Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:08:00 (2045)

     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðurl. e., Valgerði Sverrisdóttur, fyrir frásögn hennar af því sem fram fór þegar afgreiðslan var undirbúin sem átti sér stað hér í morgun að því er varðar 3. umr. fjárl. Frásögn hennar af þessu var nákvæmlega rétt. Þetta var nákvæmlega eins og hún lýsti því og ég vil þakka henni fyrir þann drengskap að standa upp og segja frá því.
    Það var jafnframt um það rætt á fundi þingflokksformanna að ekki væri þess að vænta að um þetta atriði yrðu þingskapaumræður og ég vil taka það sérstaklega fram að ég lít ekki svo á að ræða hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar sem hóf umræðu um þingsköp hafi verið um hina formlegu afgreiðslu málsins heldur framhald umræðu þegar hún getur hafist og ýmis atriði sem því tengjast. En það er því miður ekki hægt að segja það sama um ýmsa aðra sem hafa staðið upp og gagnrýnt þessa formlegu afgreiðslu þrátt fyrir það samkomlag sem búið var að gera.
    Hvað sem því líður, virðulegi forseti, vil ég jafnframt að það komi fram að ég tel ekki að forsrh. hafi sagt hér í gær að ríkisstjórnin yrði tilbúin með sín mál um miðja næstu viku heldur að 3. umr. fjárlaga gæti hafist um miðja næstu viku þannig að það á ekki að vera neitt í veginum fyrir því af hálfu ríkisstjórnarinnar ef mál vinnast að öðru leyti með þeim hætti hér í þinginu að það geti orðið þannig.
    Að öðru leyti vildi ég biðja menn að geyma sér hina efnislegu umræðu um fjárlagafrv. þar til 3. umr. þess fer fram og eyða ekki meiri tíma í dag í að ræða efnisatriði frv. sem fjárln. á auðvitað eftir að fjalla um og veitir ekki af sínum tíma til þess að sinna.