Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 15:43:00 (1989)

     Guðmundur Bjarnason :
     Hæstv. forseti. Í umræðum um þetta mál, Lánasjóð ísl. námsmanna, í fyrradag, í gær og í nótt var það ítrekað og kom fram að fyrir fjárln. liggja óskir um viðbótarfjárþörf

sjóðsins til þess að geta staðið við þær útlánareglur sem nú eru í gildi. Samkvæmt bréfi stjórnenda sjóðsins hljóðar sú ósk upp á 607 millj. kr. Þar kemur fram að viðbótarfjárþörf til námsaðstoðar í heild er 867 millj., þar af fjárveitingaþörf 607 millj. umfram þær tölur sem eru í fjárlagafrv. eins og það lítur út núna. Það kemur einnig fram í þessari beiðni sjóðsins að þær breytingar sem gerðar voru á úthlutunarreglunum sl. vor hafa a.m.k. 750 millj. kr. lækkun útgjalda í för með sér á næsta fjárlagaári þannig að það er gert ráð fyrir því að þeim niðurskurði verði að sjálfsögðu haldið áfram, þær breyttu úthlutunarreglur gildi áfram og munu leiða til 750 millj kr. sparnaðar. Í viðbót við það þarf sjóðurinn, til að geta staðið við úthlutunarreglurnar eins og þær eru nú, 607 millj.
    Ef ekkert á að verða við þessum óskum, þá er ljóst að enn þarf að gera róttækar breytingar á lánasjóðnum og úthlutunarreglum hans sem að sjálfsögðu hlýtur að bitna hart á þeim einstaklingum sem njóta framlaga frá sjóðnum í formi lána eða styrkja. Við stjórnarandstæðingar höfum óskað eftir því og vonum að þetta mál verði skoðað nánar. Reyndar hefur það fengið litlar undirtektir en við munum láta á það reyna á milli umræðna og sitjum því hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Ég greiði ekki atkvæði.