Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 15:02:00 (1968)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Allt frá því í september í haust hafa farið fram miklar opinberar umræður um skólagjöld. Nokkrir þingmenn Alþfl. hafa undir forustu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar lýst því yfir að þeir mundu aldrei fallast á það að skólagjöld yrðu lögð á. Allt til síðustu stundar gerðum við okkur vonir um það að þessir hv. þm. stæðu við yfirlýsingar sínar. Okkur er niðurstaða þeirra nú og flótti mikil vonbrigði. Hér er verið að leggja til í þessari tillögu að heimildin til skólagjaldatöku verði felld niður. Þess vegna mun ég segja já við tillögunni. Hv. þm. var gefinn kostur á því að styðja þá stefnu sem þeir í orði kveðnu hafa haft uppi á undanförnum mánuðum. Þeir brugðust þeim vonum sem fjöldi fólks í landinu öllu gerði sér um afstöðu þeirra. Þeir eiga að vísu enn kost á að bæta um betur og það verður enn eftir því gengið að þeir sýni að í þessum mönnum sé eitthvað af því sem hét drengskapur í fornum íslenskum bókmenntum.
    Virðulegi forseti. Ég segi já en ég harma þann tvískinnung sem hefur birst okkur síðustu stundirnar.