Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:04:00 (2044)

     Jón Kristjánsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur gert grein fyrir samkomulagi sem varð milli þingflokka um þessa umræðu í dag og ég þarf því ekki að endurtaka það. Hv.

2. þm. Suðurl. hefur bent á leiðir til þess að forminu sé fullnægt og þarf ég ekki að hafa fleiri orð um það, enda var það ekki ástæðan til þess að ég kem hér upp, heldur eru það ræður formanns fjvn., hv. 6. þm. Reykn., og varaformanns, hv. 2. þm. Norðurl. v., sem eru vel lesnir í fortíðinni eins og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru yfirleitt því að þeir virðast hugsa mest um fortíðina. Þær ræður eru ástæða þess að ég kem hér upp.
    Það hafa aldrei verið neinar deilur um það, ekki í fjárln. og við fulltrúar Framsfl. í nefndinni, hv. 1. þm. Norðurl. e. og sá sem hér stendur, tókum það báðir fram ef ég man rétt í ræðum okkar við 2. umr. að það væri engin nýlunda að málum væri frestað til 3. umr. Það hefur aldrei verið deilt um það. Það er alveg óþarfi að liggja í fortíðarrannsóknum þess vegna. En eitt er nýlunda í þessari umræðu. Það eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem koma þvert ofan í 2. umr. málsins. Þar er verið að taka upp mjög stóra málaflokka eins og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem á að gilda til frambúðar. Það er frábrugðið ákvörðunum um rekstur Þjóðleikhússins eða einstakar ákvarðanir sem varða 4. gr. Það er engin nýlunda að því sé frestað til 3. umr. En verkaskipting ríkis og sveitarfélaga á að gilda til frambúðar. Það er ekki nóg að það sé einn afmarkaður þáttur, málefni fatlaðra sem var kynnt að ætti að fara til sveitarfélaganna, heldur er það kynnt við 2. umr. að það standi til að bjóða þeim einhverja aðra þætti. Nú er það komið upp að taka á upp löggæslumálin í landinu sem eru afar stór málaflokkur og breyta honum til frambúðar. Það er þetta sem er nýlunda og það er þess vegna sem þessar umræður eru og það er þess vegna sem minni hluti fjárln. þarf að hafa tíma til að vinna. Það verður kannski komið til okkar næstu daga og okkur kynnt það að sveitarfélögin eigi að taka yfir löggæsluna í landinu að stórum hluta. Við viljum þá að sjálfsögðu gjarnan kalla í forsvarsmenn lögreglunnar og vita hvernig þetta kemur við þá og gera okkur grein fyrir hvaða áhrif þetta hefur á þann málaflokk. Það er þetta sem er nýlundan. En það er engin nýlunda í sjálfu sér að frestað sé ýmsum veigamiklum málaflokkum til 3. umr. Ég ætla að biðja menn að vera ekki að deila um það en það eru þessar stóru kerfisbreytingar sem eru nýlunda í umræðunni og svona seint fram komnar.