnendur sjúkrahúsa, og sögðu við hæstv. fyrrv. heilbrrh. að slíkar tillögur væru ástæðulausar, slíkar tillögur væri ekki hægt að framkvæma. Menn yrðu að

manna sig upp í það að hafa kjark til að benda á tiltekin viðfangsefni sem yrði að breyta. Það erum við nú að gera,`` sagði síðan hæstv. heilbrrh.
    Þess vegna kallaði ég það nauðvörn í ræðu minni í gær að nú ætlar hæstv. ríkisstjórn, þar með talinn þessi hæstv. ráðherra, þó að ég væri ekkert sérstaklega að vitna til hans eða vandamála hans sem ég veit að verða svo mikil í sambandi við þetta verkefni sem liggur fyrir honum núna, að grípa til þessara aðgerða. Hann sagði það reyndar í gær sjálfur, greip fram í fyrir mér þegar ég las þetta fyrir hann að hann kviði fyrir því verkefni. Það skil ég vel.
    Ég sagði líka í ræðu minni í gær að áður hefði verið gripið til svona aðgerða. Við hefðum gert það árið 1989, sú ríkisstjórn sem þá sat. Ég sagði einnig að áður hefði verið gripið til svona aðferða og þær hefðu ekki alltaf gefist vel, stundum mistekist. Það kannski má segja að aðgerðin 1989 hafi ekki algerlega mistekist. Hún skilaði þó nokkru þótt hún skilaði ekki öllu sem að var stefnt. Nokkuð var öðruvísi að henni staðið en nú vegna þess að það var gert ráð fyrir þessu við fjárlagagerðina sjálfa. Við gerðum ráð fyrir því þegar fjárlagafrv. var sett saman haustið 1989 og það er gerð grein fyrir því í greinargerð frv. þannig að það kom engum á óvart. Allir vissu hvað til stóð. Stjórnendur stofnananna vissu að þetta var í farvatninu og ég tók þetta mál alvarlega og lagði mig fram um að reyna að ná fram þessum sparnaði. Ég hélt marga fundi með stjórnendum stofnana. Ég boðaði stjórnendur allra heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa á landinu til fundar eða ráðstefnu um þessi mál til að gera þeim grein fyrir því hvað stæði í þessu fjárlagafrv. og hvernig fjárlögin væru upp byggð. Ég ætla ekki að liggja undir því, eins og hv. þm. gat um hér í ræðu sinni, að ræða mín hafi verið nauðvörn fyrir úrræðaleysi og kjarkleysi.
    Að lokum, virðulegi forseti, nefndi hv. þm. það í ræðu sinni að starfsmönnum ríkisins hefði fjölgað óvenjulega mikið síðustu þrjú ár, á starfstíma síðustu ríkisstjórnar, um 1100--1200 manns. Annaðhvort nefndi hann ekki eða mundi ekki að á þessum tíma átti sér stað vel undirbúin verkaskipting á milli ríkis og sveitarfélaga sem varð samkomulag um. Það var ekki ákvörðun sem var gripið til á einni nóttu og hent framan í sveitarfélögin í landinu heldur var unnið að því lengi. Niðurstaðan varð m.a. sú að ríkið tæki yfir rekstur allrar heilbrigðisþjónustunnar í landinu, líka þau verkefni sem sveitarfélögin höfðu haft áður. Við þetta fluttust frá sveitarfélögunum yfir til ríkisins um 500 starfsmenn, við þessa aðgerð eina.
    Þá ætla ég að láta þessu lokið, virðulegi forseti, og þar með styttist ræða mín, orðin heldur lengri en ég ætlaði í upphafi. Ég vil endurtaka það sem ég sagði í upphafi hennar að umræðan í gær og í dag hefur sýnt og sannað það, sem við sögðum í okkar nefndaráliti, að hún væri ekki tímabær. Hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðið hefði þurft að vinna heimavinnuna sína betur og koma síðan með tillögur sem a.m.k. hún væri sammála um. Það sýnir sig náttúrlega í dag að hún er það ekki og stjórnarliðarnir eru það ekki. Þeir standa ekki sumir hverjir að þeim hugmyndum og tillögum sem settar eru fram og boðaðar eru. Meðan svo er er auðvitað hastarlegt að þurfa að eyða miklum tíma í þetta mál. Við skulum hins vegar gefa okkur þann tíma sem þarf eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm. fyrr í kvöld eða nótt. Hæstv. ríkisstjórn verður að vinna betur sitt verk, senda það síðan til umfjöllunar í fjárln. þannig að við fáum tíma til að vinna það þar. Við stjórnarandstæðingar fórum fram á það að fá nokkra aðila til viðtals og viðræðu í nefndinni um þessar hugmyndir sem boðaðar voru. Því var hafnað, sem eru mjög óvenjuleg vinnubrögð í nefndarstörfum þingsins, að hafna því að fá menn til viðtals. Ég vænti þess að við getum notað þann tíma sem líður til 3. umr. til þess að fá betri upplýsingar um það sem hér er á döfinni, svo ég tali ekki um upplýsingar um það sem hæstv. ráðherrar, t.d. hæstv. félmrh., eru að boða í dag, að það verði alls ekki gripið til þeirra hugmynda sem búið er að

segja okkur frá heldur einhverra allt annarra.