Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 15:11:00 (1970)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það er nú að koma æ skýrar fram í þessari atkvæðagreiðslu hvers

vegna hæstv. forsrh. gaf þá uppgjafaryfirlýsingu sem hann gerði hér í upphafi atkvæðagreiðslunnar. Það er afar óvenjulegt að ríkisstjórn mæti til fyrstu atkvæðagreiðslu um fjárlagafrv. sitt með þeim hætti sem hér er að gerast í dag og staðfestir auðvitað mjög djúpstæðan ágreining innan ríkisstjórnarinnar.
    Í fyrri atkvæðagreiðslunni um skólagjöld lá það ljóst fyrir þegar tölur birtust að þeir þingmenn Alþfl. sem hafa lýst því yfir að sannfæring þeirra bjóði þeim að vera á móti skólagjöldum hefðu haft afl atkvæða með okkur hinum til að fella skólagjöldin. Tölurnar sýna að ef þessir fimm hefðu greitt atkvæði með okkur í stað þess að sitja hjá þá voru skólagjöldin fallin. Það er mikil ábyrgð sem þeir þingmenn taka á sig, þessir fimm þingmenn Alþfl. að ætla sér að bíða eftir 3. umr. og láta þá reyna á það hvort þeim tekst --- eða er verið að fara hér þá leið að bíða þar til hæstv. umhvrh. kemur inn í þingið í staðinn fyrir varamann sinn þannig að þessum fimm fækki í fjóra og þar með séu skólagjöldin í höfn ef hæstv. félmrh. heldur áfram að greiða atkvæði með ríkisstjórninni en á móti þeim sem hafa sannfæringu á móti skólagjöldum?
    Það sem hér er verið að sviðsetja af hálfu þessara fimm þingmanna Alþfl. er því aðferð til þess að þvo samvisku sína við 3. umr. en stefna skólagjöldunum ekki í hættu. Það væri ljótur leikur, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að gera þannig samning við hæstv. forsrh. og utanrrh., að fá leyfi til að sitja hjá við þessa umræðu og fá leyfi til að sitja hjá við 3. umr. vegna þess að þá verður umhvrh. kominn til þess að treysta og tryggja það að skólagjöldin séu í höfn. (Gripið fram í.) Já, eða fara þá leið að greiða atkvæði á móti skólagjöldunum við 3. umr. þannig að sjónarspilið sé fullkomnað, að þykjast hafa fylgt samvisku sinni en gera það ekki á þeirri stundu þegar atkvæðið gat skipt sköpum. Við erum reiðubúin áfram til að styðja þessa félaga okkar innan Alþfl. í baráttunni gegn skólagjöldum. En við ætlumst til heilinda í þeirri baráttu. Við ætlumst til þess að menn fylgi samvisku sinni en séu ekki að gera um miðja nótt, eins og virtist hafa verið gert hér milli kl. 4 og 5 í nótt, leynisamkomulag sem birtist hér með þessum hætti. Ég vona að það verði ekki niðurstaðan af þessu að skólagjöldin verði lögð á því að ill væri þá hin fyrsta ganga, hæstv. fóstri. Ég segi já.