Skattskylda innlánsstofnana

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 13:11:00 (1946)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Það er nokkuð um liðið síðan ég flutti framsöguræðu fyrir þessu máli. Þetta er gamall kunningi. Þetta frv. hefur verið flutt áður og þá sem hluti af stærra frv. Þau ákvæði sem er að finna í þessu frv. nú urðu viðskila við sjálft frv. í Ed. á sínum tíma. Frv. er auðvitað flutt til samræmingar þannig að fjárfestingarlánasjóðir greiði sams konar gjöld og til að mynda veðdeildir bankanna. Og af því að hv. síðasti ræðumaður minntist á að þetta gæti gengið á útlán sjóðanna þá er það alveg rétt nema sérstök gjaldtaka komi fyrir sem auðvitað er til staðar hjá mörgum þessara sjóða.
    Varðandi Lánasjóð sveitarfélaga hins vegar vil ég segja það að árið 1990 og reyndar árið 1991 líka voru hagstæð ár í rekstri sjóðsins og skilaði sjóðurinn óvenjulega miklum hagnaði. Það er rétt að fjmrn. hefur giskað á að tekjur af sjóðnum á næsta ári, sem er þá fyrirframgreiðsla fimm mánaða, gæti skilað 150 millj. kr. Þessi fyrirframgreiðsla er 20% en ég hygg að þeir sem skrifa bréfið séu að miða við greiðslu allt árið og þess vegna geta þessar tölur staðist þegar þær eru bornar saman, annars vegar á hálfs árs grundvelli og hins vegar heils árs.
    En ég vil taka það fram að í morgun áttum samtöl við fyrirliða sveitarstjórnarsambandsins, hæstv. forsrh., félmrh. og ég, og þar ræddum við um samskipti ríkis og sveitarfélaga og með hverjum hætti ætti að skipa málum við fjárlagagerðina nú. Eitt af því sem þar var rætt var einmitt það frv. sem hér er á ferðinni. Ég vil gjarnan láta það koma fram að niðurstaða þeirra viðræðna varð með þeim hætti að ég tel að ástæða sé til þess af hálfu hv. nefndar að kalla til sín fulltrúa sveitarfélaganna og af hálfu ríkisstjórnarinnar kemur það vel til greina að fella Lánasjóð sveitarfélaga út úr þessu frv. með því að færa þann sjóð yfir í 2. gr. en þar er tæmandi talning á þeim fjárfestingarlánasjóðum sem ekki eiga að skattleggjast.
    Ég tel ekki ástæðu á þessu stigi að fjalla frekar um samtal okkar og sveitarstjórnarmanna. Það mun að sjálfsögðu koma í ljós síðar, ég hygg síðar í dag. En þetta atriði bar á góma og af því tilefni vil ég að það komi fram að ég álít að nefndin eigi að kanna þetta mál rækilega í tengslum við niðurstöu fundarins sem haldinn var í morgun.