Framhald þingfundar

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 17:39:01 (2031)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Hér hefur nú staðið yfir atkvæðagreiðsla um frv. til fjárlaga í nokkra klukkutíma við mjög óvenjulegar aðstæður. Niðurstaðan er sú að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar nýtur ekki lengur meirihlutastuðnings á Alþingi. Minnihlutastjórn Davíðs Oddssonar starfar enn þá, hversu lengi sem það verður. Þetta eru auðvitað afar sérkennilegar og athyglisverðar aðstæður, enda dró hæstv. forsrh. skynsamlega ályktun af málinu þegar hann sagði hér áðan að framhaldið næstu daga mundi ráðast af því hversu tækist til um samninga milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þannig talar auðvitað af auðmýkt sá maður sem er forsrh. í minnihlutastjórn.
    Hitt sem ég ætlaði að nefna, virðulegi forseti, er það að hér stóðu fundir í morgun til kl. hálfsex. Þá höfðu staðið yfir umræður í mjög langan tíma og samtals var umræðan um fjárlögin þá orðin um 20 klukkustundir. Nú hefur staðið yfir atkvæðagreiðsla mjög lengi og ég segi það í fullri alvöru: Er ekki komið nóg af fundahöldum í bili þannig

að menn geti hafið fundi á morgun eins og um hafði verið talað? Mér er kunnugt um að um það hefur verið rætt á milli forustumanna flokkanna að hér yrði haldið áfram að ræða mál til kl. 7. Þá gerðu menn ekki ráð fyrir því að hér færi fram atkvæðagreiðsla þar sem af hálfu ríkisstjórnar hefur allt gengið á afturfótunum. Þess vegna vil ég mælast til þess fyrir mitt leyti að þinghléið núna í 20 mínútur eða svo verði notað til þess að ræða það hvort ekki er hægt að sameinast um að ljúka þessu þinghaldi hér í dag eins og það stendur nú og hefja síðan umræðu á morgun. Ég tel að það sé í rauninni algerlega út í hött að fara að hefja núna eftir 20--25 mínútur umræðu um skattamál ofan á alla þá umræðu og atkvæðagreiðslu sem hér hafa staðið yfir.