Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 04:55:00 (1926)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Þegar gengið var til samkomulags um það í nótt að ljúka þessari umræðu með eðlilegum hætti og stjórnarandstaðan féllst á að greiða fyrir þeim lokum og ýmsir þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku sig út af mælendaskrá þá var það gert í trausti þess að hæstv. ráðherrar svöruðu þeim spurningum sem beint hafði verið til þeirra og það er ítrekað hér í ræðustólnum búið að óska eftir því. Það er eingöngu hæstv. forsrh. sem hefur orðið við þeim óskum. Hæstv. félmrh. hefur ekki orðið við þeim óskum þrátt fyrir að þingmenn hafi beðið hér til klukkan fimm um morguninn eftir að fá að heyra svör hæstv. félmrh. við þeim spurningum sem til hennar hefur verið beint í þessari umræðu. Ég trúi því ekki að hæstv. ríkisstjórn, hæstv. félmrh., formenn þingflokka stjórnarflokkanna, ætli að láta þessari umræðu lokið með þeim hætti að hæstv. félmrh. svari engu af því sem til hennar hefur verið beint. Hæstv. samgrh. stendur hér í dyrunum og til hans var beint mjög alvarlegum spurningum og athugasemdum um samningsrof og hvernig hæstv. samgrh. ætli að bregðast við hugsanlegum málaferlum vegna þeirra ákvarðana sem ríkisstjórnin tilkynnti eftir sinn næturfund. Hæstv. samgrh. hefur ekki svarað því neinu. Ég skil satt að segja ekki hvers vegna þessir tveir ráðherrar og einnig hæstv. sjútvrh. sem hér situr enn hafa ekki treyst sér að taka hér til máls og segja eitt einasta orð. Til hæstv. sjútvrh. hefur verið beint spurningu um aukna skatta til sjávarútvegsins í þessu fjárlagafrv. og fylgifrv. þess sem nema, eftir samantekt hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, hátt í annan milljarð. Það hefur verið óskað eftir því ítrekað að hæstv. sjútvrh. mundi tjá sig um þetta. Ég tel að fordæmin í umræðunni frá hæstv. forsrh., hæstv. menntmrh. og hæstv. heilbrrh. hafi verið á þann veg að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi sýnt það að þeir kunna að meta þau svör og það greiddi fyrir lokum umræðunnar. En við sættum okkur ekki við að þessari umræðu ljúki og ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin voru um að þeir ráðherrar sem hefðu fengið spurningar hér í umræðunni svöruðu þeim að einhverju leyti eða a.m.k. gerðu tilraun til þess.
    Þess vegna enn á ný, virðulegi forseti, fer ég fram á það hér að þessir þrír ráðherrar sem enn hafa ekki virt þingið þess að svara geri það svo við getum öll farið heim í trausti þess að við það samkomulag, sem gert var, hafi verið staðið.