Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 05:01:00 (1929)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Nei, það er rétt sem hér var kallað frammí áður en ég hóf ræðu mína, að það hefur enginn beint fyrirspurnum til mín. Ég gerði reyndar við 1. umr. málsins glögga grein fyrir því frv. sem hér er til umræðu og ég hef einnig, sem ég tel skylt að láta koma hér fram, gert fjárln. mjög ítarlega grein fyrir því hvað gerðist á næturfundi ríkisstjórnarinnar, skýrt hv. fjárln. mjög rækilega í öllum atriðum hvernig málin stóðu eftir þann fund, þannig að ég taldi mig hafa gert þá skyldu mína að koma mjög greinilega til skila þeim upplýsingum sem mér bar strax sl. mánudag til að greiða fyrir því að þessi umræða gæti farið fram í dag.
    Það eru kannski tvö atriði sem mér finnst ástæða til að taka fram. Hið fyrra er um hinn flata niðurskurð svokallaða. Ég er sammála þeim sem hér hafa talað að þetta er vandmeðfarið mál en alls ekki óyfirstíganlegt. Ég er sammála því jafnframt að það þarf að setja reglur um það hvernig endurdreifing fjármunanna verður og mér finnst ekki óeðlilegt að þær verði bundnar við þá útgjaldaliði í fjárlögum sem af er tekið, þ.e. liðina Laun og Önnur rekstrargjöld, en þessir liðir í fjárlagafrv. eru tæpur helmingur útgjalda frv.
    Það er rétt sem komið hefur fram í þessari umræðu að hugsanlega þarf að draga úr þjónustu að einhverju leyti og kem ég þá að hinu efnisatriðinu sem ég kýs að nefna hér, því flest önnur atriði sem snerta fjárlagafrv. er hægt að ræða síðar, bæði í 3. umr. og eins er hægt að ræða þau þegar kemur að tekjufrumvörpunum sem verða á dagskrá næst, þ.e. síðar í dag.
    Seinna atriðið sem mig langar til að ræða í örstuttu máli eru svokallaðar notendagreiðslur, sem sumir hv. þm., aðallega þó 1. þm. Norðurl. e., kalla feluskatta. Ég tel nauðsynlegt að rifja það upp að teknamegin í frv. eru ýmis útgjöld sem lækka tekjur. Þar á meðal ýmsar bótagreiðslur, endurgreiðslur og afslættir í sköttum, en gjaldamegin eru einnig

tekjur, ýmsar sértekjur og þjónustugjöld sem lækka gjöld, þannig að menn mega ekki halda því fram að tekjur gjaldamegin séu feluskattar nema þá í sama orðinu að viðurkenna að bætur teknamegin og endurgreiðslur séu á sama hátt gjöld og vissulega væri hægt að færa fjárlögin upp með þeim hætti. Það hefur hins vegar ekki verið gert.
