Tilhögun þingfundar

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 11:01:01 (1935)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Það kemur mjög á óvart að hér eigi að fara að fresta fundi sem boðaður er kl. 11 og 1. mál á dagskrá er atkvæðagreiðsla um fjárlög eftir 2. umr. Ég vissi ekki annað en að þetta væri þaulskipulagt í samræmi við starfsáætlun þingsins sem kveður á um það að ljúka störfum Alþingis á morgun, síðasti starfsdagur þingsins fyrir jól er á morgun samkvæmt þeirri starfsáætlun sem út hefur verið gefin og ég hef ekki neina aðra áætlun í höndum eða neitt erindi frá forsætisnefnd þingsins um að það eigi að breyta þar til um. Hér stóð fundur fram undir morgun og það var áhersluatriði af hálfu okkar í stjórnarandstöðu að menn fengju ráðrúm til þess að undirbúa þátttöku í þessari atkvæðagreiðslu þannig að hún yrði síðar í dag. Við það var ekki komandi af hálfu stjórnarliðsins og settur niður fundur með atkvæðagreiðslu kl. 11. Ég verð að segja að ég hef ærið að starfa þessa daga fram að jólum í sambandi við þingstörfin og undirbúning mála og ég hef búið mig undir það að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu sem margir líta eðlilega á sem þýðingarmikla. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvernig stendur á því að svona er farið með tíma alþingismanna og svo er háttað dagskrá að setja hér upp atkvæðagreiðslu um fjárlög kl. 11 og síðan á að fresta fundi til kl. 13 eftir því sem hæstv. forseti greindi okkur einmitt frá núna.
    Ég óska eindregið eftir skýringum af hálfu virðulegs forseta þingsins hvað valdi þessu. Hverjir eru það sem óska eftir frestun fundar? Og hvar er stjórnarliðið sem kveður hér til fundar? Hvar eru þingmenn Sjálfstfl., svo dæmi sé tekið? Hvar er ráðherrabekkurinn? Hann er heldur þunnskipaður. Hvað veldur þessari tilhögun á þinghaldi með þessum hætti? Ég óska eftir skýringum og ég hugsa að það séu fleiri sem vilja vita ástæður.