Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 12:32:00 (2063)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Forseti. Segja má að hratt snúist tímans hjól í utanríkismálum. Athyglisvert er það þegar hv. 4. þm. Reykv. vekur athygli á því að nú þurfi að hafa hraðar hendur og ná undirskrift Sovétríkjanna á meðan þar sé miðstjórnarvald. Skynjar maður nú gjörla að sá skilningur fer mjög vaxandi hvaða afleiðingar geta fylgt því þegar heimsveldi riðlast eða hrynja. Ég er hjartanlega sammála skilningi hv. 4. þm. Reykv. í þessum efnum.
    Hins vegar er mjög bagalegt að hér í salnum skuli ekki vera utanrrh. Það fer að verða á því vaxandi skilningur að hæstv. utanrrh. hafi sagt satt þegar hann lýsir því yfir í viðtali við Mannlíf að sér leiðist þingið. (Gripið fram í.) Það er nú svo að ekki er sama hvernig að málum er staðið. Þess vegna, að gefnu tilefni, tel ég núna einmitt tímann til að ræða þessa stöðu.
    Utanrrh. hefur látið að því liggja, og raunverulega aðeins verið að færa okkur fréttir frá Evrópu, að Efnahagsbandalagið vilji stofna þar sameiginlegan her og þeir vilja bjóða öðrum þátttöku. Ég verð að segja eins og er að mér finnst að það sé ákaflega óheppilegt að svona hugmyndir komi fram án þess að ráðherra geri grein fyrir sinni afstöðu hér í þinginu, þannig að þjóðin átti sig á því hver er hans stefna, að hverju er verið að vinna og hvaða hugmyndir eru þar á bak við. Ég tel að þetta sé þeim mun nauðsynlegra þar sem núv. utanrrh. er skjótur til orðs og áræðis, sennilega með þeim hraðvirkustu mönnum sem við höfum haft í því embætti og gæti þess vegna verið búinn að rissa upp uppkast á morgun að nýjum hugmyndum um hvernig hann vill standa að þessum málum.
    Ég játa að ég held að Íslendingar þurfi verulega að gá að sér í því dálæti sem þeir hafa á Evrópu umfram önnur svæði jarðar. Landfræðilega séð tilheyrir hálft Ísland Ameríku, ekki Evrópu, samkvæmt kenningunni um rek meginlandanna. Það fer ekkert á milli mála, sé það skoðað á út frá sögulegri staðreynd, í átökum okkar við ríki Evrópu, t.d. Breta, að þá voru það viðskiptin við Bandaríkin og Sovétríkin sem björguðu því að við héldum velli sem sjálfstæð þjóð. Það verður að segjast eins og er að nú er stöðugt meiri og meiri dýrkun á því að halla sér að nýlenduveldunum fornu. Á sama tíma og blekið er varla þornað af skjölunum þar sem þeir voru að gefa eftir yfirráð sín í öðrum heimsveldum hafa þeir hafið nýja sókn til þess að koma þessum þjóðum á kné með því að beita aðferðum viðskipta, þ.e. að reyna að þrýsta þeim stöðugt niður á það stig að þær séu fyrst og fremst hráefnisútflytjendur. Þessi aðferð er ekkert ný, hún er grundvallaratriði í allri sögunni ef við skoðum nýlendustefnuna. Evrópa hefur ekkert slakað á í þessum efnum. Hún er með heila herdeild hagfræðinga sem hafa beitt þessum leikreglum, annars vegar með tollum, að þrýsta þjóðunum á þennan hátt niður á frumframleiðslustigið, hins vegar með því að niðurgreiða vörur innan lands í Evrópu. Það er önnur aðferð til að tryggja að innflutningur á vöru verði á lægra verði frá hinum fátækari þjóðum heims en eðlilegt getur talist. Ég hef áður sagt í þessum ræðustól að ég tel að mesta hernaðarhætta heimsins stafi af því að menn vilja með viðskiptum koma í veg fyrir það að eðlileg framþróun á jafnréttisgrundvelli eigi sér stað í heiminum.
    Ég fagna að sjálfsögðu því að þeir risar, Varsjárbandalagið og Atlantshafsbandalagið, ég segi risar í þessu tilfelli um þá báða, því báðir hafa yfir þeim kjarnorkuvopnum að ráða að ekki þyrfti um að binda á þessari jörð ef þeim vopnum væri beitt. Ekki fer á milli mála að auðvitað fögnum við því að slíkir samningar séu komnir á að við trúum því í dag að styrjöld milli þessara aðila muni ekki eiga sér stað. Hins vegar eru þjóðernisátökin að magnast í heiminum. Fram hjá því þýðir ekki að horfa. Satt best að segja hafa menn verið furðu brattir að ýta undir þá kenningu að sérhvert þjóðarbrot eigi tvímælalaust að berjast fyrir því að rísa upp sem sjálfstæð fullvalda þjóð og sýna svo enn þá smærri þjóðarbrotum í sama samfélagi fulla hörku, og neita þeim um full mannréttindi. Það er sú þróun sem við blasir. Þessi þróun er náttúrlega í skörpustu mynd sinni í Ísrael þar sem blasir við að nútímaþrælahald er rekið á Palestínuaröbunum. Þeir eru geymdir þar í þeirri stöðu að ef þeir ætla að selja einhverja vöru úr landi verða þeir fyrst að selja Ísraelsmanni vöruna og hann selur hana svo úr landi. Þetta þýðir að það er gjörsamlega lokað fyrir nokkra efnahagslega möguleika þessarar þjóðar. Ég kalla þetta nútímaþrælahald. Á þessu bera Íslendingar fulla ábyrgð. Eru meira að segja einir af höfundum þess að koma þessu á. Ég játa vissulega að það var gert við erfiðar kringumstæður og menn voru hikandi hvernig ætti að leysa mál í stöðunni eftir heimsstyrjöldina síðari. En það breytir ekki því að við tókum þátt í að koma þessu á og þetta sár er í dag hættulegasta meinsemdin í friði á þessari jörð. Það veit enginn nema þetta sár geti kostað þriðju heimsstyrjöldina ef ekki tekst um að binda.
