Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 14:46:00 (1964)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Við erum að greiða hér atkvæði um 1. brtt. meiri hluta fjvn. um niðurskurð á fjárveitingum til Alþingis. Ég tel rétt að það komi fram af minni hálfu að ég tel að meðferð þessa máls frá upphafi eða nánast frá upphafi hafi verið með óeðlilegum hætti að því er varðar fjárveitingar til þingsins. Í fyrstu var þó eðlilega að þessu staðið með því að embættismenn þingsins undirbjuggu fjárlagatillögur og kynntu þær forsætisnefnd sem tók til þeirra afstöðu. Hins vegar gerðist það hinn 12. júlí 1991 að hæstv. forsrh. skrifaði forseta Alþingis bréf og fór þess á leit að Alþingi endurskoði fjárlagatillögur sínar í ljósi þeirra markmiða ríkisstjórnarinnar að draga úr uggvænlegum fjárlagahalla, svo ég reki það efnislega, en orðrétt sagði í þessu erindi forsrh., með leyfi forseta:
    ,,Hér með er þess óskað að Alþingi endurskoði fjárlagatillögur sínar í ljósi ofangreinds markmiðs ríkisstjórnarinnar við undirbúning fjárlagafrv. Hjálagt fylgir yfirlit fjárlagaskrifstofu fjmrn. þar sem fram kemur hlutdeild einstakra stofnana æðstu stjórnar í útgjöldum.
    Vert er að hafa í huga að svigrúm til niðurskurðar er í sumum tilvikum ekkert, t.d. eru útgjöld vegna Hæstaréttar bundin við laun dómara. Er því óhjákvæmilegt að óska þess að Alþingi leiti leiða til þess að axla sem allra mestan hluta nauðsynlegs sparnaðar innan æðstu stjórnar ríkisins.``
    Þetta er hluti af bréfi forsrh. til forsætisnefndar þingsins. Það varð niðurstaða í forsætisnefndinni að taka málið upp og forseti lagði fram tillögu um frekari niðurskurð á fjárlagatillögum Alþingis upp á 13,8 millj. kr. Ég tók ekki þátt í þessari afgreiðslu vegna þess að ég tel óeðlilegt að framkvæmdarvaldið og ráðuneyti, í þessu tilviki hæstv. forsrh., séu að hlutast til um fjárlaga- og fjárveitingamál Alþingis á undirbúningsstigi eins og hér var gert.
    Síðan gerist það að meiri hluti fjárln. kemur með tillögu um frekari niðurskurð og var þó málið unnið á sl. sumri í samráði við formann fjárln. Hér kemur viðbótartillaga um 7 millj. kr. niðurskurð á fjárveitingum til þingsins. Mér skilst að þessi niðurskurður hafi ekki verið ræddur eða kynntur forsætisnefnd þingsins en hef þó ekki um það skjalfestar

upplýsingar.
    Ég vildi gera grein fyrir því hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Mér finnst þetta mjög óeðlilegt og alveg óljóst hvernig á að taka á fjárveitingamálum þingsins. Á sama tíma kemur ríkisstjórnin með tillögur um það að ráðuneytið fái til endurráðstöfunar fjárveitingar upp á 1 milljarð kr. eða svo.
    Ég mun ekki taka afstöðu til þessrar tillögu. Ég mun ekki greiða henni atkvæði en vildi að þetta lægi fyrir við atkvæðagreiðslu.