Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 10:44:00 (2039)

     Jón Helgason (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Mér finnst að verið sé að hártoga ákvæði þingskapa á leiðinlegan hátt þar sem segir að 3. umr. fjárlaga skuli hefjast fyrir 15. des. Ég held að ekki hefði verið hreyft neinum mótmælum við því að umræðan hæfist í dag þó að nál. væru ekki komin en að mínum skilningi hefði hún hlotið að hefjast þannig að formaður og frsm. meiri hluta fjárln. hefði komið hér og gert þingheimi í örstuttu máli grein fyrir því hvernig málin stæðu og af hverju nauðsynlegt væri að fresta umræðunni. Þá held ég að enginn hefði gert athugasemd við það. En úr því að búið er að taka málið á dagskrá, þá vildi ég nú koma með þá ábendingu hvort hæstv. forseti vildi ekki leysa úr þessum hnút með því að setja nýjan fund og taka málið inn á dagskrá og gefa formanni fjárln. tækifæri til þess að gera þetta þannig að hægt væri að segja að umræðan væri hafin og hann síðan frestaði sinni ræðu og málinu væri frestað.