Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 16:20:00 (2003)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni eitthvert allra alvarlegasta ákvæði fjárlaganna þar sem hæstv. ríkisstjórn er að breyta þannig ákvæðum um Hagræðingarsjóð að allar veiðiheimildir hans á kvótaárinu 1992--1993 á að selja sjávarútveginum í landinu fyrir 525 millj. kr. Þessi fénýting veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs er þó ekki nema tæpur helmingur af beinum nýjum álögum á sjávarútveginn í landinu á næsta fjárlagaári. Allir hagsmunaaðilar og öll samtök sjávarútvegsins sem enn hafa tjáð sig um þetta mál og komið hafa á fund sjútvn. Alþingis hafa verið því algerlega andvígir. Það hefur enginn einasti stuðningsmaður fundist fyrir málinu utan hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna hér á þingi.

    Það hefur komið fram og ég tek undir það að þessi breyting er að því leyti alvarleg fyrir utan upphæðirnar sem í henni felast og leggjast á sjávarútveginn á næsta ári, að hún skapar enn meiri átök og enn meiri óánægju um þá fiskveiðistefnu sem í gildi er og nú er til endurskoðunar. Þess vegna er það með öllu óverjandi að afgreiða fjárlagafrv. eins og hér er gert ráð fyrir þegar við bætist að fylgifrv. er í fullkominni óvissu og óafgreitt úr nefnd.
    Ég segi því nei, hæstv. forseti og vona, hver sem niðurstaðan verður nú við þessa afgreiðslu málsins við 2. umr., að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn skoði hug sinn vandlega áður en til 3. umr. fjárlaga og afgreiðslu kemur.