Skolphreinsun

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:43:00 (2053)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmanni fyrir að hafa komið fram með þessa þáltill. Hún er gott innlegg í umhverfismálaumræðuna í þjóðfélaginu og var, eins og hann gat um í sínu máli hér áðan, eitt stærsta mál þjóðarinnar í nýlegri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar umhverfismálin. Því miður höfum við Íslendingar ekki verið mjög vakandi í þeim málaflokki á síðustu árum. Höfum við raunar lítið annað gert en að hæla okkur af því að okkar land væri svo hreint og ómengað að við þyrftum nánast ekkert að hugsa um þann málaflokk. Við erum auðvitað svo heppin að það er að nokkru leyti rétt, þ.e. við erum enn þá með tiltölulega hreint og ómengað land, a.m.k. að ytra útliti, en þegar nánar hefur verið farið ofan í þau mál hefur ýmislegt grunsamlegt komið í ljós eins og ég veit að þingmenn vita sem hafa fylgst eitthvað með eða lesið um þau mál á síðustu árum. Þetta verður mjög stórt mál hjá sveitarfélögum í næstu framtíð og það hefur komið fram á fundum meðal þeirra að það muni verða einn stærsti málaflokkur sem þau þurfa að fást við á næstu árum.
    Í fjárlagafrv. til næsta árs eru 5 millj. kr. inni hjá umhvrn. til að fást við þennan málaflokk, þ.e. sorp- og frárennslismál sveitarfélaga. Það er lítil upphæð en kannski viðleitni, fyrsta viðleitni, vegna þess að raunverulega er þarna um málefni sveitarfélaga að ræða en ekki ráðuneytis. Hins vegar held ég að ég verði að taka undir það sem hefur komið fram hjá sveitarfélögunum um að þetta er svo stór málaflokkur að ekkert eitt sveitarfélög og ekki einu sinni þau sameinuð muni ráða við hann heldur verði þetta að vera að einhverju leyti forgangsmál hjá umhvrn.
    Því hefur líka lengi verið haldið á lofti hér, af því að við búum á eyju úti á Atlantshafi, að sjórinn taki lengi við. Það sé allt í lagi að láta skolpið bara út fyrir landsteinana. Það er líka nokkuð sem við ættum að fara að gera okkur grein fyrir að gengur ekki vegna þess að við búum við mikinn sjógang og það er oft mjög erfitt að koma þessu út fyrir stórstraumsfjöru og jafnvel dugar það ekki vegna þess brims og hafróts sem hér er oft í kringum landið.
    Í raun og veru er með eindæmum hversu við Íslendingar og þá ekki síst sveitarstjórnarmenn, sem hafa náttúrlega haft þetta á sínu sviði, að hugsa um þessi mál, höfum verið sofandi fyrir þessum málaflokki. Ég minni á að það er mjög langt síðan kvennasamtök yfirleitt hafa farið að benda á þennan málaflokk og ég minnist þess líka að í þeim kvennasamtökum sem ég hef starfað í eru áreiðanlega komin um 25 ár þar sem við höfum ítrekað gert samþykktir um þessi mál og sent þau frá okkur til stjórnvalda og bent á að við værum þarna að fljóta sofandi að feigðarósi ef menn færu ekki að vakna.
    Við erum sem sagt, eins og ég sagði, langt á eftir öðrum þjóðum í umhverfismálum og ekki síst í fráveitumálum og við munum þurfa að hugsa mikið fyrir þeim, leggja mikið fjármagn í þau á næstu árum. Nauðsynlegt er að gera það til að við getum haldið áfram að byggja upp þann atvinnuveg sem þó hefur verið í vexti hjá okkur, þ.e. ferðaþjónustan. Ef við getum ekki haldið áfram að hæla okkur af því að landið okkar sé ómengað og hreint þá verður okkur erfiðara um vik að efla okkar ferðaþjónustu því að ég er alveg sannfærð um að það verður eftirsóttara eftir því sem árin líða að heimsækja og ferðast um land eins og okkar þar sem náttúran er svo óspjölluð sem hún þó er. Ef við förum ekki að gera eitthvað róttækt í þessum málum erum við á hættulegri braut. Ég vil því þakka fyrir að tillagan skuli vera komin fram og vænti þess að hún fái góða umfjöllun í þinginu.