Tilhögun þingfundar

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 11:03:00 (1936)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, og spyrja í raun hverju þetta sæti. Við sátum hér til kl. að ganga sex í morgun og var samkvæmt samkomulagi reynt að greiða fyrir þingstörfum. Sumir hv. þm. sem töldu sig hafa ærna ástæðu til þess að fjalla hér um það mál sem þá var á dagskrá, fjárlög fyrir næsta ár, féllu frá ræðum sínum, sumir styttu þær mjög, aðrir féllu alveg frá orðinu til þess að geta mætt til þingfundar í morgun kl. 11 til þess að greiða atkvæði um frv. Reyndar fengu ekki allir frið til kl. 11 því að fjárlaganefndarmenn voru boðaðir til fundar kl. 8.30 í morgun, ( Gripið fram í: Fleiri nefndir.) og fleiri nefndir, er hér upplýst, til

þess að sjálfsögðu að fjalla um þingmál. Til dæmis voru í fjárln. tekin fyrir mál sem á að fjalla um við 3. umr., B-hluta stofnanir, og ekki smáar stofnanir, stofnanir eins og Póstur og sími, Húsnæðisstofnun ríkisins og Rafmagnsveitur ríkisins. Við höfðum reyndar ekki lokið við að fjalla um nema eina af þessum stofnunum, Póst og síma, þegar boðað var til þingflokksfunda til að undirbúa þessa atkvæðagreiðslu því að auðvitað þurfa þingflokkarnir einhvern tíma til þess, virðulegi foseti, að undirbúa atkvæðagreiðsluna og það höfum við gert. Við höfum setið á fundi núna frá 10 og fram að fundi þessum til þess að vera tilbúnir, og erum það, fyrir þessa atkvæðagreiðslu.
    Ég verð að lýsa undrun minni á þessum vinnubrögðum. Ég veit reyndar ekki hvort fundur í fjárln. hefur haldið áfram eftir að við stjórnarandstæðingar þurftum frá að hverfa til þess að fara á þingflokksfundi. Hafi svo verið, þá a.m.k. er alveg ljóst að við munum krefjast þess að fá forstöðumenn þessara stofnana aftur til viðræðu á fund þannig að við stjórnarandstæðingarnir í nefndinni getum rætt við fulltrúa Húsnæðisstofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins. Kannski hefur fundinum verið frestað, ég veit það ekki, virðulegur forseti, hvernig það hefur farið fram. En því miður hefur það þó komið fyrir áður á fundi í fjárln. að beiðni okkar um að fá til viðtals þá aðila sem við höfum beðið um að fá til viðtals hefur verið hafnað og ég vona a.m.k. að það endurtaki sig ekki, að það fari svo nú að þeirri ósk okkar yrði hafnað að fá þessar stofnanir aftur --- og vil reyndar nota tækifærið og láta vita af því að við munum auðvitað ítreka þá ósk okkar --- vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar sem boðaðar voru og við vildum fá að ræða á fundum fjárln., að fá þá fulltrúa til fundar við nefndina, þar sem nú er ljóst að þær boðuðu aðgerðir eru meira og minna í vindinum. Hæstv félmrh. lýsti því hér yfir í gær að það væru allt aðrar hugmyndir uppi nú varðandi verkaskiptinguna heldur en þær sem þá voru boðaðar. Því við hljótum að verða að fá að taka okkur tíma í hv. nefnd til þess að ræða þau mál.
    En á þessu stigi, virðulegi forseti, var það nú fyrst og fremst það sem hér er að gerast núna sem við erum undrandi á eftir að hafa verið hér mestalla nóttina, mætt síðan hér til vinnufunda í hinum ýmsu nefndum stax í morgun og verið á þingflokksfundum til þess að vera tilbúnir til atkvæðagreiðslu nú. Það hefði verið öllu betra fyrir öll vinnubrögð og allt samkomulag og samstarf í þinginu að þetta hefði legið fyrir fyrr en nú þegar við stjórnarandstæðingar erum mættir til þessa fundar. Það virðast reyndar vera fáir aðrir en þeir, örfáir, tveir til fjórir fulltrúar stjórnarliða sem hér eru mættir.