Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 15:37:00 (1985)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegur forseti. Hér hefur orðið mikið fjaðrafok út af beiðni minni, en það skal upplýst hér að það var að beiðni minni sem var beðið um sérstaka atkvæðagreiðslu um þennan lið. Það var á grundvelli þess að á sl. hausti tók menntmrh. þá ákvörðun að ekki

skyldi verða kennt í Reykjanesskólanum í vetur þrátt fyrir að skólinn væri á fjárlögum þessa árs. Ég leit svo á að það væri ekki endanleg ákvörðun um að leggja niður skólann heldur aðeins þetta skólaár.
    Mér sýnist á frv. að ekki eigi að starfrækja skólann næsta vetur þar sem mjög lítið fjármagn er veitt til skólans. Ég leit svo á að það væri ekki endanleg ákvörðun og framtíðarhlutverk skólans þyrfti að marka með öðrum hætti en væri gefið til kynna í fjárlagafrv. Þetta var orsök þess að ég bað um sérstaka atkvæðagreiðslu um þennan lið, en þar sem hér hefur verið upplýst að hv. formaður fjárln. býðst til þess að þetta mál verði skoðað sérstaklega á milli 2. og 3. umr. þá fell ég hér með frá því að biðja um sérstaka atkvæðagreiðslu um þennan lið.