Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 14:55:00 (1966)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegur forseti. Það má vera að það tefji nokkuð fyrir þessari atkvæðagreiðslu að við erum þeirrar skoðunar að þessi atkvæðagreiðsla sé ekki tímabær og því í reynd erfitt að móta afstöðu til málsins. En ég vil gera grein fyrir því hér að við þingmenn Framsfl. teljum að það framlag sem gert er ráð fyrir til Byggðastofnunar sé ófullnægjandi miðað við þær aðstæður sem nú eru í atvinnu- og byggðamálum í landinu og miðað við það hlutverk sem þessari stofnun er ætlað.
    Ég vek athygli á því að samkvæmt frv. til laga um breytingu á lögum um Hagræðingarsjóð er vísað til þess að eðlilegt sé að Byggðastofnun fari með það hlutverk sem honum var ætlað. En með því að brtt. meiri hluta fjárln. hefur nú verið dregin til baka væntum við þess að ráðrúm gefist til þess að fara betur ofan í málefni Byggðastofnunar og taka þar raunhæft á málum miðað við þann almenna vilja að auka atvinnu úti um allt land. Við munum ekki taka afstöðu til málsins að öðru leyti á þessu stigi en munum gera nánari grein fyrir henni við 3. umr.