Skattskylda innlánsstofnana

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 18:46:00 (2034)

     Halldór Ásgrímsson (frh.) :
     Virðulegur forseti. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að hér væri um svo fljótafgreidd mál að ræða en það er af hinu góða. Ég var þar kominn máli að ég var að tala um möguleika Iðnlánasjóðs til þess að standa við bakið á þróunarverkefnum íslensks skipasmíðaiðnaðar og hafði nokkuð farið yfir þá villu sem mér finnst koma fram í málflutningi hér að breyting á lögum um veiðar í efnahagslögsögu Íslendinga muni þar miklu breyta um nema það standi þá til að falla frá þeim sjónarmiðum sem þarna hafa verið uppi og heimila þeim skipum sem veiða úr sameiginlegum karfastofni milli Íslands og Grænlands að nota hafnir og þjónustu hér á Íslandi. Stendur það til? Stendur það til að heimila þeim skipum sem eru á mörkum okkar lögsögu hér úti á Reykjaneshrygg að veiða úthafskarfa, aðallega austantjaldsþjóðir, Rússar, Austur-Þjóðverjar, jafnvel Búlgarar, Pólverjar, að þau fái alla þjónustu hér við land á sama tíma og við viljum sækja á um það að ná betri tökum á þessum stofni? Þessi stofn er trúlega mun verðmætari en við áður héldum og íslensk fiskiskip eru að byrja að sækja í hann af nokkrum krafti og hafa skapað sér þar allverulegar tekjur. Er það ætlunin að opna fyrir það til þess að hjálpa til í sambandi við íslenskan skipasmíðaiðnað? Ég vil taka það skýrt fram að ég er andvígur því og tel það allt of dýru verði keypt því að hér er um mjög mikilvægan stofn að ræða sem við þurfum að sækja á um á alþjóðlegum vettvangi að semja um skiptingu á og það er okkur mikilvægast að auka okkar eigin veiðar úr þessum stofni en hjálpa ekki sérstaklega til við að greiða fyrir öðrum í því sambandi.
    Þetta eru þau sjónarmið sem hafa verið gildandi í þessu efni og ég hef ekki trú á því að breytingar á lögum í þessu sambandi muni nokkru máli skipta nema þá að víkja eigi frá þessum grundvallarsjónarmiðum. Ég get sagt það sem mína skoðun að ég tel ekki heppilegt að hér geti ríkt of mikið frjálsræði í heimildum til ráðherra til þess að veita undanþágur þar frá og mér sýnist að ef eitthvað er, þá sé gengið fulllangt í sambandi við frv. til laga um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands.
    Annað er það mál sem ég vék líka að. Það eru lánakjör Fiskveiðasjóðs Íslands og hvernig það hefur oft og tíðum gerst að menn hafa getað keypt fiskiskip án þess að hafa til þess nægilega mikið eigið fé. Það er alveg ljóst að ef bankar og lánastofnanir hefðu túlkað ákvæðið um eigið fé með eðlilegum hætti eins og öll efni stóðu til þá hefðu mun

