Fráveitumál sveitarfélaga

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:59:00 (2056)

     Flm. (Sigurður Hlöðvesson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 198 um fráveitumál sveitarfélaga. Flm. ásamt mér er hv. þm. Margrét Frímannsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta gera úttekt á stöðu fráveitumála hjá sveitarfélögum í landinu, meta kostnað við úrbætur og gera tillögur um hvernig sveitarfélögum verði auðveldað að standa undir kostnaði við úrbætur.``
    Virðulegi forseti. Sjávarútvegur og fiskveiðar eru og verða undirstaða undir afkomu þjóðarinnar. Um 70--80% útflutningstekna koma beint af sjávarafurðum. Möguleikar okkar liggja fyrst og fremst í gæðum og hreinleika afurðanna, vandaðri vinnslu og meðferð. Það er því mjög brýnt að staða mengunarmála verði skoðuð gaumgæfilega þannig að við stöndum ekki áður en við vitum af á kafi upp fyrir haus í mengun.
    Ísland hefur gefið sig út fyrir að vera hreint og ómengað matvælaframleiðsluland þar sem við framleiðum úrvalsvörur unnar úr hráefni í hreinu og ómenguðu umhverfi. Möguleikar okkar liggja fyrst og fremst í að framleiða hágæðavörur. Til þess að svo geti verið verðum við að gera verulegar úrbætur í umhverfismálum þannig að við getum haldið þeirri ímynd sem tekist hefur að skapa, að Ísland sé hreint og ómengað matvælaframleiðsluland. Ástand sorphirðu og fráveitumála sveitarfélaga er víða í miklum ólestri. Að undanförnu hefur á vegum umhvrn. verið unnið markvisst að úttekt á sorphirðumálum og tillögur gerðar um úrbætur. Einnig hafa verið mótaðar hugmyndir um fjármögnun á kostnaði við úrbætur.
    Eins og áður sagði eru fráveitumál sveitarfélaga í miklum ólestri. Þar þurfa að koma til verulegar úrbætur nú þegar. Skolp frá íbúðarbyggð og frárennsli frá fiskvinnslustöðvum og öðrum atvinnurekstri rennur víða óhreinsað til sjávar eða í næsta vatnsfall. Mengun af völdum frárennslis er því víða langt yfir þeim mörkum sem sett hafa verið í nýrri mengunarvarnareglugerð. Í mengunarvarnareglugerðinni sem tók gildi 1. jan. 1990 eru mjög hertar kröfur um hreinsun og hámarksgerlamengun skolps sem leitt er í sjó. Til að gera raunhæfar úrbætur þarf að gera ítarlega faglega úttekt á stöðu mála. Lausnir þarf að finna sem hvort tveggja í senn uppfylla nauðsynlegar umhverfiskröfur og tryggja hagkvæmni og hámarksnýtingu fjármagns.
    Stofnkostnaður við úrbætur í fráveitumálum er mjög mikill en ef vel tekst til eru þær ódýrar í rekstri. Ætla má að kostnaður hvers sveitarfélags skipti tugum milljóna. Alls má ætla að heildarkostnaður sveitarfélaga í landinu sé töluvert á annan milljarð. Hér er um svo mikla fjármuni að ræða að nauðsynlegt er á skipulegan hátt að leita að hagkvæmri og fullnægjandi lausn. Lausnir munu verða mismunandi eftir aðstæðum á hverjum stað.
    Á þessum málum er engin patentlausn. Aðstæður eru mjög misjafnar þannig að á sumum stöðum hentar að sameina útrásir og hreinsa skolpið en á öðrum stöðum er kostnaðarlega ekki hagkvæmt að sameina útrásir heldur verður að lengja þær til að tryggja þynningu og til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar. Til að tryggja góðar, faglegar og hagkvæmar lausnir verður umhvrn. að hafa faglega forgöngu í málinu.
    Það er ljóst að kostnaðarsamt er að gera viðeigandi úrbætur til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar. Eins og áður sagði eru lausnir í fráveitumálum sveitarfélaga mjög mismunandi eftir aðstæðum. Í sumum, sennilega í flestum sjávarplássum úti á landsbyggðinni liggja margar skolprásir beint út í höfnina. Skolpmengun safnast því saman í höfnina, þar sem þynning og endurnýjun er mjög lítil. Víða þarf því að koma til mjög kostnaðarsöm framkvæmd við safnlögn eða sniðræsi til að sameina útrásir og eftir aðstæðum þarf jafnvel að koma til dælingar.
    Til að uppfylla kröfur þarf annaðhvort að hreinsa skolpið eða leiða það út úr hafnarsvæði þar sem nægjanleg þynning og endurnýjun er. Í sumum sveitarfélögum þarf enn fremur miklar endurbætur á eldri skolplögnum. Kostnaður sveitarfélaga við úrbætur getur því verið mjög mismikill. Fjárhagur sveitarfélaga er mjög misjafn. Ef vera á hægt að framkvæma úrbætur á skömmum tíma verða að koma til auknar tekjur, styrkir til stofnframkvæmda eða ódýrt lánsfjármagn. Flest sveitarfélög fullnýta tekjustofna sína og duga tekjur þó ekki til að leysa þau verkefni og þá þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum. Til þess að sveitarfélögin geti ráðist í nauðsynlegar úrbætur í fráveitumálum þannig að þau uppfylli kröfur mengunarvarnareglugerðarinnar þurfa þau að fá aukið fjármagn. Þar þarf að koma til aðstoð við fjármögnun stofnkostnaðar. Leita verður leiða til þess að létta sveitarfélögunum þá fjármögnun.
    Virðulegi forseti. Mikilvægi umhverfismála eykst með hverju ári. Hreint land, ómengað haf og heilnæmt loft eru verðmæti sem við Íslendingar megum ekki glata. Þess vegna verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja að við glötum ekki þessum verðmætum.
    Þáltill. þessi er flutt með það að markmiði að kannað verði ástand fráveitumála sveitarfélaga þannig að hægt sé að meta kostnað við úrbætur og gera tillögur um leiðir til að létta sveitarfélögunum fjármögnun á nauðsynlegum úrbótum.
    Virðulegi forseti. Að lokinni fyrri umræðu legg ég til að till. verði vísað til síðari umr. og umhvn.