Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 15:29:00 (1978)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Hér er nokkur vandi á höndum. Hér er komið til atkvæða enn eitt sprengiefnið innan hæstv. ríkisstjórnar. Við sem höfum fylgst með atburðarás í haust höfum auðvitað fylgst með hörðum deilum hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, við hæstv. menntmrh. um þetta mál. Er nú ljóst enn á ný hve ótímabær þessi atkvæðagreiðsla er vegna þess að ríkisstjórnarliðið getur ekki mætt til þessarar atkvæðagreiðslu með sæmilega heila brú.
    Hæstv. forsrh. las hér upp yfirlýsingu áður en atkvæðagreiðslan hófst þar sem hann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar lýsti því yfir að ekki færi fram efnisleg afgreiðsla við 2. umr. á fjármálum framhaldsskóla og háskóla ásamt tillögum um hagræðingu í sjúkrahúsrekstri á höfuðborgarsvæðinu og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þetta þýðir á mæltu máli að ágreiningi um skólamál við Alþfl. er frestað, ágreiningi um St. Jósefsspítala við Alþfl. er frestað og ágreiningi út og suður við sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn um málefni sveitarfélaga er frestað. Forsrh. gerði hins vegar engan fyrirvara um málefni Héraðsskólans í Reykjanesi þannig að samkvæmt þeirri yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. flutti hlýtur sá liður að koma hér til efnislegrar afgreiðslu. Ég heyrði hins vegar að formaður fjárln., hv. þm. Karl Steinar Guðnason, kallaði fram í að tillagan væri dregin til baka, þ.e. ef ég skil rétt, tillagan sem er í fjárlagafrv. sjálfu. Það er nú ekki hægt, virðulegur þingmaður Karl Steinar Guðnason, að draga til baka, hversu fegin sem ríkisstjórnin vildi, liði sem eru í sjálfu fjárlagafrv. ( Gripið fram í: Draga frv. til baka.) Já, það er kannski best að draga frv. til baka, hv. formaður fjárln. Það væri einfaldast í atkvæðagreiðslunni.
    Hv. þm. Matthías Bjarnason spurði um það hvað liði umfjöllun fjárln. á þeim erindum sem henni hefðu borist varðandi þetta mál. Það hafa engin svör komið við því, og við sem unnum skólahaldi á Vestfjörðum og við erum nokkrir hér í salnum og einstaka menn í ríkisstjórninni sem greinilega eru hættir að unna skólamálum á Vestfjörðum, viljum gjarnan fá að vita hvað þessi atkvæðagreiðsla sem hér á að fara fram merkir. Væri æskilegt ef formaður fjárln. gæti svarað 1. þm. Vestf. svo að ljóst sé hvar ágreiningsmálið er á vegi statt.