Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 12:47:00 (2064)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Áður en ég hef ræðu mína varðandi þau efnisatriði sem mig langar til að ræða hér er óhjákvæmilegt að gera athugasemd við það að hæstv. utanrrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu. Satt að segja er stórfurðulegt að stjórn þingsins skuli hefja þessa umræðu án þess að hæstv. utanrrh. sé viðstaddur.
    Nú var það þannig að samkvæmt ósk hæstv. utanrrh. féllumst við á það, þingflokkarnir, að leyfa honum að flytja hér framsöguræðu í þessu máli án þess að um það yrði nokkur umræða. Það var gert til þess að greiða fyrir því að málið gæti komið til umfjöllunar í utanrmn. og til að greiða fyrir utanferðum hæstv. utanrrh. Nú er það þannig, eins og fram hefur komið í þessari umræðu og þarf reyndar ekki að taka það fram, að við erum að fjalla um einhvern mikilvægasta samning sem gerður hefur verið í Evrópu um þessar mundir. Ég ætla ekki að útskýra það með neinum sérstökum hætti, það er svo augljós staðreynd að það vita allir. Hins vegar hefur það gerst, síðan þessi samningur var gerður eins og hér hefur verið rakið í nokkru máli, að aðstæður í okkar heimshluta hafa breyst með þeim hætti að annað af tveimur meginríkjum, sem samninginn gerði ásamt mörgum öðrum, Sovétríkin, er ekki lengur til. Satt að segja skil ég ekki hvernig það hvarflar að hæstv. utanrrh. að bjóða þjóðþinginu upp á að ræða þennan samning hér án þess að vera viðstaddur. ( Forseti: Forseti vill gjarnan skjóta hér inn upplýsingum til hv. þm., sem frsm. utanrmn. var að veita forseta, að hæstv. utanrrh. hafði spurt hv. 4. þm. Reykv. hvort ráðherrann óskaði eftir að hann væri viðstaddur þessa umræðu. Hv. 4. þm. Reykv. tjáði mér að hann hefði sagt hæstv. utanrrh. að sín vegna þyrfti hann ekki að vera viðstaddur. Hins vegar tók forseti eftir því að hæstv. utanrrh. var farinn hér úr húsinu þegar umræðan hófst. Forseti hefur óskað eftir því að haft verði samband við hæstv. utanrrh. og hann látinn vita af því að forseti óskar eftir því að hann sé viðstaddur.) Já, virðulegi forseti, þetta er merkileg lýsing. Hæstv. utanrrh. er orðinn slíkur kerfiskarl að hann lætur sér það duga að spyrja formann utanrmn. (Gripið fram í.) Hann talaði ekki einu sinni við hann, hann sendi bara boð, það hefur sem sagt bara verið einn af embættismönnunum sem talaði við formann utanrmn. Hvílík kerfismennska. ( EKJ: Mín er sökin.) Það er engin sök hjá hv. þm. vegna þess að það er sjálfsagt hjá honum að veita það svar að hvað hann snertir, hv. þm. Eyjólf

Konráð Jónsson, þurfi utanrrh. ekki að vera hér, en það eru bara 62 aðrir þingmenn á þinginu. Hvað sem líður kerfismennskunni í utanrrn. þá er hér þjóðþing. Það hefur að vísu komið fram í viðtali í tímariti sem hæstv. forseti hefur bannað mér að nefna hér í ræðustólnum, ef ég leyfði mér að vitna í hæstv. utanrrh. í því tímariti. Forsetinn hefur ekki dregið þau fyrirmæli sín til baka þannig að ég þori ekki að minnast á ummæli utanrrh. í þessu tímariti aftur meðan sú yfirlýsing forsetans stendur óafturkölluð að a.m.k. ég megi ekki vitna í tímaritið Mannlíf. Allir aðrir þingmenn hafa á undanförnum dögum mátt vitna í það tímarit út og suður þannig að þetta bann á greinilega