Skolphreinsun

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:48:00 (2054)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegur forseti. Ég þakka flm. þáltill. fyrir að hafa flutt hana hér. Það er, eins og hefur komið fram, full ástæða til að taka á þessum málum. Þarna er verið að taka á einum þætti málsins og ég tel fulla ástæðu til að gera það með líkum hætti og hér er lagt til.
    Það er vonandi að það sé rétt, og ég er svo sem ekkert að efast um það, að skilningur manna sé að vakna á þessum málum, en hann hefur verið ótrúlega lítill í mörg ár og alveg fram á þennan dag. Það er hægt að segja að sveitarfélög, og fólkið í bæjum og þorpum víðs vegar um landið, hafi ekki haft skilning á að setja þá fjármuni í fráveitur og skolphreinsun sem hefði þurft að gera. Menn hafa tekið fram yfir aðrar framkvæmdir, göturnar í bæjunum og önnur umhverfismál sem kannski sjást meira en hafa raunverulega ekki jafnmikla þýðingu fyrir heilsufar eða umhverfisvernd og þau mál sem eru til umræðu núna. Það er satt að segja hægt að benda á alveg ótrúlega hörmulega hluti sem hafa gerst. Við höfum séð skolpræsi --- úldinn úrgang frá fiskiðjuverum við hliðina á þeirri matvælaframleiðslu sem við erum með í landinu og ég hef sjálfur séð hluti sem var mjög ótrúlegt í raun og veru að ekki skuli hafa verið stöðvaðir af yfirvöldum. Og þar kem ég að þeim þætti málsins sem mér finnst að hafi verið vanræktur mjög og það er að fylgja eftir þeim reglum sem eru í gildi. Ég tel að það sé ekki bara um það að ræða að nú séum við að byrja á einhverju nýju verki, heldur á ríkið að fylgja eftir þeim reglum sem eru í gildi og það er hægt að gera margt til að draga úr mengun sem ekki hefur verið gert.
    Ég bendi t.d. á það að því er ekki fylgt eftir hjá fiskvinnslustöðvum að sigta úrganginn frá vinnslunni. Það er ekki kostnaðarsamt. Það eru til mjög hagkvæmar lausnir á því og það þarf ekki að skipa neinar samstarfsnefndir til þess að útbúa þær lausnir. En það þarf að fylgja því eftir að fiskvinnslufyrirtækin geri þetta. Úrgangurinn frá fiskvinnslustöðvunum er ein aðalástæðan fyrir því hvað mikið er af fuglsvargi hér í landinu. Og þó að ég sé ekkert á móti fuglum þá tel ég að það sé óþarfi að sjá til þess að mávastofninn haldist svo stór sem hann nú er svo og aðrir vargfuglar.
    Þessu vildi ég koma að, að það er margt sem er hægt að gera án þess að því fylgi gífurlegur kostnaður. Það eigum við auðvitað að gera fyrst og fremst á meðan við erum svo að fylgja eftir þeim breytingum sem þurfa að verða hjá sveitarfélögunum sjálfum og þar tek ég undir að einhverri skipan verður að koma á þannig að sveitarfélögin sem verða fyrir mjög miklum kostnaði vegna þessara framkvæmda hafi möguleika á að fjármagna þær með löngum lánum og sameiginlega að einhverju leyti. Það verður ekki hægt að láta sum sveitarfélög bera þann kostnað sem fellur til á þeim stað einfaldlega vegna þess að þá erum við bara að fresta málinu. Þá verður ekkert gert því að þau ráða ekki við þann vanda sem er hjá þeim og það á auðvitað við um miklu fleira en bara skolphreinsunina. Það á auðvitað við um annan úrgang og sorphirðu. Það þarf að taka á þeim málum öllum sameiginlega. En fyrst og fremst þarf auðvitað að efla skilninginn á þessum málum. Ég tel t.d. að þetta sem ég var að ræða um áðan, þ.e. að menn hafa ekki haft neinn skilning á að það þyrfti að koma alls kyns lífrænum úrgangi fyrir með neinum sérstökum hætti. Það þarf að efla skilning manna á því að þetta sé óleyfilegt, menn verði að taka á þessu. Ég bendi á eitt fyrirtæki sem hefur verið til umræðu hér á hv. Alþingi, Sementsverksmiðju ríkisins. Hún heldur árlega margar veislur fyrir allan fuglsvarginn hér á Faxaflóanum. Þegar verið er að dæla upp sandi fyrir verksmiðjuna þá kemur mikið magn af fiski með og í þennan fisk sækir þessi fuglsvargur mjög mikið. Og ég sé ekki annað en það verði að fylgja því eftir gagnvart þessu fyrirtæki að það taki á þessu máli. Fram að þessu hafa menn ekki

lagt í það að hreinsa þennan úrgang í burtu.
    Þannig er um margt annað og ég endurtek og ítreka það að ég tel að það eigi að fylgja þessu mjög eftir gagnvart fiskvinnslufyrirtækjunum. Það er ekki sá kostnaður að það geti kollvarpað þeim og auk þess er ekki eftir neinu að bíða lengur með þann lið.
    Ég trúi því að í mörgum sveitarfélögum sé hægt að leysa málin betur. Aðstæður eru mjög mismunandi hjá sveitarfélögum. Sums staðar þarf ekki að fara mjög dýrar leiðir og ég tel mjög mikilvægt að menn fylgi því eftir að ráðist verði í þær framkvæmdir sem hagkvæmastar eru og ódýrastar á hverjum stað sem allra fyrst. Það kann vel að vera að dýrustu og erfiðustu málin verði að bíða eitthvað meðan verið er að undirbúa stærra átak en mér finnst að umhvrn. eigi að reyna að standa fyrir því að farið verði að hefjast handa þar sem lausnirnar liggja raunverulega fyrir og það sé ekki látið dragast. Þess vegna ítreka ég það enn og aftur, hvort sem það á nú að vera umhvrn. eða aðrir aðilar í þjóðfélaginu, að þeir byrji á því að fylgja eftir þeim reglum sem eru í gildi og er hægt að framfylgja í dag.