    Ég minnist þess að þegar ég las á sínum tíma mannkynssögu Evrópu þá var því stöðugt að manni haldið að Balkanskaginn væri púðurtunna Evrópu. Satt best að segja gleypti maður þetta hrátt og tók ekki alvarlega að þetta stæði þarna. En í ljósi þess sem nú er að gerast blasir það við og þýðir ekkert að blekkja sig að Efnahagsbandalag hefur reynst algerlega ófært um að skakka leikinn og tryggja þar frið, gjörsamlega ófært um það. Ég segi ekki að Prúðuleikararnir hefðu staðið sig betur en það má líkja þessu við það. Árangurinn er svipaður. Þess vegna verða menn að hugleiða það í fullri alvöru hvort í sumum kringumstæðum sé nú ekki skynsamlegra að stuðla að því að ríki með vissa miðstýringu fái staðist, sem tryggi öllum minnihlutahópum sama rétt, heldur en allt brotni í sundur, deilurnar magnist og þessi ófriður haldi áfram að berast til annarra landa. Ég segi þetta hér og nú vegna þess að mér sýnist að Evrópa standi á vissan hátt frammi fyrir sömu hættumerkjum í dag og hún stóð frammi fyrir þegar Rómarveldi riðaði til falls og hrundi seinna. Það getur vel verið að mönnum hafi þótt miðstýring þess ríkis of mikil. En menningarlegt hrun sem fylgdi á eftir og hinar myrku miðaldir Evrópu eru þó ærið umhugsunarefni hverjum þeim manni sem vill skoða söguna í réttu ljósi.
    Það þýðir ekkert að blekkja sig með því að hrun Sovétríkjanna mun þýða stórkostlega styrkingu fyrir múhameðstrúarríki heimsins. Það mun líka þýða stórkostlega styrkingu fyrir þau ríki Asíu sem í dag eru í hvað mestum uppgangi. Það er náttúrlega draumsýn vestrænna manna ef þeir trúa því að sú heimsmynd sem við höfum búið við, þ.e. algjörir yfirburðir hins hvíta kynstofns í völdum á þessari jörð, ef við trúum því að þetta þurfi að vera endanlegt og varanlegt. Auðvitað getum við stjórnað á það vitlausan hátt að hér verði hrun, hér verði menningarhrun. Ég segi það fyrir mig að ég hef aldrei getað skilið þá menn sem hafa talið að það væri áhættulaust ef þróunin yrði sú að Sovétríkin liðuðust í sundur og það mikla magn kjarnorkuvopna sem er dreift bæði með kafbátum, einnig með járnbrautarvögnum um öll Sovétríkin, það mikla kjarnorkumagn sem þarna er um að ræða, gæti lent að hluta til í höndum múhameðstrúarmanna. Ég segi þetta hér og nú vegna þess að við skulum gera okkur grein fyrir því að Ísraelsríki hefur komið þeirri skoðun á í öllum Arabalöndum að Bandaríkjamenn séu hið illa. Þeir eru búnir að ræna Bandaríkjamenn verulega ærunni á þessu landsvæði heimsins. Ég tel að það sé ekkert skrítið, það sem

þau eru að gera í dag sé raunverulega eitt það skynsamlegasta sem Bandaríkin hafa gert á seinni árum. Bush er nánast að neyða Ísrael að samningaborðinu til að láta á það reyna hvort hægt er að stöðva það ástand sem er í Palestínu. Auðvitað er honum ljóst að það þýðir ekkert hjá Sameinuðu þjóðunum að hafa einhverjar mannréttindareglur sem eigi að gilda alls staðar nema þar sem Ísraelsmenn drottna yfir sínum landsvæðum. Þar eigi að vera sérreglur.
    Ég hef farið dálítið vítt um þetta svið vegna þess að ég tel að það sé ekki rétt að láta það grassera lengi í umræðu hér á landi hvort við eigum að fara að gjörbreyta okkar stefnu í varnarmálum og fara í eitthvert samband við Evrópuþjóðirnar sérstaklega. Persónulega er ég sannfærður um að miklu breiðara samstarf þarf hjá þeim þjóðum heimsins þar sem lýðræði er og þar sem lýðræði fer vaxandi. Hjá þeim þjóðum þarf að vera samstarf um varnir en ef það er farið að búta það niður í viss svæði og vissar einingar þá fylgir því sú hætta að það geti orðið til þess að þessar einingar fari að takast á. Þess vegna vil ég segja að um leið og ég fagna því að þessi samningur er hér, og mun að sjálfsögðu styðja það að við munum fullgilda hann, sýnist mér að það séu hættumerki á lofti, veruleg hættumerki í þessum heimi og einnig hitt að ég óttast það beinlínis að gáleysislegt tal, þessi mikla múgsefjun sem gengur á Íslandi að við eigum heima í fangi nýlenduþjóða Evrópu, geti skaðað okkur bæði í varnarmálum og í efnahagsmálum.