Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 15:21:00 (1973)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Það liggur fyrir samkvæmt yfirlýsingum sem gefnar hafa verið að meiri hluti þess þings sem nú er að fjalla um skólagjöld er á móti skólagjöldum. 27 þingmenn stjórnarandstöðunnar og 5 þingmenn Alþfl. Alþýðuflokksþingmennirnir hafa kosið að beita ekki þessum meiri hluta, en það blasir við að eftir nokkra daga getur staðan orðið sú að þessi meiri hluti sé ekki lengur til heldur verði andstæðingar skólagjalda í minni hluta á Alþingi. Getur það verið að hér sé verið að leika þann ljóta leik að blekkja vísvitandi þingið og þjóðina, stjórnarandstöðu og aðra þingmenn með þeim hætti sem fram fer hér í dag? Getur það verið? Satt að segja tel ég að það væri svo ljótur leikur að ég trúi því ekki einu sinni upp á þá menn sem hafa kosið að sitja hjá af hálfu Alþfl. hér í dag. Ég trúi því ekki. Ég trúi ekki öðru en þeir hafi naglföst loforð í hendi sinni um það að skólagjöld verði ekki lögð á. Annars er afstaða þeirra dapurlegasta magalending íslenskrar stjórnmálasögu. --- Virðulegi forseti. Ég segi já.