Fráveitumál sveitarfélaga

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 12:06:00 (2057)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka flm. fyrir að flytja þessa þáltill. Mér finnst að þessi mál --- þetta er að vísu mjög skylt því máli sem við voru að ræða rétt áðan --- séu öll mjög þörf til að fylgja því eftir að eitthvað fari að gerast í mengunarmálum okkar. Þannig er og menn verða að gera sér grein fyrir því hér á hv. Alþingi að sveitarstjórnir víða um landið bíða átekta vegna þess að í umræðunni hefur verið að komið yrði til móts við sveitarfélög í landinu í sambandi við kostnað. Meðan það hangir í lausu lofti hvernig verður tekið á þeim málum munu ýmsar sveitarstjórnir bíða átekta. Þær munu kannski reyna að gera sér grein fyrir með hvaða hætti eigi að leysa sín mál en þær munu ekki hefja framkvæmdir. Þess vegna er það mjög þarft og full ástæða til að Alþingi geri sér sem fyrst grein fyrir og taki ákvarðanir í framhaldi af því til þess að sveitarstjórnir í landinu séu ekki að bíða eftir einhverjum nýjum ákvörðunum heldur verði komið á einhverju endanlegu kerfi eða menn viti hvar þeir standa, hvaða aðstoð þeir geta fengið, hvers konar fjármagnsfyrirgreiðslu og allt annað sem tengist þessum málum.
    Ég stóð fyrst og fremst upp til þess að þakka þessa tillögu og til að vekja athygli á því að hv. Alþingi þarf að hreinsa loftið svo að þessi mál tefjist ekki meira en nauðsynlegt er.