Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 17:28:00 (2024)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegur forseti. Í ljósi þess sem hér hefur gerst og augljóst er að ríkisstjórnin er ekki tilbúin til þess að hefja hér umræðu um mikilvægustu þætti fjárlagafrv. tel ég mjög mikilvægt áður en málinu er vísað til 3. umr. að fá það upplýst hvenær ríkisstjórnin er tilbúin til þess að láta 3. umr. fara fram. Mér er það ljóst að hún verður að hefjast á morgun samkvæmt þingsköpum og gert er ráð fyrir því að svo verði eftir því sem um hefur verið talað, en ég tel alveg nauðsynlegt að hæstv. forsrh. upplýsi hér áður en málinu er vísað til 3. umr. hvenær hans ríkisstjórn er tilbúin til þess að 3. umr. fari fram. Svo virðist sem ríkisstjórnin þurfi alllangan tíma til að koma sér saman um einstök mál og undirbúa þau og það er afar þýðingarmikið að það verði upplýst áður en þessi atkvæðagreiðsla fer fram.