Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 14:13:00 (1957)

     Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja alveg eins og er að mér finnst það nokkuð sérkennileg staða sem upp er komin. Hérna höfum við verið á löngum fundum, samningafundum um þinghaldið, tilhögun atkvæðagreiðslu í einstökum atriðum og framgang mála o.s.frv. Loksins þegar málið kemur hér til atkvæðagreiðslu, þá kemur forsrh. upp og lýsir því yfir að það séu fyrirvarar við enn þá fleiri þætti fjárlagafrv. en áður hafði verið talið. Þetta er auðvitað mjög sérkennilegt.
    Stjórnarandstaðan féllst í morgun á þá ósk stjórnarliðsins að fresta atkvæðagreiðslu um málið þar til nú og ég vil taka það fram af minni hálfu án þess að ég tali í umboði nokkurs annars manns að ég tel sjálfsagt að verða við því ef stjórnarliðið vantar meiri frest. Ég geri ráð fyrir því að stjórnarandstaðan mundi taka því vel ef stjórnarliðið bæði um enn þá lengri frest ef þetta er svona óskaplega erfitt. Alla vega er ljóst að það er ekki fullburða atkvæðagreiðsla eftir 2. umr. fjárlaga sem hér á að fara fram og þess vegna hljóta menn að velta því fyrir sér hvort það er ekki óhjákvæmilegt að menn geri hlé á störfum þingsins núna í nokkrar mínútur til þess að fara yfir stöðuna, án þess að ég sé að bera fram neina sérstaka formlega ósk um það. En þegar búið er að taka undan afgreiðslunni menntamálin og heilbrigðismálin, það eru svona 50 milljarðar, þá er nú voða lítið eftir, staðreyndin er sú, fyrir nú utan það að þetta eru einhverjir merkustu málaflokkar fjárlaganna. Ég held því að menn verði að velta því mjög alvarlega fyrir er hvar við stöndum. Þessi yfirlýsing forsrh. er undirstrikun á því að stjórnin er ekki að leggja hér fram fullburða fjárlagafrv. við 2. umr. málsins, þetta er viðurkenning á því.