Fráveitumál sveitarfélaga

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 12:12:00 (2059)

     Gísli S. Einarsson :
     Virðulegur forseti. Ég kem aðeins hér upp til að vekja athygli á því að þessar tillögur sem hér hafa verið ræddar falla mjög vel saman. Ég tel ástæðu til að farið sé með þetta á þann hátt að umhvn. Alþingis hafi um það forustu hvernig þetta megi fara saman. Ég þakka flm., hv. þm. Sigurði Hlöðvessyni, fyrir þetta mál og ég tel brýna nauðsyn bera til að Alþingi Íslendinga móti forustu í þessu máli því að einstök sveitarfélög munu eiga í erfiðleikum með að fara af stað og það er hætt við að sóun verði og allt of miklir fjármunir settir í það ef ekki verður haldið utan um þetta á einni hendi. Um leið og ég segi þetta þakka ég fyrir þá umfjöllun sem bæði sú tillaga sem ég flutti og sú sem nú er flutt hefur fengið hjá Alþingi.