    Það sem mig langaði til að segja varðandi notendagreiðslurnar er að í þessari bók sem ég hef á milli handanna og gefin var út af fjmrn. snemma á þessu ári að tilhlutan forvera míns, hv. 8. þm. Reykn., er fjallað um norræna velferðarsamfélagið á aðhaldstímum. Norrænu velferðarsamfélögin hafa reyndar gengið í gegnum ýmsa erfiðleika að undanförnu ekkert ósvipuðum þeim sem við eigum við að stríða. Þau hafa gripið til ýmissa aðgerða í opinberum fjármálum og hv. 8. þm. Reykn. brá á það ráð að láta gefa þessa bók út og hélt reyndar ágæta ráðstefnu í Borgartúni 6 um það sem kemur fram í þessari bók og hlotnaðist mér sá heiður á sínum tíma að vera einn af ræðumönnum á þessari ágætu ráðstefnu. Meginboðskapurinn í þessari bók er að fara þá leið sem víðast hefur verið farin, þ.e. að reyna að koma markaðskerfinu sem mest fyrir í hinni opinberru þjónustu. Víða í þessari bók, ég ætla nú ekki að tíunda það allt saman, þar á meðal í formála ráðuneytisstjórans og síðar í mörgum köflum, er fjallað um nauðsyn þess að koma á svokölluðum notendagreiðslum. Eða eins og hér segir t.d. á bls. 82: ,,Notendagreiðslur eru annars vegar hugsaðar til að létta skattbyrði og hins vegar til að hafa áhrif á eftirspurn eftir opinberri þjónustu.`` Þetta getur ekki staðið skýrar að notendagreiðslum er ætlað að létta skattbyrði. Þá vandast nú málið fyrir þá sem tala um að hér séu á ferðinni feluskattar. Staðreyndin er sú, og ef við látum alla pólitík til hliðar, að það er viðurkennt á Norðurlöndum, jafnvel hjá þeim flokkum sem eru lengst til vinstri, eins og í Danmörku, að notendagreiðslur geti komið að verulegu gagni til þess að ná tökum á ríkisfjármálunum. Þetta vildi ég að kæmi fram, ég ætla ekki að fara frekari orðum um þessi atriði hér, til þess gefast tækifæri síðar.
    Virðulegi forseti. Hin nýju þingsköp sem við nú störfum eftir setja okkur nokkuð þrengri skorður en þau eldri. Ég man eftir því margsinnis af sérstökum ástæðum að 2. umr. um fjárlög færi fram 15. og 16. des. samkvæmt gömlu þingsköpunum. Ég tel einnig að það hafi ekkert óvenjulegt gerst í vinnubrögðum til undirbúnings fjárlagagerð og núna þessari umræðu. Ég rakti það fyrr í minni ræðu hvernig fjárln. fékk allar upplýsingar sl. mánudag. Nú er liðið talsvert á vikuna. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka fjárln. fyrir það mikla starf sem hún hefur lagt af mörkum til að koma þessu frv. áfram. Einnig stjórnarandstöðunni fyrir að taka þátt í umræðunni með málefnalegum hætti sem hefur gerst hér í dag og nótt, í gær og fyrradag reyndar líka. Þessi umræða hefur verið miklu lengri en umræður hafa verið venjulega. Hér hafa verið fluttar ræður í yfir 20 klukkutíma. Þeir sem hafa setið á þingi fyrr en á þessu kjörtímabili vita það vafalaust að a.m.k. síðustu 15 árin eða svo hefur 2. umr. um fjárlög farið fram á einum degi, oftast verið kvöldfundur og stundum fundur fram eftir nóttu þó yfirleitt ekki lengur en til tvö eða þrjú. Ef við hefðum nú starfað eftir gömlu þingsköpunum og byrjað kl. 2 þá þýða þessar 20 klukkustunda umræður, og rúmlega það, að umræðum hefði lokið kl. rúmlega 10 að morgni. Svo lengi hafa þessar umræður staðið. Þær hafa verið gagnlegar og öðruvísi heldur en umræður áður vegna þess að ráðherrar hafa komið og svarað greiðlega fyrirspurnum sem til þeirra hefur verið beint og það er nýmæli. Ég vil þakka samráðherrum mínum fyrir að koma hér og veita þær upplýsingar sem er mjög óvenjulegt að gert hafi verið að undanförnu og fagna því hvernig þessi umræða hefur breyst. Ég bið menn um að virða það. Ég tel að þessi umræða, þótt hún sé löng, hafi verið gagnleg og hún ætti að gefa okkur tækifæri til þess að stytta umræðuna sem fer fram um tekjufrv. Margt hefur verið sagt um það sem þar hefur komið fram og einnig hygg ég að við höfum tekið hér forskot á sæluna og getum þá stytt umræðuna við 3. umr. málsins. ( Gripið fram í: Heim á morgun?)

    Að svo mæltu læt ég máli mínu lokið, en ég verð að kvelja hv. frammíkallanda með því að líklega kemst hann ekki heim til sín, norður yfir heiðar, fyrr en í næstu viku.