Skolphreinsun

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:56:00 (2055)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þakkir til hv. þm. Gísla S. Einarssonar um að hafa forustu fyrir því að flytja þessa merku till. til þál. Tillagan sem slík fjallar um það að skipa samstarfshóp sem hanni skolphreinsibúnað sem hæfi íslenskum aðstæðum og svo í öðru lagi að gerð verði kostnaðaráætlun fyrir slíkan skolphreinsibúnað.
    Ég vil vekja athygli á nokkrum atriðum sem koma fram í greinargerðinni er fylgja þessari þáltill. en það er sú brýna nauðsyn að gerð verði úttekt á núverandi ástandi þessara málefna og að sérstaklega verði hugað að fjármagnsþættinum andspænis litlu sveitarfélögunum. Ég held að hérna sé hreyft brýnu máli að fram fari gaumgæfileg úttekt á ástandi þessara mála hjá sveitarfélögum um landið allt og að samtök sveitarfélaga megi ásamt ríkisvaldinu, umhverfisráðuneytinu, hafa forustu í góðri samvinnu um að þessi úttekt verði gerð. Ég held að brýnast sé að slíkt skref verði stigið fyrst og að fjármunir verði tryggðir til þess að þetta megi gera. Mér segir svo hugur að ástandið í þessum efnum sé víða mjög slæmt og það þurfi að gera gangskör að því strax að gripið verði til úrbóta.
    Þetta leiðir hugann líka að ástandinu í sorpmálunum, en það er ekki síður mikill vandi sem blasir við þessari þjóð að uppfylla ákvæði mengunarvarnareglugerðar er kveður á um ströng skilyrði í þessum efnum en setur um leið fjárhagsklafa á sveitarfélögin af því að þau standa ekki undir svo ströngum en nauðsynlegum reglum.
    Ég vil aftur þakka flm. fyrir að hreyfa þessu máli. Þetta verður tekið til nákvæmrar skoðunar í umhvn. Það verður lögð áhersla á samráð við samtök sveitarfélaga í landinu og þannig reynt eftir því sem aðstæður allar leyfa að koma þessum málum betur fyrir en verið hefur fram að þessu.