Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 16:36:00 (2008)

     Egill Jónsson :
     Virðulegi forseti. Ég held að ég muni það rétt að það hafi verið sl. mánudag sem þingmenn Austurl., að undanskildum fyrsta þingmanni kjördæmisins sem var erlendis, fjölluðu um skiptingu á einstökum verkefnum í kjördæminu. Á þeim fundi var algjör samstaða um að gera tilfærslur á þremur liðum í sjúkrahúsaþættinum á Austurlandi og færa til dvalarheimilis á Höfn 5 millj. kr. sem var í samræmi við óskir heimamanna og hefði fullnægt því að þar væri hægt að hefjast handa og ná tilteknum árangri á næsta ári.
    Þrátt fyrir þessa sameiginlegu niðurstöðu sem fékkst á þessum fundi, en á fundi morguninn eftir vorum við þrír þingmennirnir og þá að sjálfsögðu enn sammála og fórum þá reyndar frekar yfir ýmislegt annað í þessari fjárlagagerð, þrátt fyrir þessi skýru og afdráttarlausu tilmæli þá gerðist sá einstæði atburður að fjárln. Alþingis fór ekki að tillögum þingmanna Austurl.
    Ég hef af þessu tilefni lagt fram sérstaka tillögu hér í þinginu sem ég ákvað að ekki yrði tekin til umræðu fyrr en við 3. umr. Reyndar eru það fleiri mál sem ég hef fulla ástæðu til þess að tala um við fjárln. og sérstaklega forustu þeirrar nefndar sem gæti þá

vel komið inn í þá umræðu ef vel liggur á mér. Ég hlýt að mótmæla þessum einstæðu vinnubrögðum sem eru náttúrlega á vissan hátt ofbeldi gagnvart þingmönnum Austurlandskjördæmis.
    Af þessari ástæðu tek ég ekki þátt í afgreiðslunni um Austurlandsliðina núna en ég vek enn athygli á því að umræðan um mína tillögu bíður 3. umr. og þá mun ég skýra þetta mál enn betur.