Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 14:16:00 (1958)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Við höfum reynt að kappkosta það hér á síðasta sólarhring að sýna ríkisstjórninni ákveðinn skilning, hún ætti í miklum erfiðleikum. Við samþykktum það að koma aftur til fundar kl. 11 í morgun og við samþykktum að fresta atkvæðagreiðslunni þá. Fundur formanna þingflokka og forseta var haldinn fyrir tæpri klukkustund síðan og okkur bárust engar fréttir af þeim fundi að í upphafi þessarar atkvæðagreiðslu mundi forsrh. flytja yfirlýsingu af því tagi sem hann flutti hér. Okkur var ekki greint neitt frá því. Ég tel þess vegna að það sé alveg óhjákvæmilegt að stjórnarandstöðuflokkarnir fái eitthvert tóm til þess að meta atkvæðagreiðsluna í ljósi þessarar afar óvæntu --- nei, það er kannski ekki rétt, ekki óvæntu --- en afar óvenjulegu yfirlýsingar sem hæstv. forsrh. flutti hér.

    Það er ekki hægt að ætlast til þess af þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þeir taki þátt í atkvæðagreiðslunni án þess að hafa tækifæri til að ræða það í sínum hóp hvernig skuli bregðast við yfirlýsingu þar sem forsrh. í reynd ómerkir atkvæðagreiðslu um veigamestu þættina í fjárlagafrv.
    Ég vil því, virðulegi forseti, óska eftir því að gert verði hlé í hálftíma eða svo og þingflokkar stjórnarandstöðunnar fái tækifæri til þess að ræða hvernig þeir meta þá yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. bar hér fram og fái einnig tækifæri til þess að ræða við forustumenn stjórnarliðsins utan þingsalarins um framhaldið. Ég er ekki að tefja hér mál með neinum hætti en ég tel að þetta sé bæði sanngjörn og eðlileg ósk.