færri fiskiskip verið keypt til landsins. Það hefðu hins vegar ekki miklu fleiri fiskiskip verið smíðuð hér á Íslandi, því miður, og aðalástæðan er sú að niðurgreiðslur annarra þjóða hafa verið svo miklar að það hefur verið illt að ráða við það. Má þá sérstaklega geta þess að norska ríkið greiðir sem samsvarar öllum launakostnaði norskra skipasmíðastöðva. Þeir sem kaupa fiskiskip eða önnur skip af norskum skipasmíðaiðnaði eru að kaupa af iðnaði sem borgar ekki launin sjálfur heldur norska ríkið. Við þetta verður ekki ráðið nema þá að leggja jöfnunartolla eða ,,dumping``-tolla á innflutning slíkra þjóða. Ég hélt satt best að segja að hæstv. núv. og fyrrv. iðnrh. gerði sér þetta afar vel ljóst og væði ekki í þeirri villu að halda að breytingar á þessum lánshlutföllum muni skipta sköpum nema hann hafi fengið einhverjar alveg nýjar miðstýringarhugmyndir í því sem ég fæ ekki skilið. Ég fæ ekki almennilega skilið hans mál því að ég veit að hann veit að það sem þarna hefur skipt sköpum oft og tíðum eru lán annarra aðila, t.d. bankanna eða erlend lán í gegnum viðskrn. á sínum tíma þegar langlánanefnd var starfandi og margt fleira. Hann veit það jafn vel og ég að t.d. var það skilningur bankanna þegar þess var krafist að 40% væru eigið fé og það vottað til stjórnar Fiskveiðasjóðs, þá voru lán tryggingafélaga, olíufélaga og ýmissa annarra túlkuð sem eigið fé. Og hverjum gat eiginlega dottið það í hug að íslenskar bankastofnanir færu að túlka lán frá tryggingafélögum og olíufélögum sem eigið fé? Ég hafði a.m.k. ekki hugmyndaflug til þess. En það er hins vegar sannleikur að þessar kröfur voru of litlar. Og það má segja að þær kröfur sem stjórn Fiskveiðasjóðs setti jafnframt í þessu máli voru of litlar og á ekki að leysa þá undan ábyrgð í því. Hitt er svo annað mál að ábyrgð á þessum málum verður ekki komið fyrir á einum stað. Hún getur aðeins skapast með eðlilegum hætti, að það sé fyrir hendi heilbrigt fjármálalíf og efnahagslíf í landinu og það er aðalatriðið.
    En að halda því fram að nú sé bjart fram undan hjá íslenskum skipasmíðaiðnaði vegna þess að það eigi að fara að breyta löggjöf um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands og breyta, væntanlega með handafli, lánshlutföllum Fiskveiðasjóðs, að þá muni verða bjartari tíð hjá skipasmíðaiðnaðinum, það á ekki að vera að gefa undir fótinn með þessum hætti. Það á ekki að telja mönnum trú um það að þarna liggi vandinn. Og það á ekki að halda því fram að einhverjir aðrir menn með einhverjar annarlegar hvatir hafi komið í veg fyrir það að þetta hafi getað átt sér stað. Mér finnst það ekki sæma núv. hv. iðnrh. og viðskrh. að gefa slíkt í skyn.
    Hér er einfaldlega um það að ræða að því miður er okkar ágæti skipasmíðaiðnaður ekki samkeppnisfær á vissum sviðum en það er jafnframt afar nauðsynlegt að varðveita möguleika hans og verkþekkingu til að veita íslenskum sjávarútvegi og íslenskum kaupskipaflota ákveðna þjónustu. Og það á að leita allra færra leiða til að gera það. En að verður að vera með þeim hætti að það sé byggt á réttum grundvelli. Hæstv. viðskrh. sagði hér 6. nóv. 1989, og ég man mjög vel eftir því, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við þurfum að reyna að finna lausn á þessu vandamáli sem er að viðhalda góðri skipaþjónustu í landinu fyrir okkar fiskiskipaflota án þess að grípa til styrkja eða ríkisforsjár í greininni . . . `` Hann sagði jafnframt: Og án þess ,,að það sé gert að takmarka með einum eða öðrum hætti aðgang íslenskra útgerðarmanna, íslenskra útgerða að erlendum skipasmíðastöðvum.`` Og jafnframt sagði hann: ,,Við höfum engin efni á því að íþyngja okkar sjávarútvegi með því að skylda hann til þess að notfæra sér eingöngu þjónustu innlendra skipasmíðastöðva.``
    Þetta eru eðlileg og heilbrigð sjónarmið og ég var þessum sjónarmiðum sammála og taldi satt best að segja að um það hefði ríkt samstaða okkar í milli og varð því nokkuð undrandi að lesa það sem hæstv. núv. iðnrh. sagði um hluti eins og þá að hann hefði gert tillögur um það að skipasmíðaiðnaðurinn fengi aðild að stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands.

Það er alveg rétt að hann gerði tillögu um það. En heldur hæstv. iðnrh. að það hefði breytt miklu? Og heldur hæstv. iðnrh. að það hafi verið auðvelt að ná um það bærilegri samstöðu við sjávarútveginn? Það var náttúrlega alveg ljóst að það hefði ekki verið gert nema í fullkominni andstöðu við hann og það mál var kannað. Og spurningin er þá sú: Er það þess virði að búa til slíkan ágreining ef það leysir ekki þau viðfangsefni sem menn eiga við að stríða? ( Forseti: Forseti vill vekja athygli hv. þm. á því að nú er klukkan 7 og þá var ætlunin, samkvæmt samkomulagi sem áður var vísað til hér við umræðuna, að gera hlé á þessum fundi. Forseti vildi mælast til þess við hv. ræðumann að hann gerði nú hlé á ræðu sinni og tæki upp þráðinn á ný þegar þetta mál kemur að nýju á dagkskrá.)
    Virðulegi forseti. Ég mun að sjálfsögðu verða við þeirri ósk og mun gera hlé á máli mínu. ( Forseti: Forseti þakkar hv. þm. undirtektir hans.)