Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 16:46:00 (2013)

     Egill Jónsson :
     Það er nú ekki, virðulegur forseti, vanþörf á því að ég beri af mér sakir því ég geri

varla ráð fyrir því að nokkur prestur á Íslandi hafi fyrr snúið hlutunum jafnskýrlega við og Heydalaklerkur gerði hér áðan.
    Í fyrsta lagi sagði hann að ég hefði sagt það hér í minni fyrri ræðu að sá einstæði atburður hefði gerst að þingmenn Austurl. hefðu ekki orðið sammála. Ég sagði að þingmenn Austurl. hefðu verið sammála um þessa afgreiðslu. Ég hef farið yfir það bæði með Jóni Kristjánssyni, hv. 2. þm. Austurl., og hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifi Guttormssyni, hvað fór fram í Þórshamri þegar þessi mál voru afgreidd. Satt að segja fannst mér framkoma hv. 5. þm. Austurl. vera með þeim hætti að ég treysti ekki á minni mitt. En þeir staðfestu það í þessu samtali sem ég átti við þá að við hefðum verið sammála um þessa afgreiðslu, þingmenn Austurl. Það er grundvallaratriði í þessum efnum. Auðvitað hef ég ekki rofið samstöðu vegna þess að við höfum verið algerlega sammála um þetta mál þingmenn kjördæmisins og ekki verið þar nokkur ágreiningur, hvorki við þessa afgreiðslu né endranær.
    Það gerðist svo aftur á þriðjudagsmorgun, ef ég man rétt, að 5. þm. Austurl. mætti þá ekki til fundar við okkur hina þingmennina, en að því að mér er sagt lýsti síðan ágreiningi úti í fjárln. án þess að koma til fundar við okkur og ræða þann ágreining innan þingmannahópsins. Þessi vinnubrögð eru alveg ný í þingmannahópi Austurl. og ég vonast satt að segja til þess að svona verknaður eigi ekki eftir að endurtaka sig. ( GunnS: Ég vil bera af mér sakir.) ( EgJ: Það þýðir ekkert fyrir þig.)