Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 15:49:00 (1991)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Hér áðan ákvað stór hluti þingsins að halda við þá fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að leggja á skólagjöld á næsta ári upp á 250 millj. kr. Ákveðið hafði verið að skera niður þjónustu Lánasjóðs ísl. námsmanna á þessu ári um u.þ.b. 700 millj. kr. Fyrir stendur að bæta enn við 600 millj. á næsta ári samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í athugasemdum hv. 1. þm. Norðurl. e. Hér er með öðrum orðum um það að ræða að nemendur í landinu eiga að taka á sig kjaraskerðingu samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1992 upp á 1,5 milljarða kr. Virðulegi forseti. Það er útilokað að sætta sig við þessa niðurstöðu og þess vegna hljótum við að gera kröfu til þess að málið verði tekið til meðferðar, endurskoðunar og athugunar við 3. umr. Hér er bersýnilega í uppsiglingu enn ein atlagan að jöfnunar- og velferðarkerfi landsmanna. Við þessar aðstæður, virðulegi forseti, greiði ég ekki atkvæði en við munum beita okkur fyrir því að knýja fram breytingu á þessum lið við 3. umr. fjárlaga.