Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 17:33:00 (2026)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegur forseti. Hér er upplýst af hæstv. forsrh. að ríkisstjórn Íslands verði væntanlega tilbúin til þess að hin eiginlega 3. umr. fari fram um miðja næstu viku. Það yrði þá í fyrsta lagi á miðvikudag, jafnvel fimmtudag því annað eins hefur nú gerst síðustu daga að umræða um mál dragist um einhverja daga. Þá er spurningin hvort það er orðinn tími til að afgreiða fjárlagafrv. fyrir jólaleyfi. Það er alveg ljóst að þingmenn stjórnarandstöðunnar þurfa að setja sig inn í málin eftir að afstaða ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans

hér á Alþingi liggur fyrir. Hér er um viðamestu mál fjárlagafrv. að ræða og mér þykir fremur ólíklegt að það muni geta gengið upp að ljúka þinghaldinu fyrir helgi ef afstaða ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans verður fyrst ljós um miðja næstu viku. Hins vegar er mikilvægt að þetta hefur nú verið upplýst en setur þinghaldið að mínu mati í allmikið uppnám.