bara við 8. þm. Reykn. Ég mun auðvitað hlýða forsetanum þar til bannið hefur verið tekið aftur en því miður er það þannig að í þessu tímariti eru ummæli sem hefði legið beint við að vitna í núna ef ég hefði til þess heimild. ( GHelg: Þingmaðurinn hefur málfrelsi.) Já, ég hef málfrelsi, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, en þegar ég hugðist notfæra mér það til þess að lesa orðrétt tilvitnanir í hæstv. utanrrh. um íslensk stjórnmál þá hringdi hæstv. forseti bjöllunni og stóð upp nokkrum sinnum og bannaði mér að vitna í þessi orð. Ég óskaði síðan eftir því að fá úrskurð forsetans um það hvort þetta væri leyft eða ekki leyft og bannið dregið til baka eða ekki, en það hefur ekki verið dregið til baka svo a.m.k. hvað mig snertir þá er þetta tímaritsviðtal tabú í ræðustólnum. (Gripið fram í.) Ja, ég hef alltaf sýnt forsetaembættinu virðingu. A.m.k. hér í ræðustólnum hef ég gert það. ( Forseti: Forseti ætti kannski að skjóta hér inn nokkrum orðum aftur í tilraunaskyni, en málið er að þessi tillaga er að koma úr nefnd og forseta var tjáð að það væri samkomulag, væntanlega þingsins alls, að afgreiða þetta mál í dag. Rík áhersla hefur verið lögð á að það verði að komast úr þinginu í dag til þess að það komist í tæka tíð þangað sem tillagan þarf væntanlega að fara. Þess vegna tók forseti þetta fyrir, það var ekki gert ráð fyrir að hér yrði löng umræða en auðvitað veit hvorki forseti né aðrir fyrir fram hvort svo verður. Forseti getur því lítið gert annað en að biðja hv. þm. um að halda áfram máli sínu þrátt fyrir það að hæstv. utanrrh. sé ekki hér. Það er hv. formaður nefndarinnar sem mælti fyrir þessari tillögu og eins og forseti sagði áðan og ítrekaði aftur, hefur hann nú þegar gert ráðstafanir til þess að það verði haft samband við ráðherrann og hann látinn vita af því að forseti óskar eftir því að hann sé hér.) Virðulegi forseti, það er bara engan veginn nóg. Jafnvel þótt hæstv. utanrrh. hafi sagt við þingið: Þingið verður að afgreiða þetta í dag, en ég nenni ekki að mæta því mér leiðist hérna í þinginu, þá er það ekki boðlegt við þingið. Þetta er ekkert smámál, virðulegi forseti, þetta er stærsta málið sem hæstv. utanrrh. hefur komið með til þessa þings í þingskjali í nokkuð mörg ár. Það vill nú svo til að hæstv. utanrrh. var að lýsa yfir í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi í tvígang að hann teldi rétt að Íslendingar gerðust aukaaðilar að Vestur-Evrópubandalaginu og það tengist auðvitað þessu máli en kannski er það þannig að það megi ekki heldur vitna í það sem hæstv. utanrrh. segir í Ríkissjónvarpinu, þannig að yfir höfuð sé bannað í ræðustól þingsins að vitna í hæstv. utanrrh. utan þings. Þá fer þetta að verða dálítið erfitt, hæstv. forseti, vegna þess að hann er aldrei hérna til að hægt sé að tala við hann. Hann er búinn að hafa fjarvistarleyfi alla þessa viku og kom í atkvæðagreiðsluna í gær en hefur aldrei verið hér í þinginu þannig að hægt sé að tala við hann. ( Forseti: Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann vilji fresta ræðu sinni og umræðunni verði þá frestað þar til fyrir liggur hvenær hæstv. utanrrh. er væntanlegur hér á fundinn.) Já, hæstv. forseti, ég mun þiggja það boð að fresta ræðu minni þar til hæstv. utanrrh. kemur.