Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 10:39:00 (2037)

     Kristín Einarsdóttir (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Í lok 2. mgr. 25. gr. þingskapa segir að 3. umr. fjárlaga skuli hefjast eigi síðar en 15. des. Hún hefur ekki hafist í dag og það er 15. des. á morgun. Þegar þetta var sett inn í þingsköpin á síðasta þingi var það einmitt gert til þess að umræðan mundi hefjast ekki síðar en 15. des. Sú var ástæðan fyrir því að þetta var sett inn og mikil áhersla var lögð á það til þess að hægt væri að skipuleggja þinghaldið með einhverjum hætti. Ef það er eins auðvelt og forseti virðist telja að það sé ekki annað en að setja 3. umr. fjárlaga á dagskrá og fresta henni síðan, þá er að mínu mati farið mjög á svig við þingsköpin. Ég tel að ekki sé hægt að gera þetta með þessum hætti.
    Ég vil hins vegar benda á að í 90. gr. þingskapa að stendur að bregða megi út af þingsköpum ef tveir þriðju hlutar þingmanna samþykkja það en þá leið virðist ekki eiga að fara. Hæstv. forsrh. upplýsti í umræðunni í gær að hugsanlegt væri að ríkisstjórnin væri tilbúin með tillögur sínar um miðja næstu viku þannig að við erum auðvitað alveg í lausu lofti. Þá er jafngott að fella þetta ákvæði út úr þingsköpum ef svona á að fara með það og ég vil lýsa því hér að ég tel ekki farið að þingsköpum.