Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:20:00 (2049)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Það skiptir afar miklu að þingsköp Alþingis séu ekki eitthvert pappírsgagn sem við getum umgengist með þeim hætti sem hér er verið að gera og þess vegna er það afar eðlilegt að það sé gagnrýnt að hér sé frv. til fjárlaga aðeins að formi til tekið á dagskrá til 3. umr. Það er miklu eðlilegra að þingið breyti þingsköpum ef það ekki getur framkvæmt þingsköp eftir orðanna hljóðan og að innihaldi til því það blasir auðvitað við öllum að þetta ákvæði kveður á um að 3. umr. skuli fara fram eigi síðar en 15. dag desembermánaðar. Það er eingöngu að nota krókaleiðir til þess að þurfa ekki að breyta þingskapalögunum að fara með málið eins og hér er gert. Ég er ekkert að fullyrða hvort það stenst að ýtrasta formi til. En það er ekki formið, það er innihaldið, ætlunin, sem menn hafa með því að setja þetta í lög, sem skiptir máli.
    Hér hafa menn komið upp til þess að reyna að krafsa yfir það sem gerðist við atkvæðagreiðslu í sambandi við frv. til fjárlaga í gær. Hv. formaður fjárln. kom hér til þess að gera yfirbót fyrir hönd ríkisstjórnarliðsins þegar minni hluti þeirra sem þátt tóku í atkvæðagreiðslu greiddi atkvæði með 4. gr., aðalgrein, fjárlagafrv. Hv. þm. leitaði fanga aftur í tímann, til afgreiðslu fjárlaga við 2. umr. 1988 og hann fór ekki betur með það en svo að hann lét í það skína að það hefðu verið hliðstæð niðurstaða. En hvað er það sem gerðist þann 17. des. 1988 við afgreiðslu á 4. gr. fjárlagafrv.? Það fer fram nafnakall um 4. gr. og hún er þannig samþykkt með 31 shlj. atkv. að viðhöfðu nafnakalli en 26 þingmenn greiða ekki atkvæði, fjarstaddir eru atkvæðagreiðslu, ég hef ekki kannað hvort það er með fjarvistarleyfi eða hvernig það lá fyrir, ég hef ekki haft aðstöðu til að kanna það á skömmum tíma, sex þingmenn. Fjarstaddir eru sex þingmenn þar af einn stjórnarstuðningsmaður ríkisstjórnarinnar á þeim tíma, en ríkisstjórn hafði þá 32 þingmenn á bak við sig í Alþingi. Þetta er borið hér fram til þess að reyna að krafsa yfir þá stöðu sem kom upp í ríkisstjórnarliðinu í gær. Það má segja að það er langt seilst í þeim efnum.
    Hér hefur eðlilega verið bent á að á dagskrá fundarins í dag eru mál þar sem stjórnarliðar hafa sent þinginu formleg erindi og hótað lögsókn ef lögleidd verði mál sem hér eru á dagskránni. Það er svona til að skreyta þetta erindi sem hér hefur verið nefnt og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson stendur undir, jöfnunargjald, og það er ekki talið annað fært en leita réttar fyrir dómstólum til þess að fella það ákvæði úr gildi ef lögleitt verður. En svona er staðan á mörgum sviðum hjá hæstv. ríkisstjórn og stuðningsliði hennar hér á þessum degi.